Færsluflokkur: Sjónvarp

Borgað fyrir lífsreynslusögur - líka á Íslandi?

Þrátt fyrir bann við því að bresku hermennirnir sem voru í haldi Írana selji fjölmiðlum sögu sína, er svo kristaltært í mínum huga að það bann má sín lítils gegn ofurkrafti fjölmiðla og skemmtanabransans. Hvort sem það verður í spjallþætti, þar sem þeir segja krassandi sögur eða nota sjónvarp sem áfallahjálp og gráta úr sér augun, eða í formi nýrrar spennumyndar, þá mun sagan verða sögð. Og fjölmiðlar munu borga fyrir hana. Þannig gerast kaupin á Eyrinni. Þetta er líka orðið þekkt hér á landi, þótt hitt sé sem betur fer enn normið. Svo er það líka algengt hér að fólk borgi fjölmiðlunum fyrir að taka viðtal við það, og þykir eðlilegt sem PR þjónusta.
mbl.is Breska varnarmálaráðuneytið bannar hermönnum að selja sögur sínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tiplað á línu lögleysis og siðleysis

SmáblómUm leið og Spaugstofumenn hófu upp raust sína og sungu texta um álver og álvæðingu, vissi maður hvað var að gerast. Þeir njóta þess að tipla á tánum á línu þess sem telst löglegt og / eða siðlaust, sbr. páskaþáttinn um árið, sem mér fannst reyndar mjög fyndinn. Þetta er náttúrulega spurning um viðkvæmni og virðingu og hve mikið af hvoru við viljum hafa í heiðri. Mér fannst þjóðsöngsgrínið ekkert mjög smekklegt, en þá er hægt að spyrja: er hægt að banna fólki að syngja sinn eigin texta við þekkt lög? hvað um það þegar landslið Íslands í íþróttum syngja bandvitlausan texta við lagið? en þegar erlendar lúðrasveitir nauðga laginu sjálfu svo það er vart þekkjanlegt, t.d. á alþjóðlegum íþróttaviðburðum? hve viðkvæm ætlum við að vera, t.d. í samanburði við Breta, en í þeirra gríni er allt leyfilegt? Ég verð reyndar að játa að mín fyrsta hugsun á laugardagskvöldið var að blogga um þetta, -talandi um að vilja vera fyrstur með fréttirnar!


mbl.is Spaugstofumenn brutu lög um þjóðsönginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TaB, TaB Cola, for beautiful people!

TaBÞað er kannski að bera í bakkafullan lækinn að blogga enn einu sinni um markaðssetningu gosdrykkja hér, en þar sem ég var ein af þeim sem hélt framleiðslunni  á TaB uppi á sínum tíma á Íslandi fann ég mig knúna til þess. Ég flutti mig síðan yfir í Diet Coke þegar ég bjó á Spáni og erfitt var að fá TaB, auk þess sem það var bragðverra þar. Man einhver eftir sjónvarpsauglýsingunni sem gekk 1982-1983, þegar sykurlausir gosdrykkir voru að ryðja sér til rúms? Lagið var svona: “Tab, Tab Cola, what a wonderful dream (eða drink?!), Tab, Tab Cola for beautiful people!, la,la,la...!"


mbl.is TaB af markaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kúkakaffi

Nú verður maður að fara í Te & kaffi og smakka kaffið sem allir tala um - kúkakaffið. Hreysikettir í Indónesíu velja sér bestu kaffifræin af plöntunum, sem eru ákkúrat á réttum tíma í vexti, og éta þau. Baunin sjálf meltist ekki, svo þeir skila af sér einstakri baun sem fer náttúrulega leið í gegnum hreysiköttinn og er síðan tínd og brennd. Kaffið úr þessum baunum á að vera eitthvað alverlega sérstakt. Bollin kostar 600 krónur og ágóðinn rennur til langveikra barna. Ef þetta er ekki lífrænt ræktað, þá veit ég ekki hvað!


Það sem karlmenn vilja

Markaðssetningin fyrir Coke Zero er algerlega skýr, og já, ég er mjög upptekin af markaðssetningu gosdrykkja í dag! Auglýsingin hljómar eitthvað á þessa leið: "kynlíf með zero forleik, hasarmynd með zero rómantík, brjóstahaldari með zero smellum, helgi með zero þynnku, kærasta með zero eigum við að ræða málin..." Augljóslega eitthvað sem haldið er að karlmenn sækist eftir, enda er Coke Zero ætlað KARLMÖNNUM.

Tilboð sem drepa

Þátturinn í Sjónvarpinu, um vinnuaðferðir þær sem viðgangast í Indlandi, var mjög sjokkerandi. Heilsa og líf fjölda fólks er lagt í stórhættu til að verslunarkeðjur á Norðurlöndum geti framleitt og selt ódýra vefnaðarvöru, auk þess sem umhverfismengun er stórfelld. Þarna var fólk úti á bómullarakri að úða eitri sem hvergi annars staðar er leyft, og þeir voru ekki einu sinni með grímu eða hanska. Svo fer þetta fólk og borðar mat sinn með höndunum. Enda eru bændur á svæðinu meira og minna með krabbamein. Í þættinum sáust líka verkamenn, hálfir ofan í sýrubaði eða kerjum með litarefnum eða klór, berfættir og hanskalausir að hræra í baðmullarefnum. Svo sást þar sem efnum, lit og tærandi lausnum var hleypt beint út um rör í næstu á eða undir næsta akur. Ætli stórfyrirtækin sem selja fullbúna vöru í smásölu þekki allt ferlið? Er farið á bak við þau, eða eru þau með í kúguninni og umhverfisspjöllunum?

Tími (væri) til kominn!

Ef Hillary yrði næsti forseti Bandaríkjanna lofa ég að endurskoða afstöðu mína gagnvart bandarískum hugsunarhætti, en þótt ég sé að eðlisfari bjartsýn á ég erfitt með að sjá þetta gerast. Það eru einfaldega svo margir fundamentalistar í Bandaríkjunum, sem aðhyllast undarlega þjóðfélagshætti sem endurspeglast í hinu týpíska miðvesturríkja millistéttarsamfélagi. Ég ætla ekki nánar út í þá sálma, en svo sannarlega er kominn tími fyrir leiðtoga eins og Hilary í Bandaríkjunum.
mbl.is Hillary Clinton vill brjótast upp úr glerþakinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sælkeraframleiðsla úr sveitinni

Ég er svo ánægð með að loksins geta frumframleiðendur (lesist bændur) þróað, kynnt og markaðssett sínar eigin vörur á Íslandi. Þannig hafa allar gúrmet vörur heimsins þróast, og hver vegna ekki hér? Bestu vínin, ostar, pylsur, krydd og allar aðrar landbúnaðarvörur hafa þróast svoleiðis (svona svipað og við vorum pínd til að þróa súrsuð matvæli og lýsi!) Eigendur Friðriks V, eins besta veitingastaðar á Íslandi, fara þarna fremst í flokki í samstarfi við bændur og voru flott í fréttunum í kvöld að bjóða landbúnaðarráðherra Blóðbergsdrykk með bláberjabragði. Það kom líka fram að hér álandi sé eini blóðbergsakurinn sem vitað er um í okkar heimshluta? Hvar er hann og hvernig lítur hann út? Forvitni mín er vakin, ég sé mig í anda eitthvert sumarið, fara bæ af bæ og smakka heimagerðar lystisemdir! Þetta er skemmtileg þróun og hlaut að koma að því að þessi höft væru afnumin eins og fleiri. Nú er komið að okkar að þróa þessa framleiðslu.


Viðurstyggilegar fréttir af níðingsverkum

Hvers vegna hefur aldrei verið talað um þetta áður? Getur verið að stór hluti fólks hér á landi hafi persónulega sögu að segja af misnotkun eða niðurlægingum á barnaheimilum, upptökuheimilum eða jafnvel sumarbúðum? Voru það bara níðingar sem fengust til að reka slíkar stofnanir? Var þetta kallað stríðni, agi, herðing, uppeldi, kennsla?! - hvaða merkimiða var hægt að setja á svona til að réttlæta það sem gekk á fyrir börnum og foreldrum? Það er hreint út sagt skelfilegt að heyra þetta og ekki furða þótt margir hefi átt erfitt uppdráttar í lífinu síðan, eins og sjá mátti í Kastljósi í kvöld. Maður getur ekki annað en spurt sig hvað telst eðlilegt í þessum heimi og hvaða viðmið getur maður kennt börnunum sínum?

Lost eða ekki Lost?

Ný þáttaröð af Lost er að byrja á RÚV en ég get ekki gert upp við mig hvort ég á að byrja að horfa á hana. Ég datt algerlega inní fyrstu þættina og fannst þetta vera nýtt og ferskt efni en svo fannst mér þetta farið að vera til bara til að halda lífi í sjálfu sér og hugmyndir voru endurunnar. Samt fylgdist ég með svona þegar ég var fyrir framan sjónvarpið. Þetta er náttúrulega ruglþáttur, en það er eitthvað sem heldur manni. Ætli það sé ekki óvæntu atvikin, hugmyndaruglið og hryllingurinn... Kannski ég reyni að komast að því hvernig þáttaröðin endar og spari mér tímann.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband