Færsluflokkur: Menning og listir

Loksins!

Gaman að forseti Djíbútís skyldi loksins sjá sér fært að koma hingað! Ég býst við að ferðaskrifstofur munu keppast við að nýta stjórnmálasambandið til að bjóða upp á lúxus safaríferðir til landsins og bráðum vita allir hvar þetta er! En ef við snúum fáfræði okkar við: gætuð þið sett ykkur í spor einhvers greys í grunnskóla í téðu landi, ef það er beðið að benda á Ísland á landakorti? Það væri kvikindislegur kennari sem gerði það!
mbl.is Forseti Djíbútís sækir Ísland heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar sem maður öðlast skilning á samhengi hlutanna...

Fontana di TreviÁ morgun fer ég til Rómar á fund. Róm er æðisleg og ein af uppáhaldsstöðum mínum í heiminum. Þegar maður kemur til Rómar, sérstaklega ef maður hefur ferðast töluvert, þá er eins og það opnist upp fyrir manni samhengi evrópskrar menningar. Það gerist eitthvað þegar maður kemur fyrst til Rómar. Ég hef verið mikið þar undanfarin ár vegna vinnu, og finnst borgin alltaf jafn frábær. Búðirnar eru æði, mannlífið einstakt, umhverfið fallegt og þrungið sögu og ekki skemmir maturinn fyrir! Ég verð sem sagt í sjöréttuðum draumi næstu daga. Arrivaderci!

Höldum okkur við ímyndina um svala töffara

Wham! Bam! I am! A man! Job or no job, you can't tell me that I'm not! Do you enjoy what you do?! If not, just stop, don't stay there and rot! Þennan texta sungu þeir félagar í Wham þegar þeir voru ungir og vildu helst firra sig allri ábyrgð í lífinu, töluðu á móti því að festa sig í einhverri leiðindavinnu og sitja uppi með krakka og kerlingu. Síðan þá hefur George gengið í gegnum ýmislegt misjafnt en Andrew flutti á sveitabæ með konu sinni (sem söng bakraddir með Wham) og hóf búskap og virtist sáttur og frekar rólegur með lífið. Ég veit satt að segja ekki hvort það sé góð hugmynd að þeir reyni að koma saman aftur. Mér finnst bara svaka gott að muna þá í hvítum bolum með blacklight-væna fylgihluti í skærum litum, hoppandi og skoppandi um sviðið, eða sólbrúna á vindsæng í Club Tropicana, dreypandi á kokkteilum. Það geta ekki allir átt comeback, þótt Duran Duran hafi risið úr stónni eins og fuglinn Fönix.
mbl.is Tvíeykið Wham að undirbúa hljómplötu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eingöngu karlmenn notaðir sem tilraunadýr?

Ég set spurningamerki við niðurstöður þessarar rannsóknar þar sem ég tel að konur hafi varla verið með í tilrauninni, en það hlýtur að vera nauðsynlegt til að fá rétta mynd af mannskepnuninni. Ef karlar voru þarna í meirihluta var rannsóknafé kastað á glæ þar sem það var fyrirfram viað að þeir geta fæstir gert meira en eitt í einu. Flestir karlmenn sem ég þekki kannast samt við fyrirbærið og kunna að hlæja að þessum líffræðilegu takmörkunum sínum!
mbl.is Flöskuháls kemur í veg fyrir að heilinn vinni tvö verk í einu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Boston á morgun

Á morgun liggur leið mín í stutta ferð til lærdómsborgarinnar Boston þar sem ég mun heimsækja einn af bestu háskólum heims. Mér dettur ekki í hug að ferðast án þess að njóta þess líka, og því mun ég, allan sunnudaginn og milli funda, spranga um Cambridge, rölta um Harvard Square og Newbury Street, og svo er víst skylda að snæða á Legal Seafoods í borginni. Verst að það er svo ferlegakalt þarna núna, það er svona veður eins og var hér um daginn, frost og snjór. Það er bara 66N peysan, úlpa og bomsur í búðirnar. En bókabúðirnar maður, jedúddamía, ég á eftir að gleyma mér! Sleppi bara Leyndardómum Viktoríu í staðinn. 

Skemmtun fyrir konur, börn og homma - hvað kemur rigning þessu við?

Í Blaðinu í dag er ágætis kvikmyndasíða sem ég las upp til agna, sérstaklega greinina um söngvamyndir sem sagðar eru gerðar fyrir ofangreinda hópa. Svo er listi yfir vinsælustu titillög nokkra dans- og söngvamynda, en fjögur af tíu titillögum fjalla um rigningu!

Ég elska dans og söngvamyndir -og er stolt af því, og held mest upp á tvö tímabil. Fyrst eru það gullaldarár MGM kvikmyndaversins í kringum 1950 þegar sjarmörinn Gene Kelly, dramaunglingurinn Judy Garland, stríðnispúkinn Mickey Rooney, sunddrotningin Esther Williams og dansandi parið Fred og Ginger voru upp á sitt besta. Síðara tímabilið eru svo the "roving eighties". Nostalgían grípur mig og diskótakturinn hríslast um mig alla þegar ég hugsa um Flashdance, Grease, Footloose, Saturday Night Fever, Breakdance, Beat Street og Fame. Ég á það meira að segja til að bresta í söng við ýmis tækifæri, stökkva upp á bíla og húsgögn og tjá mig með dillandi diskó eða steppi og taka nokkra létta tóna. Ef þið hafið ekki séð mig, þá eigið þið mikið eftir! En það var þetta dularfulla rigningarmál. Vinsælustu titillög söngvamynda eru samkvæmt Blaðinu:

1. Singin' in the Rain úr úr samnefndri mynd
2. America úr West Side Story
3. Over the Rainbow úr Wizard of Oz
4. The Sound of Music úr samnefndri mynd
5. Tomorrow úr Annie
6. Supercalifragilisticexpialidocious úr Mary Poppins
7. The Rain in Spain úr My Fair Lady
8. Don't Rain on my Parade úr Funny Girl
9. You're The One That I Want úr Grease
10. Roxanne úr Moulin Rouge


Kominn tími til að endurmeta menntunarstig þjóðarinnar

Það getur ekki annað verið en þessar tölur - ef þær eru raunverulegar, hafi eitthvað að segja um menntunarstig íslensku þjóðarinnar. Nú er lag að gera úttekt á ný á brottfalli úr skólum og uppfæra rannsóknir á téðu lágu menntunarstigi okkar. Burtu með barlóminn í aðilum vinnumarkaðarins og förum að vera stolt af menntakerfinu okkar. Ef við trúum ekki að það virki, þá virkar það ekki.


mbl.is Mikil fjölgun nemenda í háskólum og framhaldsskólum á síðustu árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fíflagangur í Gettu betur?

Annað hvort var þetta fullkomið áhugaleysi eða keppendur ákváðu að gera lítið úr Gettu betur í kvöld. Lið Iðnskólans í Hafnarfirði var eins og það væri sofandi eins og það lagði sig og svaraði tveimur spurningum rétt. Önnur svör voru síðan algerlega út í hött, ekki einu sinni ágiskanir, heldur bara djók. Þetta eru svo klárir krakkar allt saman, að mér finnst þetta til skammar og lýsi eftir áhuga og undirbúningi og hana nú!

Svíar og húmor = mótsögn!

Ég rakst á dagskrárlið á RÚV í kvöld sem lýst var sem "sænskum gamanþætti" og þurfti að hugsa um það heillengi. Felst ekki ákveðin mótsögn í þessu? Geta Svíar gert gamanþætti? Þetta varð ég að sjá! Fordómar mínir reyndust því miður fullkomlega á rökum reistir og vel það. Húmor og Svíar fara ekki saman. Jafnvel í "gamanþáttum" velta þeir sér upp úr vandamálum! Ykkur er velkomið að reyna að snúa þessari skoðun minni, en það þarf að vera með mjög sterkum rökum!

Konur við stjórnvölinn á alþjóðavettvangi

Það hlýtur að vera sérstakt fyrir ráðamenn í Sádí Arabíu að fá sendinefnd, sem eingöngu er skipuð konum, í opinbera heimsókn frá öðru landi. Frá okkar bæjardyrum séð kemur það flott út að konur í valdastöðum í þjóðríki heimsæki land, þar sem möguleikar kvenna eru raunverulega afskaplega litlir þótt annað sé látið í veðri vaka, og sýni að í okkar landi séu konum allir vegir færir. Hins vegar væri gaman að vera fluga á vegg og heyra sjónarmið móttökuaðilanna, og hvað þeim finnst í raun og veru. Í þeirra menningu hlýtur það að virðast undarlegt að konur séu sendar einar til útlanda til að hafa orð fyrir þjóð sinni. Taka þeir mark á því sem þær hafa fram að færa? Kannski er þetta tómt kurteisishjal? Haldið þið að við getum breytt einhverju í djúpstæðri menningu Sádí Arabíu?
mbl.is Ræddu málefni kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband