Færsluflokkur: Matur og drykkur

Sælkeraframleiðsla úr sveitinni

Ég er svo ánægð með að loksins geta frumframleiðendur (lesist bændur) þróað, kynnt og markaðssett sínar eigin vörur á Íslandi. Þannig hafa allar gúrmet vörur heimsins þróast, og hver vegna ekki hér? Bestu vínin, ostar, pylsur, krydd og allar aðrar landbúnaðarvörur hafa þróast svoleiðis (svona svipað og við vorum pínd til að þróa súrsuð matvæli og lýsi!) Eigendur Friðriks V, eins besta veitingastaðar á Íslandi, fara þarna fremst í flokki í samstarfi við bændur og voru flott í fréttunum í kvöld að bjóða landbúnaðarráðherra Blóðbergsdrykk með bláberjabragði. Það kom líka fram að hér álandi sé eini blóðbergsakurinn sem vitað er um í okkar heimshluta? Hvar er hann og hvernig lítur hann út? Forvitni mín er vakin, ég sé mig í anda eitthvert sumarið, fara bæ af bæ og smakka heimagerðar lystisemdir! Þetta er skemmtileg þróun og hlaut að koma að því að þessi höft væru afnumin eins og fleiri. Nú er komið að okkar að þróa þessa framleiðslu.


Skoppandi líkamspartar og spiktutlur

Þetta gæti orðið grafískt og líka ákaflega vandræðalegt. Ímyndið ykkur hressilegan tröpputíma. Spinning með hraðri tónlist. Brjóst af öllum stærðum og gerðum að hristast í allar áttir, teygð og toguð. Pungar skutlast upp og niður, svitastorknir og klepraðir. Fitukeppir og spiktutlur fá alla athyglina. Nei, þá vil ég heldur þurfa að gangast undir tískuna í líkamsræktarsalnum. Ég verð að játa að ég sé ekkert eftirsóknarvert við nakið fólk saman í líkamsrækt. Kannski er ég bara svona púkó?
mbl.is Mikill áhugi á líkamsrækt fyrir nakta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær helgi - takk fyrir mig!

Gullmót Sunddeildar KR, Frönsk menningarhátíð, Vetrarhátið, AFMÆLIÐ MITT.... Það var alveg sama hvert litið var, þetta var mikilvæg helgi. Ég hélt upp á stórafmælið með pompi og allnokkurri pragt, mæting var gífurlega góð og nóg af veigum og veitingum. Stórfjölskyldan, vinir og vinufélagar mættu og ég fékk að heyra fagrar mæringar um mig sjálfa í ræðum sem mér finnst nú ekki leiðinlegt. Ég fékk frábærar gjafir og langar að segja takk, takk kærlega fyrir mig, þið þekkið mig greinilega vel!  


Vínsmökkun

Þá er hafin vika vínsmökkunar á heimilinu. Það verður að velja vínið vel fyrir afmælisgestina, þannig að við munum fórna okkur við að smakka eina til tvær vel valdar tegundir daglega. Í dag var það eitt ítlaskt Chianti og ástralskt Shiraz með grúví miða. Leitin heldur áfram á morgun...

Látum viðfangsefnið ekki flækjast fyrir okkur

Ég ætlaði ekki að tjá mig um klámþingið margumrædda, en get ekki orða bundist. Ég fer fremst í flokki þeirra sem vilja veg Íslands sem ferðamannalands og fýsilegs staðar til ráðstefnu- og fundarhalda sem mestan og tel hæpið að stjórnvöld eða aðrir geti valið viðfangsefni viðburða sem hér eru haldnir. Hér er um að ræða hóp sem hefur lifibrauð af ákveðnum iðnaði. Auðvitað getur ýmislegt vafasamt tengst þessum iðnaði sem öðrum. Eigum við að banna læknaþing af því sumir læknar í heiminum útvega fíklum lyf? Við höfum tekið með virktum á móti ráðamönnum ríkja þar sem mannréttindi eru fótum troðin, bjóðum stórfyrirtæki sem styrkir vopnaframleiðslu að setja á fót starfsemi hér, seljum fatnað fyrirtækja sem þykir sannað að hafi börn í þrælavinnu, og svo mætti áfram telja. Viðkomandi aðilar hafa valið okkar land til að hittast, þau leigja sér dýr hótelherbergi, ráðstefnusali og samgöngutæki og greiða fáránlegt verð fyrir mat og drykk til að koma hingað. Í þessum stóra hópi er meirihlutinn eflaust frekar venjulegt fólk, sem jafnvel gæti komið hingað síðar með fjölskyldu sína eða vinnufélaga og kynnt fallegt land og góðar móttökur víða. Tekjur og gott orðspor er okkur til framdráttar en forræðishyggjan til vansa.

Þar sem maður öðlast skilning á samhengi hlutanna...

Fontana di TreviÁ morgun fer ég til Rómar á fund. Róm er æðisleg og ein af uppáhaldsstöðum mínum í heiminum. Þegar maður kemur til Rómar, sérstaklega ef maður hefur ferðast töluvert, þá er eins og það opnist upp fyrir manni samhengi evrópskrar menningar. Það gerist eitthvað þegar maður kemur fyrst til Rómar. Ég hef verið mikið þar undanfarin ár vegna vinnu, og finnst borgin alltaf jafn frábær. Búðirnar eru æði, mannlífið einstakt, umhverfið fallegt og þrungið sögu og ekki skemmir maturinn fyrir! Ég verð sem sagt í sjöréttuðum draumi næstu daga. Arrivaderci!

Boston á morgun

Á morgun liggur leið mín í stutta ferð til lærdómsborgarinnar Boston þar sem ég mun heimsækja einn af bestu háskólum heims. Mér dettur ekki í hug að ferðast án þess að njóta þess líka, og því mun ég, allan sunnudaginn og milli funda, spranga um Cambridge, rölta um Harvard Square og Newbury Street, og svo er víst skylda að snæða á Legal Seafoods í borginni. Verst að það er svo ferlegakalt þarna núna, það er svona veður eins og var hér um daginn, frost og snjór. Það er bara 66N peysan, úlpa og bomsur í búðirnar. En bókabúðirnar maður, jedúddamía, ég á eftir að gleyma mér! Sleppi bara Leyndardómum Viktoríu í staðinn. 

Þurfum við á öllu þessu drasli að halda?

Getið þið ímyndað ykkur að kaupa ekkert nýtt í eitt ár nema það allra nauðsynlegasta? Mér finnst þetta áhugaverð tilraun og er viss um að maður myndi í fyrsta lagi gera sér grein fyrir hverjar raunverulegar nauðsynjar eru og í öðru lagi hvers maður getur hæglega verið án þess að gera sér grein fyrir því. Í þriðja lagi myndi maður eflaust þróa með sér ákveðna virðingu fyrir hlutum, virðngu sem mér finnst algerlega á undanhaldi hér á landi og síðast en ekki síst myndi maður spara pening! Hvernig væri að draga niður í neyslukapphlaupinu?


mbl.is Fóru í eins árs verslunarbann á ónauðsynlegt dót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég elska túrista!

Sem fararstjóri til margra ára, þá elska ég túrista af öllum þjóðernum og spurningar þeirra og vangaveltur. Svona fréttir skemmta mér því mikið og auka á pælingar mínar um hvað fólk er frábært. Ég hef heyrt margt svipað þessu, þó get ég sagt landanum það til hróss, að það er meira um kjánalegar spurningar útlendinga hér á landi en Íslendinga erlendis.
mbl.is Undarlegar spurningar ferðamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugur styrkir sig á prentmiðlamarkaði

Breytt fyrirkomulag og eignaraðild á DV þýðir einfaldlega að Baugur er að styrkja sig á tímarita- og blaðamarkaði. Félag í eigu Baugs, sem á stærsta hlutann í "nýju" DV, gefur út tímarit eins og Veggfóður, Ísafold og líka Hér og nú. Hinir aðaleigendurnir eru 365 og svo ritstjórinn og sonur hans. Áhugaverð flétta. Félagið er smám saman að koma upp tímaritum í sama stíl og gamli Fróði gaf út. Lífsstíls- matar- slúður- og hús/híbýlablað, og svo má búast við breskum áhrifum í fréttamennsku DV.
mbl.is Útgáfufélag í eigu Baugs og 365 tekur við útgáfu DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband