Kynnstu einhleypum í Reykjavík

Þessi texti var á auglýsingaborða á netsíðu bólivísks dagblaðs í dag, www.larazon.com. Forvitnilegt, ekki satt? -Og hefur örugglega vakið athygli margra. Auglýsingin leiddi síðan inn á síðuna Amigos.com, sem ég skoðaði ekki nánar.

Frábær helgi - takk fyrir mig!

Gullmót Sunddeildar KR, Frönsk menningarhátíð, Vetrarhátið, AFMÆLIÐ MITT.... Það var alveg sama hvert litið var, þetta var mikilvæg helgi. Ég hélt upp á stórafmælið með pompi og allnokkurri pragt, mæting var gífurlega góð og nóg af veigum og veitingum. Stórfjölskyldan, vinir og vinufélagar mættu og ég fékk að heyra fagrar mæringar um mig sjálfa í ræðum sem mér finnst nú ekki leiðinlegt. Ég fékk frábærar gjafir og langar að segja takk, takk kærlega fyrir mig, þið þekkið mig greinilega vel!  


Kartöflumús er góð en ekki í frásögur færandi

CheesyEr gúrkutíð, er verið að breiða yfir umræðuna um hátt matarverð, eða er kannski verið að færa áhersluna í Baugsmálinu yfir á léttara plan? Þetta er algjör "ekki-frétt". Það eru ekki mýs í Bónus. Gott. Og? Ég held tryggð við mína Melabúð hvort sem mýs finnast þar eður ei, enda mikill nagdýravinur eins og alkunna er.
mbl.is Stóra kartöflumúsarmálið leyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sælueyja án karla

Þetta er áhugavert framtak hjá Írönum. Ef konur geta hvergi verið í friði og verða sífellt að lúta reglum karla, hvers vegna þá ekki að útbúa stað þar sem engir karlar eru?! Maður ímyndar sér að það felist ákveðið frelsi í að losna undan drottnurunum, sem í mörgum samfélögum eru slíkir í krafti líkamsútlitslegs munar. (Þetta hefur nú verið get áður, samkvæmt sögunni, á eyjunni Lesbos undan strönd Grikklands, en það er önnur saga!) Íranir eru ekki svo galnir. Þeir hafa svarað Vesturlöndum því til, að ef þau krefjist þess að þeir hætti auðgun úrans til þróunar kjarnorku, þá ættu Vesturlönd að gera það líka. Hvers vegna ekki? Væri ekki nær að eyða fjármunum í að þróa aðra orkugjafa? Það myndi leysa nokkur vandamál á einu bretti, skal ég segja ykkur.
mbl.is Aðeins fyrir konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamaldags gaur

Brad kallinn á greinilega erfitt með að sætta sig við að konur hafa önnur viðhorf en hann var alinn upp við, því Jennifer hárfyrirmynd níunda áratugarins vildi ekki eiga fullt af börnum eins og hann, og nú vill Angelina stútulína góðgerðarprinsessa ekki rjúka upp að altarinu. Í stað þess að játast undir ný viðhorf, þá fer hann í tómt tjón greyið. Of þrjóskur, eins og er nú reyndin með marga góða drengi, hóst, hóst...


mbl.is Samband Jolie og Pitt sagt í vanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líf að færast í umræður um ESB aðild

Umræðan um ESB og hugsanlega aðild Íslands hefur undanfarið breyst úr yfirhylmingum og rangfærslum stjórnmálamanna, sem treystu því að almenningur væri almennt illa upplýstur, í meiri "matter-of-fact" umræðu. Ég fagna því, þar sem ég tel að Íslendingar þurfi að fara í aðildarviðræður til að vita í alvöru um alla kosti og galla þess að vera innan ESB. Reyndar er mín skoðun sú, að með EES samningnum höfum við í raun byrjað að taka þátt í Evrópusamrunanum, en séum í þrjósku okkar að fresta því að okkar forsendur og skoðanir hafi eitthvað að segja. Koma Michael A. Köhler, helsta aðstoðarmanns sjávarútvegsmálastjóra ESB hingað til lands og yfirlýsingar hans um að Íslendingar munu alltaf stýra aðgangi að sínum fiskimiðum, gæti haft áhrif á þróun umræðunnar. Pétur Gunnarsson minnir á að það voru Sjálfstæðismenn sem bentu á að aðild að Evrópusambandinu væri líklega heppilegasta leiðin fyrir Ísland, en síðan gerðist eitthvað dularfullt í þeim flokki. Í Háskólanum í Reykjavík var um daginn áhugavert málþing um evru eða ekki evru og nú í vikunni verður þar fundur um hvort hægrimenn eigi heima í ESB. Öll slík umræða er að sjálfsögðu af hinu góða, en nú er bara að sjá hvort einhver flokkur hafi hugrekki til að gera þetta virkilega að kosningamáli en drekki því ekki í dægurmálaþrasi.

Vínsmökkun

Þá er hafin vika vínsmökkunar á heimilinu. Það verður að velja vínið vel fyrir afmælisgestina, þannig að við munum fórna okkur við að smakka eina til tvær vel valdar tegundir daglega. Í dag var það eitt ítlaskt Chianti og ástralskt Shiraz með grúví miða. Leitin heldur áfram á morgun...

Látum viðfangsefnið ekki flækjast fyrir okkur

Ég ætlaði ekki að tjá mig um klámþingið margumrædda, en get ekki orða bundist. Ég fer fremst í flokki þeirra sem vilja veg Íslands sem ferðamannalands og fýsilegs staðar til ráðstefnu- og fundarhalda sem mestan og tel hæpið að stjórnvöld eða aðrir geti valið viðfangsefni viðburða sem hér eru haldnir. Hér er um að ræða hóp sem hefur lifibrauð af ákveðnum iðnaði. Auðvitað getur ýmislegt vafasamt tengst þessum iðnaði sem öðrum. Eigum við að banna læknaþing af því sumir læknar í heiminum útvega fíklum lyf? Við höfum tekið með virktum á móti ráðamönnum ríkja þar sem mannréttindi eru fótum troðin, bjóðum stórfyrirtæki sem styrkir vopnaframleiðslu að setja á fót starfsemi hér, seljum fatnað fyrirtækja sem þykir sannað að hafi börn í þrælavinnu, og svo mætti áfram telja. Viðkomandi aðilar hafa valið okkar land til að hittast, þau leigja sér dýr hótelherbergi, ráðstefnusali og samgöngutæki og greiða fáránlegt verð fyrir mat og drykk til að koma hingað. Í þessum stóra hópi er meirihlutinn eflaust frekar venjulegt fólk, sem jafnvel gæti komið hingað síðar með fjölskyldu sína eða vinnufélaga og kynnt fallegt land og góðar móttökur víða. Tekjur og gott orðspor er okkur til framdráttar en forræðishyggjan til vansa.

Loksins!

Gaman að forseti Djíbútís skyldi loksins sjá sér fært að koma hingað! Ég býst við að ferðaskrifstofur munu keppast við að nýta stjórnmálasambandið til að bjóða upp á lúxus safaríferðir til landsins og bráðum vita allir hvar þetta er! En ef við snúum fáfræði okkar við: gætuð þið sett ykkur í spor einhvers greys í grunnskóla í téðu landi, ef það er beðið að benda á Ísland á landakorti? Það væri kvikindislegur kennari sem gerði það!
mbl.is Forseti Djíbútís sækir Ísland heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svitafýla áhrifameiri en gáfur og persónutöfrar

Svona rannsóknir sanna að það eru að sjálfsögðu ekki gáfur eða persónutöfrar sem laða okkur að körlum. Þeir þurfa ekkert á því að halda. Þetta er allt miklu prímitívara, enda erum við einfaldlega ein dýrategund enn. Persónulega er ég ekki mikið fyrir fýluna per se, þótt það geti verið flott að sjá svitastorkna, vel vaxna drengi púla við erfiðisverk, svona í fjarlægð. Það er miklu þolanlegri lykt af mörgum öðrum dýrategundum en körlum. Að mínu viti jafnast t.d. ekkert á við ilminn undir faxi hesta, eða angan af hlýjum, bangsalegum voffa. En kannski er það ég sem er bara svona mikil skepna...


mbl.is Sviti karla getur bætt skap og aukið kynferðislega örvun kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólaður niður allan tímann í flugvélum

Airplane seatMaður hefur varla við að fylgjast með breyttum kröfum í flugferðum. Undanfarið hef ég tekið eftir aukinni áherslu á að sitja kyrr í sætinu með sætisbeltin spennt, helst allan tímann. Þar áður var mikil áhersla lögð á að hreyfa sig sem mest um farþegarýmið til að ferðin hefði ekki slæm áhrif á líkamann. Það er eins og þessar reglur séu settar til að bregðast við einhverju sem gerist, frekar en þær séu rökréttar að öðru leyti. Sama má segja um tólahræðsluna og vökvabannið. En sem sagt, núna á maður helst að vera kyrr í sínu sæti og vera niðurólaður, líklega vegna þess sem nýlega gerðist um borð í vél milli Keflavíkur og Parísar. Svo maður situr bara, prúður og stilltur, getur ekki verið með vökva í neinu magni, getur ekki notað tímann til að snyrta á sér neglurnar, verður að böðlast við að skera kjúkling GordonBleu með plasthnífapörum, og svo verður maður að gjörasvovel að halda í sér þangað til lent er!


Þar sem maður öðlast skilning á samhengi hlutanna...

Fontana di TreviÁ morgun fer ég til Rómar á fund. Róm er æðisleg og ein af uppáhaldsstöðum mínum í heiminum. Þegar maður kemur til Rómar, sérstaklega ef maður hefur ferðast töluvert, þá er eins og það opnist upp fyrir manni samhengi evrópskrar menningar. Það gerist eitthvað þegar maður kemur fyrst til Rómar. Ég hef verið mikið þar undanfarin ár vegna vinnu, og finnst borgin alltaf jafn frábær. Búðirnar eru æði, mannlífið einstakt, umhverfið fallegt og þrungið sögu og ekki skemmir maturinn fyrir! Ég verð sem sagt í sjöréttuðum draumi næstu daga. Arrivaderci!

Of miklar upplýsingar í minningargreinum

Hafið þið lesið minningargrein og fengið á tilfinninguna að það komi fram aðeins of miklar upplýsingar um prívat mál? Ýmsar uppljóstranir um fjölskylduleyndarmál geta komið fram og ævintýralegar frásagnir eru sagðar þegar erfitt er að hemja tilfinningarnar. Undanfarin ár hefur þróunin í minningargreinaskrifum orðið sú, að fólk ávarpar stundum hinn látna eins og verið sé að skrifa viðkomandi persónulegt bréf. Þegar talað er þannig beint við látið fólk hættir tilfinningunum til að flæða óheftar og það koma jafnvel fram álasanir ef fólk er ekki sátt. Þetta er mjög sérstakt. Svo er fólk farið að skrifa minningargreinar um foreldra sína en það tíðkaðist lítið áður, þar sem nálægðin þótti of mikil. Minningargreinar ættu að vera til að mæra hinn látna, gefa ágrip af æviferli, sögu og gjörðum og ættu að vera skrifaðar í annan lið hið minnsta. En samt eru þær oft skemmtilegar og nálgast að vera reyfarakenndar, eins og greinin sem varð kveikjan að þessum hugleiðingum.

Viðurstyggilegar fréttir af níðingsverkum

Hvers vegna hefur aldrei verið talað um þetta áður? Getur verið að stór hluti fólks hér á landi hafi persónulega sögu að segja af misnotkun eða niðurlægingum á barnaheimilum, upptökuheimilum eða jafnvel sumarbúðum? Voru það bara níðingar sem fengust til að reka slíkar stofnanir? Var þetta kallað stríðni, agi, herðing, uppeldi, kennsla?! - hvaða merkimiða var hægt að setja á svona til að réttlæta það sem gekk á fyrir börnum og foreldrum? Það er hreint út sagt skelfilegt að heyra þetta og ekki furða þótt margir hefi átt erfitt uppdráttar í lífinu síðan, eins og sjá mátti í Kastljósi í kvöld. Maður getur ekki annað en spurt sig hvað telst eðlilegt í þessum heimi og hvaða viðmið getur maður kennt börnunum sínum?

Glórulaust rugl

Þetta er nú algjört rugl. Vonandi verður þetta til að flýta fyrir því að "einkaflugvöllurinn" fari úr miðbænum, svo borgin geti þróast eðlilega. Nú er lag að blása lífi í umræðuna, fá tilboð í lagningu hraðlestar til Keflavíkur og spara þannig mannslíf, mengun, bíla og vegaframkvæmdir. Og hvar eru samkeppnissjónarmiðin? Maður verður bara orðlaus!
mbl.is Iceland Express fær ekki inni á Reykjavíkurflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höldum okkur við ímyndina um svala töffara

Wham! Bam! I am! A man! Job or no job, you can't tell me that I'm not! Do you enjoy what you do?! If not, just stop, don't stay there and rot! Þennan texta sungu þeir félagar í Wham þegar þeir voru ungir og vildu helst firra sig allri ábyrgð í lífinu, töluðu á móti því að festa sig í einhverri leiðindavinnu og sitja uppi með krakka og kerlingu. Síðan þá hefur George gengið í gegnum ýmislegt misjafnt en Andrew flutti á sveitabæ með konu sinni (sem söng bakraddir með Wham) og hóf búskap og virtist sáttur og frekar rólegur með lífið. Ég veit satt að segja ekki hvort það sé góð hugmynd að þeir reyni að koma saman aftur. Mér finnst bara svaka gott að muna þá í hvítum bolum með blacklight-væna fylgihluti í skærum litum, hoppandi og skoppandi um sviðið, eða sólbrúna á vindsæng í Club Tropicana, dreypandi á kokkteilum. Það geta ekki allir átt comeback, þótt Duran Duran hafi risið úr stónni eins og fuglinn Fönix.
mbl.is Tvíeykið Wham að undirbúa hljómplötu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband