Færsluflokkur: Dægurmál

Vatn er ekki það sama og vatn, eða er það gosvatn?

vatnsglasÞað er frábært hjá Agli að hvetja til vatnsdrykkju, en mér finnst ekki passa að í kjölfarið komi: „fáðu þér vatn – fáðu þér Kristal“. Viljum við byrja að kalla sódavatn, vatn með bragðefnum, og aðrar slíkar vörur vatn? Ég veit þetta er gert í mörgum löndum, þar sem vatn er ekki jafnmikið vatn og á Íslandi (skiljið þið hvað ég á við? - hér er vatnið náttúrulegt og gott). Ég vandist snemma á að þurfa að biðja um „agua sin gas“, því annars væri komið með gosdrykk. Getum við einhvern veginn reynt að passa að vatn verði vatn en gosdrykkir verði ekki vatn? Eruð þið með hugmyndir?


Zero hvað?

CokeLabelsÉg er líklega einn helsti neytandi sykurlausra gosdrykkja fyrr og síðar á Íslandi, þótt víðar væri leitað, en er ekki nóg komið af mismunandi tegundum af sykurlausu kóki? Hvað mig varðar persónulega, þá er þetta allt á kostnað diet kók, sem er minn drykkur í dag, og síðan held ég að neytendur þurfi ekki meira. Hver greinir markaðsþarfirnar, og hvað segir þeim að það þurfi Coke Zero? Sniðinn að smekk karlmanna segja þeir, en hvernig vita þeir það? Vilja karlmenn sykurlaust kók með moldarbragði frekar en alvöru kók? Er þetta sett til höfuðs Pepsi Max eða hvað? Mig langar að komast inn í markaðsþarfagreininguna og ákvarðanaferlið hjá þessu frábæra fyrirtæki, sem á svo mikið undir mér!


mbl.is Forstjóri Coca-Cola í Skandinavíu aðstoðar við kynningu hjá Vífilfelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilboð sem drepa

Þátturinn í Sjónvarpinu, um vinnuaðferðir þær sem viðgangast í Indlandi, var mjög sjokkerandi. Heilsa og líf fjölda fólks er lagt í stórhættu til að verslunarkeðjur á Norðurlöndum geti framleitt og selt ódýra vefnaðarvöru, auk þess sem umhverfismengun er stórfelld. Þarna var fólk úti á bómullarakri að úða eitri sem hvergi annars staðar er leyft, og þeir voru ekki einu sinni með grímu eða hanska. Svo fer þetta fólk og borðar mat sinn með höndunum. Enda eru bændur á svæðinu meira og minna með krabbamein. Í þættinum sáust líka verkamenn, hálfir ofan í sýrubaði eða kerjum með litarefnum eða klór, berfættir og hanskalausir að hræra í baðmullarefnum. Svo sást þar sem efnum, lit og tærandi lausnum var hleypt beint út um rör í næstu á eða undir næsta akur. Ætli stórfyrirtækin sem selja fullbúna vöru í smásölu þekki allt ferlið? Er farið á bak við þau, eða eru þau með í kúguninni og umhverfisspjöllunum?

Kannski fullseint í rassinn gripið...

...og ekki alveg ljóst hvað fengist með þessari frekar afturvirku aðgerð!
mbl.is Vilja svipta Hitler þýskum ríkisborgararétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sofa saman

Sofa samanHvers vegna sefur fólk saman? Hrotur maka kosta hinn aðilan jafnvel tveggja ára svefnleysi og eflaust má rekja ýmis önnur óþægindi til þess að hjón sofa í sama rúmi alla ævi. Á Spáni og í fleiri löndum (þar sem getnaðarvarnir hafa ekki alltaf verið aðgengilegar) þykir sjálfsagt að hjón sofi í tveimur rúmum, þótt þau séu reyndar í sama herbergi. Í Evrópu fyrri tíma voru hjón með sitt hvort herbergið og snyrtiherbergi, þannig að þau áttu sitt prívat. Það var ekki nema þau ætluðu að nota rúmin til annars en að sofa, að þau skriðu undir sömu sæng, en fóru svo í sitt hvort rúmið til að sofa og líklega til að fá svefnfrið. Væri þetta ekki meira spennandi?
mbl.is Hrotur maka kosta mikinn svefn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru þetta ekki núna fyrst pizzur?

PizzaÞvílíkur munur! Nú verð ég frekar til í að kaupa Dominos pizzur með börnunum, því þetta sem þeir kalla "ítalskar" pizzur, eru altént líkari pizzum en hinar (amerísku?) sem eru ekkert nema brauð með tómatsósu og osti. Ég skil samt ekki hvers vegna þeir framleiða ekki bara þessar sem eru líkari pizzum? Finnst einhverjum þykkbrauðs magaþembandi flatbökurnar betri? Hvað finnst fólki um það?

Þörf á upplýstri umræðu um ESB á vettvangi stjórnmála

Nú hafa Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu úr Evrópunefnd um að þeir séu á móti aðild Íslands að ESB, þar sem hagsmunum Íslands yrði ekki gætt varðandi sjávarútvegsmál. Það er ekki hægt að slá því föstu hvernig samið yrði milli ESB og Íslands, fyrr en gengið er til viðræðna um hugsanlega aðild. Ég tel það vera gunguskap í íslenskum stjórnmálaflokkum að vilja ekki fara í aðildarviðræður. Viðræður eru ekki samningur, og til að upplýst umræða geti átt sér stað hér á landi meðal almennigns jafnt sem stjórnmálamanna, þá er ekki nóg að byggja á einhliða upplýsingum. Það þarf að skoða rök, og vil ég benda á erindi Michael Köhlers um sjávarútvegsstefnu ESB og Íslands á evropa.is í þessu samhengi. Fjöldi sjálfstæðismanna eru nefnilega ESB-sinnar (í felum) og enn fleiri eru með opinn huga varðandi að skoða hvernig aðild Íslands liti út. En á meðan stjórnmálamenn, sem eru á móti aðild stýra umræðunni, þá fær allur almenningur ekki upplýsingar sem byggjandi er á. Og nei, ég tel ekki að þessi sameiginlega yfirlýsing segi til um hugsanlegt stjórnarsamstarf, a.m.k. ekki á meðan enginn flokkur hefur "cojones" til að gera ESB að kosningamáli.
mbl.is VG og Sjálfstæðisflokkur gegn ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Diet kók gerir sama gagn

Nú skil ég af hverju ég þarf Diet kók á morgnana, það er náttúrulega bara til að slá á fráhvarfseinkennin!
mbl.is Lítið gagn í kaffibollanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg sjálfspíningarhvöt

Fyndið að lesa umræðu um Vista stýrikerfið og þurfa að heyra að tölvur "krassi" hjá vinum sínum eða að fólk eyði heilu og hálfu dögunum í vírusskann, en ég heyrði um þetta bæði í dag. Hvað er þetta eiginlega? Er fólk yfirleitt að nota PC vélar ennþá?!? Það er undarlegt í ljósi þess að: 1. þær virka aldrei eins og maður vill og stýrikerfið sem þær flestar keyra á er gallagripur frá upphafi og 2. það hafa verið til betri vélar í 20 ár sem byggja á þeirri hugmyndafræði að tölvur eigi ekki að vera með vesen, heldur bara að virka fyrir mann. Þær heita Apple Macintosh. Eignist líf, losið ykkur við vandamálin, hættið að pína ykkur, frelsist!

Þroskasaga kirkjunnar

Kirkjan og þróun trúmála eru mér hugleikin efni um þessar mundir, annars vegar vegna þess að þetta er annar veturinn sem ég sæki kirkju reglulega þar sem ég er að ferma afkvæmin, og hins vegar vegna þess að ég held að allir sem hafa áhuga á alþjóðastjórnmálum hljóti að fylgjast með trúmálum á alþjóðavettvangi, þar sem þau eru oft afsakanir fyrir stríðum og glæpum.
Hugmyndir um að sameina kirkjudeildir kristinnar kirkju eru ákaflega áhugaverðar að mínu mati, sérstaklega þar sem það myndi vera merki um ákveðinn þroska og gagnkvæman skilning kristins samfélags. Mér finnst líka áhugaverðar kenningar þess efnis að siðbót í ætt við þá sem M.Lúter stóð fyrir í kristinni kirkju, hafi enn ekki átt sér stað í trúarsamfélagi múslíma, og því vanti upp á ákveðinn þroska þess samfélags sem notar gjarna trú sem skálkaskjól fyrir rangtúlkanir og samfélagslega glæpi á borð við ofsóknir. Ef við skoðum trúna í tímalegu samhengi, þá ætti kannski að fara að koma að slíkri umbreytingu, þótt hún virðist reyndar ekki vera í sjónmáli!
Kirkjuhefðir á Íslandi hafa líka þroskast mikið undanfarin ár og get ég altént hrósað prestum í Nesirkju fyrir að hafa leitt kirkjuna inn í nútímann án allrar helgislepju. Þar er talað um dægurmál, mannleg samskipti skoðuð, boðið upp á tónleika, börnin látin njóta sín og svo er hlegið hjartanlega og klappað. Halelúja!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband