Færsluflokkur: Matur og drykkur

Í göngutúr með ruslið

Ég hef verið að reyna að bæta mig í að fara með fernur, pappaílát og blöð í endurvinnsluna og hefur orðið vel ágengt síðan gámarnir komu hingað í hverfið. Um daginn höfðu safnast saman pappaílát í kassa og blöð í poka, og ákvað ég að taka það með mér þar sem ég var á leiðinni út í búð og skila því í gáminn. Þetta var um það leyti dags sem fólk er að koma úr vinnu og fara í búðir og margt fólk á ferli á Hofsvallagötunni. En það átti ekkert að líta illa út að vera úti að ganga með ruslið undir hendinni, því ég stefndi á gáminn. Þangað til ég komst að því að gámurinn var FARINN! Þá var ekkert um neitt annað að ræða en snúa við og fara í Melabúðina með ruslið í poka, eins og ég hefði skroppið með það í skemmtigöngu. Mjög lekkert. Hvert eru gámarnir farnir? Vilji minn til að safna fernum og öðru slíku er eiginlega gufaður upp og nágrannarnir halda að ég sé klikkuð. Og ég hlýt að spyrja mig hve mikils virði það er að ég taki þátt í endurvinnslunni.


Kók er ekki það sama og kók

Diet coke Þegar Kók Light var sett á markað læddist að mér lúmskur grunur um að það ætti að koma alveg í staðinn fyrir Diet Kók, en ég vonaði samt að gos-sjúk þjóð myndi sjá til þess að þetta seldist allt saman. Ég meina, það er enn verið að selja Tab, pælið í því, ég sem hélt að framleiðslan legðist af þegar ég hætti að kaupa það! Nú er hins vegar að koma á daginn að söluaðilar velja að selja annan hvorn drykkinn og með tilboðum og kynningum er eins og verið sé að setja Diet Kókið út í horn. Þetta farið að nálgast markaðslegan þjösnaskap á kaffihúsum, þar sem aðeins er hægt að fá Light. Já, það er munur á bragðinu. Light er sætara, líkara Kóki en með gerfibragði. Diet er á bragðið eins og diet drykkur og ekki þetta feik sykurbragð. Nú bíð ég og vona að Dietið lifi af, og ég geti haldið áfram að sötra gutlið í mínu horni.

Viltu auga, tungu eða hnakkaspik?

Við fengum svið á sunnudögum eða á hátíðisdögum. Svið voru höfð á gamlárskvöld heima hjá okkur. Hvers vegna eldar maður ekki svið? Börnin í Hagaskóla léku sér með sviðin í dag og reyndu að ganga fram af hvoru öðru með því að bjóða tungu og stinga út augu. Sagði enginn þeim að það mætti ekki leika sér með matinn? Ætli þau trúi því að svið voru eitt sinn talin herramannsmatur?
mbl.is Borgarstjóri gæddi sér á sviðum með nemendum í Hagaskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hittu skyndibitann lifandi

Er þetta í lagi? Er þetta þjóðir sem setja út á hvalveiðar? Þvílíkur viðbjóður, ég get ekki sagt meira, horfið á myndbandið: Meet your meat: http://www.meat.org/  

Fara rotturnar að éta tyggjó?

Athyglisvert framtak þetta að leggjast í kassa með 50 hungruðum rottum til að hvetja fólk til að hætta að henda matarleifum og drasli á götur London. Víða erlendis fyllist allt af maurum ef brauðmylsna dreifist eða af kakkalökkum ef matarleifar eru látnar liggja í ruslinu. Reykjavík er líka full af rottum, þar er staðreynd, og þetta vekur mann til umhugsunar. En hvernig með tyggjóklessurnar á götunum? Hvernig gætum við vakið athygli á því fyrirbæri?

Má ég vera með?

Þetta er leyndardómsfull keppni. Hvernig fer hún fram? Hverjir gefa sig út fyrir að vera hrútaþuklarar, og hvernig eru þeir þjálfaðir? Þarf sérstaka menntun? Eftir hverju er dæmt? Og kannski síðast en ekki síst: Hvað er þuklað og til hvers?! Hvaðan kemur siðurinn, og er þetta stundað í fleiri löndum en hér? Gætum við kannski sett upp Norðurlandakeppni? Má ég vera með? Meeeee....
mbl.is Keppt í hrútaþukli á Ströndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband