Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Merkilegt ár, 2006!

Árið sem er að líða var merkilegt, það gerðist margt og margt mun leiða af því sem gerðist. Ég sjálf, trygglynd og trú sem íslenskur smalahundur, skipti formlega um starf um áramótin og hlakka til að takast á við ný verkefni. Hvað áramótaheit varðar, þá langar mig að verða skipulagðari á allan hátt á nýju ári. 2007 verður tímamótaár hjá mér og bara spennandi, það er á hreinu! Gleðilegt ár allir!

Þungbærar áhyggjur

Greyið Victoria, það lítur út fyrir að áhyggjur hennar af gallabuxum séu raunverulegar og skipti miklu máli í hennar daglega lífi. Þetta er greinilega spursmál um líf eða dauða. Pælið í því hvað grey fræga fólkið þarf að ganga í gegnum, annað en við hin! Hlýtur að vera ömurlegt líf, ég er blessunarlega laus við þessar áhyggjur af gallabuxum og prísa mig sæla með lífið.
mbl.is Viktoría Beckham óttast að gallabuxur verði sinn bani
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugur styrkir sig á prentmiðlamarkaði

Breytt fyrirkomulag og eignaraðild á DV þýðir einfaldlega að Baugur er að styrkja sig á tímarita- og blaðamarkaði. Félag í eigu Baugs, sem á stærsta hlutann í "nýju" DV, gefur út tímarit eins og Veggfóður, Ísafold og líka Hér og nú. Hinir aðaleigendurnir eru 365 og svo ritstjórinn og sonur hans. Áhugaverð flétta. Félagið er smám saman að koma upp tímaritum í sama stíl og gamli Fróði gaf út. Lífsstíls- matar- slúður- og hús/híbýlablað, og svo má búast við breskum áhrifum í fréttamennsku DV.
mbl.is Útgáfufélag í eigu Baugs og 365 tekur við útgáfu DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í göngutúr með ruslið

Ég hef verið að reyna að bæta mig í að fara með fernur, pappaílát og blöð í endurvinnsluna og hefur orðið vel ágengt síðan gámarnir komu hingað í hverfið. Um daginn höfðu safnast saman pappaílát í kassa og blöð í poka, og ákvað ég að taka það með mér þar sem ég var á leiðinni út í búð og skila því í gáminn. Þetta var um það leyti dags sem fólk er að koma úr vinnu og fara í búðir og margt fólk á ferli á Hofsvallagötunni. En það átti ekkert að líta illa út að vera úti að ganga með ruslið undir hendinni, því ég stefndi á gáminn. Þangað til ég komst að því að gámurinn var FARINN! Þá var ekkert um neitt annað að ræða en snúa við og fara í Melabúðina með ruslið í poka, eins og ég hefði skroppið með það í skemmtigöngu. Mjög lekkert. Hvert eru gámarnir farnir? Vilji minn til að safna fernum og öðru slíku er eiginlega gufaður upp og nágrannarnir halda að ég sé klikkuð. Og ég hlýt að spyrja mig hve mikils virði það er að ég taki þátt í endurvinnslunni.


Kók er ekki það sama og kók

Diet coke Þegar Kók Light var sett á markað læddist að mér lúmskur grunur um að það ætti að koma alveg í staðinn fyrir Diet Kók, en ég vonaði samt að gos-sjúk þjóð myndi sjá til þess að þetta seldist allt saman. Ég meina, það er enn verið að selja Tab, pælið í því, ég sem hélt að framleiðslan legðist af þegar ég hætti að kaupa það! Nú er hins vegar að koma á daginn að söluaðilar velja að selja annan hvorn drykkinn og með tilboðum og kynningum er eins og verið sé að setja Diet Kókið út í horn. Þetta farið að nálgast markaðslegan þjösnaskap á kaffihúsum, þar sem aðeins er hægt að fá Light. Já, það er munur á bragðinu. Light er sætara, líkara Kóki en með gerfibragði. Diet er á bragðið eins og diet drykkur og ekki þetta feik sykurbragð. Nú bíð ég og vona að Dietið lifi af, og ég geti haldið áfram að sötra gutlið í mínu horni.

Klikkað að gera

Já, já, ég hef ekki bloggað neitt í desember, ég veit það! Ykkur til upplýsingar hef ég verið að sinna rúmlega mínu starfi í vinnunni, auk þess sem ég er að skipta um vinnu og hef verið að reyna að byrja að setja mig inn í málin á nýjum stað. Fyrir utan þetta er það heimilið, börnin og dýrin, þannig að það verður eitthvað undan að láta. Í mínu tilfelli hef ég aldrei djammað, bloggað og æft jafnstopult og í þessum mánuði. En um áramótin sé ég fram á betri tíma. Hlakka til að byrja nýtt ár í stuði og á fullu í nýju vinnunni!


Aðalskipulag höfuðborgarsvæðisins í hnotskurn

Þið verðið að skoða þessa snilldarlegu útfærslu á aðalskipulagi höfuðborgarsvæðisins, en um leið verð ég að biðja hörundsárt fólk að hafa húmor fyrir þessu! Ég hef nú fengið upplýsingar um að Halldór Baldursson teiknaði og vona að hann afsaki dreifinguna þar sem ég get hans sem höfundar. Hér er tengill í síðuna hans. Smellið á myndina til að stækka:


Reykjavík og nágrenni

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband