Færsluflokkur: Menning og listir

Þroskasaga kirkjunnar

Kirkjan og þróun trúmála eru mér hugleikin efni um þessar mundir, annars vegar vegna þess að þetta er annar veturinn sem ég sæki kirkju reglulega þar sem ég er að ferma afkvæmin, og hins vegar vegna þess að ég held að allir sem hafa áhuga á alþjóðastjórnmálum hljóti að fylgjast með trúmálum á alþjóðavettvangi, þar sem þau eru oft afsakanir fyrir stríðum og glæpum.
Hugmyndir um að sameina kirkjudeildir kristinnar kirkju eru ákaflega áhugaverðar að mínu mati, sérstaklega þar sem það myndi vera merki um ákveðinn þroska og gagnkvæman skilning kristins samfélags. Mér finnst líka áhugaverðar kenningar þess efnis að siðbót í ætt við þá sem M.Lúter stóð fyrir í kristinni kirkju, hafi enn ekki átt sér stað í trúarsamfélagi múslíma, og því vanti upp á ákveðinn þroska þess samfélags sem notar gjarna trú sem skálkaskjól fyrir rangtúlkanir og samfélagslega glæpi á borð við ofsóknir. Ef við skoðum trúna í tímalegu samhengi, þá ætti kannski að fara að koma að slíkri umbreytingu, þótt hún virðist reyndar ekki vera í sjónmáli!
Kirkjuhefðir á Íslandi hafa líka þroskast mikið undanfarin ár og get ég altént hrósað prestum í Nesirkju fyrir að hafa leitt kirkjuna inn í nútímann án allrar helgislepju. Þar er talað um dægurmál, mannleg samskipti skoðuð, boðið upp á tónleika, börnin látin njóta sín og svo er hlegið hjartanlega og klappað. Halelúja!

Bleik hafmeyja tilvalið PR tæki

Enginn veit hver eða hvers vegna Hafmeyjan var máluð bleik, og til að kveða niður raddir um hryðjuverk eða fordóma, ættu borgaryfirvöld að eigna sér glæpinn og segja að þetta sé til að vera með í baráttu gegn brjóstakrabbameini. Sniðugt PR múv, ekki satt?!
mbl.is Litla hafmeyjan máluð bleik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sælkeraframleiðsla úr sveitinni

Ég er svo ánægð með að loksins geta frumframleiðendur (lesist bændur) þróað, kynnt og markaðssett sínar eigin vörur á Íslandi. Þannig hafa allar gúrmet vörur heimsins þróast, og hver vegna ekki hér? Bestu vínin, ostar, pylsur, krydd og allar aðrar landbúnaðarvörur hafa þróast svoleiðis (svona svipað og við vorum pínd til að þróa súrsuð matvæli og lýsi!) Eigendur Friðriks V, eins besta veitingastaðar á Íslandi, fara þarna fremst í flokki í samstarfi við bændur og voru flott í fréttunum í kvöld að bjóða landbúnaðarráðherra Blóðbergsdrykk með bláberjabragði. Það kom líka fram að hér álandi sé eini blóðbergsakurinn sem vitað er um í okkar heimshluta? Hvar er hann og hvernig lítur hann út? Forvitni mín er vakin, ég sé mig í anda eitthvert sumarið, fara bæ af bæ og smakka heimagerðar lystisemdir! Þetta er skemmtileg þróun og hlaut að koma að því að þessi höft væru afnumin eins og fleiri. Nú er komið að okkar að þróa þessa framleiðslu.


Ó, herra Darcy!

Darcy and ElizabethPride and Prejudice er snilld. Einföld saga sem gengur þvert á rómantískar hugmyndir í mannkynnssögunni og á alltaf við. Höfundur leggur aðaláherslu á persónulýsingar og samskipti og skapar þannig ógleymanlega karaktera. Sagan er sennilega mest kvikmynduð allra skáldsagna, fyrir utan hve margir hafa stolið söguþræðinum og stælt söguna á allan hátt, eins og höfundur Bridget Jones gerði svo snilldarlega. Besta aðlögun sögunnar er án efa sjónvarpsþættir BBC með Jennifer Elhe í hlutverki Elizabeth Bennet og Colin Firth (andvarp!) sem hinn hrokafulla sjarmör Mr. Darcy...
mbl.is Hroki og hleypidómar uppáhaldsbók breskra lesenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorrí mamma, hann er endanlega genginn út

Ofurtöffari landsins, Rúnar Júl giftist loks sinni heittelskuðu til hundrað ára, Maríu Baldursdóttur, í dag. Mömmu fannst hann æði. Fór á tónleika í Glaumbæ og reyndi að komast sem næst goðinu. Ég dáist að Maríu og Rúnari að hafa verið saman í gegnum súrt og sætt, frægð og frama beggja. Til hamingju með hvort annað! Mamma hefur það bara fínt, takk...

Nautasæði í hárið

Ég rak augun í texta framan á Bændablaðinu, sem liggur alltaf frammi á kassanum í Melabúðinni, um kosti nautasæðis sem hárnæringar. Þar er fullyrt að sæðið gefi gljáa og næringu og geri hárið líflegt og fallegt. Þetta er afskaplega forvitnilegt, þótt ég vilji nú frekar halda áfram að vera með hálmkennt strý frekar en brúka þennan gæðavökva. MaryMaður sér fyrir sér ákveðið vandamál ef æði grípur um sig og eftirspurnin verður mikil. En það góða er að það verður gaman hjá nautunum ef þær aðferðir eru notaðar við að ná glundrinu sem ímyndunarafl mitt segir til um. Vonandi gefst það betur en sullið úr öðru spendýri, sem Cameron Díaz notaði óvænt í stað hárgels í snilldarmyndinni "There is Something About Mary", það var snilldar atriði, en oj, ég held ég haldi mig við kemískar hárvörur!

Kynnstu einhleypum í Reykjavík

Þessi texti var á auglýsingaborða á netsíðu bólivísks dagblaðs í dag, www.larazon.com. Forvitnilegt, ekki satt? -Og hefur örugglega vakið athygli margra. Auglýsingin leiddi síðan inn á síðuna Amigos.com, sem ég skoðaði ekki nánar.

Frábær helgi - takk fyrir mig!

Gullmót Sunddeildar KR, Frönsk menningarhátíð, Vetrarhátið, AFMÆLIÐ MITT.... Það var alveg sama hvert litið var, þetta var mikilvæg helgi. Ég hélt upp á stórafmælið með pompi og allnokkurri pragt, mæting var gífurlega góð og nóg af veigum og veitingum. Stórfjölskyldan, vinir og vinufélagar mættu og ég fékk að heyra fagrar mæringar um mig sjálfa í ræðum sem mér finnst nú ekki leiðinlegt. Ég fékk frábærar gjafir og langar að segja takk, takk kærlega fyrir mig, þið þekkið mig greinilega vel!  


Sælueyja án karla

Þetta er áhugavert framtak hjá Írönum. Ef konur geta hvergi verið í friði og verða sífellt að lúta reglum karla, hvers vegna þá ekki að útbúa stað þar sem engir karlar eru?! Maður ímyndar sér að það felist ákveðið frelsi í að losna undan drottnurunum, sem í mörgum samfélögum eru slíkir í krafti líkamsútlitslegs munar. (Þetta hefur nú verið get áður, samkvæmt sögunni, á eyjunni Lesbos undan strönd Grikklands, en það er önnur saga!) Íranir eru ekki svo galnir. Þeir hafa svarað Vesturlöndum því til, að ef þau krefjist þess að þeir hætti auðgun úrans til þróunar kjarnorku, þá ættu Vesturlönd að gera það líka. Hvers vegna ekki? Væri ekki nær að eyða fjármunum í að þróa aðra orkugjafa? Það myndi leysa nokkur vandamál á einu bretti, skal ég segja ykkur.
mbl.is Aðeins fyrir konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líf að færast í umræður um ESB aðild

Umræðan um ESB og hugsanlega aðild Íslands hefur undanfarið breyst úr yfirhylmingum og rangfærslum stjórnmálamanna, sem treystu því að almenningur væri almennt illa upplýstur, í meiri "matter-of-fact" umræðu. Ég fagna því, þar sem ég tel að Íslendingar þurfi að fara í aðildarviðræður til að vita í alvöru um alla kosti og galla þess að vera innan ESB. Reyndar er mín skoðun sú, að með EES samningnum höfum við í raun byrjað að taka þátt í Evrópusamrunanum, en séum í þrjósku okkar að fresta því að okkar forsendur og skoðanir hafi eitthvað að segja. Koma Michael A. Köhler, helsta aðstoðarmanns sjávarútvegsmálastjóra ESB hingað til lands og yfirlýsingar hans um að Íslendingar munu alltaf stýra aðgangi að sínum fiskimiðum, gæti haft áhrif á þróun umræðunnar. Pétur Gunnarsson minnir á að það voru Sjálfstæðismenn sem bentu á að aðild að Evrópusambandinu væri líklega heppilegasta leiðin fyrir Ísland, en síðan gerðist eitthvað dularfullt í þeim flokki. Í Háskólanum í Reykjavík var um daginn áhugavert málþing um evru eða ekki evru og nú í vikunni verður þar fundur um hvort hægrimenn eigi heima í ESB. Öll slík umræða er að sjálfsögðu af hinu góða, en nú er bara að sjá hvort einhver flokkur hafi hugrekki til að gera þetta virkilega að kosningamáli en drekki því ekki í dægurmálaþrasi.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband