Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Í göngutúr með ruslið

Ég hef verið að reyna að bæta mig í að fara með fernur, pappaílát og blöð í endurvinnsluna og hefur orðið vel ágengt síðan gámarnir komu hingað í hverfið. Um daginn höfðu safnast saman pappaílát í kassa og blöð í poka, og ákvað ég að taka það með mér þar sem ég var á leiðinni út í búð og skila því í gáminn. Þetta var um það leyti dags sem fólk er að koma úr vinnu og fara í búðir og margt fólk á ferli á Hofsvallagötunni. En það átti ekkert að líta illa út að vera úti að ganga með ruslið undir hendinni, því ég stefndi á gáminn. Þangað til ég komst að því að gámurinn var FARINN! Þá var ekkert um neitt annað að ræða en snúa við og fara í Melabúðina með ruslið í poka, eins og ég hefði skroppið með það í skemmtigöngu. Mjög lekkert. Hvert eru gámarnir farnir? Vilji minn til að safna fernum og öðru slíku er eiginlega gufaður upp og nágrannarnir halda að ég sé klikkuð. Og ég hlýt að spyrja mig hve mikils virði það er að ég taki þátt í endurvinnslunni.


Aðalskipulag höfuðborgarsvæðisins í hnotskurn

Þið verðið að skoða þessa snilldarlegu útfærslu á aðalskipulagi höfuðborgarsvæðisins, en um leið verð ég að biðja hörundsárt fólk að hafa húmor fyrir þessu! Ég hef nú fengið upplýsingar um að Halldór Baldursson teiknaði og vona að hann afsaki dreifinguna þar sem ég get hans sem höfundar. Hér er tengill í síðuna hans. Smellið á myndina til að stækka:


Reykjavík og nágrenni

Allir hafa sinn vitjunartíma

Ég hef trú á að Bryndís geti haldið uppi hinu góða starfi sem unnið hefur verið á Bifröst undanfarin ár. Ef hún verður eingöngu ráðin tímabundið, þá má segja að nú séu tvær lausar rektorsstöður við einkarekna háskóla á Íslandi, þar sem ráða þarf formlega í stöðu rektors á Bifröst, auk þess sem leita þarf verðugs eftirmanns Guðfinnu Bjarnadóttur við Háskólann í Reykjavík. Það eru spennandi tímar framundan í menntamálunum, það er víst!
mbl.is Bryndís Hlöðversdóttir tekur við sem rektor tímabundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætti Muhamed að verða Jónsdóttir þegar hann flytur til Íslands?

Hvers vegna tíðkast það að margar aðfluttar konur taka upp eftirnafn mannsins síns við giftingu, t.d. Jackie Sigurðsson? Þetta er undarleg þróun og gæti endað með því að nafnahefðir íslenskrar tungu tapast og við tökum upp notkun fjölskyldunafna. Slíkt er einkennandi fyrir patríarkísk samfélög þar sem karlar slá eign sinni á konur og á ekki heima í samfélagi sem byggist á jafnrétti og einstaklingsfrelsi. Þetta var kannski skiljanlegt þegar ein og ein erlend kona giftist Íslendingum, en núna þegar vinsældir víkinganna hafa aukist á alþjóðlegum hjónabandsmarkaði og mannanafnalög eru orðin opnari, þá ættu þeir sjálfir að hafa vit á að leggja áherslu á að konur þeirra haldi sínu nafni til samræmis við íslenska málhefð. Það myndi örugglega flýta fyrir aðlögun kvennanna að siðum og þjóðfélagi því það er margsannað að menning er nátengd tungumálinu og málvenjum. Ég hef ekki enn heyrt um að aðfluttir eiginmenn íslenskra kvenna kalli sig t.d. Muhamed Jónsdóttir og get ekki séð að annað skuli gilda um konur og að þær taki karlmannseftirnöfn!

Hundrað milljónir til íslenskukennslu fyrir útlendinga

Ég fagna því að þetta mikilvæga málefni hafi náð í gegn. Þeir sem velja að setjast hér að til lengri eða skemmri tíma fá svo miklu betri innsýn í daglegt líf, sögu og menningu okkar þjóðfélags með tungumálinu og öðlast þar með forsendur til að ákveða að verða hluti af því. Fjölmenningarlegt samfélag er sá veruleiki sem blasir við okkur og þá þýðir ekki að stinga höfðinu í sandinn og halda að "vinnuaflið" hljóti að hverfa án þess að rífa kjaft. Núverandi ástand býður upp á myndun menningarhópaeyja í samfélaginu, en slæmar afleiðingar þess getum við séð í löndum eins og Frakklandi og Þýskalandi. Að kenna fólki íslensku og bjóða þeim upp á menntun sem því sæmir er besta ráðið til að hér megi þrífast heilbrigt þjóðfélag allra sem vilja vera Íslendingar. Ég óska félögum mínum í menntamálaráðuneytinu góðs gengis í að koma málinu í framkvæmd.


mbl.is 100 milljónum varið til íslenskukennslu fyrir útlendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvalir í Noregi og álver í Hafnarfirði

Þegar ég var blaðamaður var mér kennt að kanna allar hliðar máls, en í Mogganum í dag finnst mér að þurfi að láta hvali og álver njóta vafans: Á forsíðu er sagt frá því að hætt hafi verið við að halda ráðstefnu stjórnenda í sjávarútvegi í Íslandi vegna hvalveiða, en hún verði haldin í Noregi í staðinn. Veiða Norðmenn ekki líka hvali? Svo er sagt frá að Hafnfirðingum, væntanlega í efri byggðum bæjarins, finnist álverið vera of nálægt sér! Var álverið ekki þarna þegar fólk skoðaði íbúðir á staðnum?! Ég man að ég hugsaði það einmitt þegar verið var að byggja þarna, að ég gæti aldrei búið svona ofan í verksmiðju og skildi ekki hve fljótt íbúðir seldust.

Hittu skyndibitann lifandi

Er þetta í lagi? Er þetta þjóðir sem setja út á hvalveiðar? Þvílíkur viðbjóður, ég get ekki sagt meira, horfið á myndbandið: Meet your meat: http://www.meat.org/  

Ísland? Æ, whatever!

Alveg ótrúlegt að heyra ræðu Condolezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, við undirritun samkomulags um áframhaldandi varnir fyrir Ísland. Hún kynnti þetta sem samkomulag við Írland, en úps, æ, æ, ég meinti Ísland. Þetta finnst mér endurspegla viðhorf og áhugaleysi Bandaríkjanna fyrir þessu samkomulagi. Svo talaði hún um að BNA myndi verja okkur fyrir alls kyns vá, þar með talið náttúruhamförum! Ætli við reddum því nú ekki... Ég verð að vera sammála Davíð Odds og vinstrimönnum - auðvitað hefðum við átt að segja þessum samningi upp á okkar forsendum. Við vorum ekki mjög kúl í þessu máli.

Samkomulag um hvað?

Ekki veit ég nákvæmlega hvað felst í samkomulagi sem íslenska stjórnin hefur gert við Bandaríkin um varnarmál. Hver veit það? Hver ræður því? Var rætt og samið í þaula? Ég hefði sko fengið Bandaríkjamenn til að hysja upp um sig og sýna okkur þá virðingu sem okkur ber, ekki spurning!
mbl.is Samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál undirritað á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tjáningarfrelsi er ekki til lengur

Gamalgróin hátíð á Spáni, "Cristianos y Moros" á nú undir högg að sækja af ótta við að múslimar móðgist. Það hefur verið grafið svo gjörsamlega undan tjáningarfrelsi því, sem hingað til hefur verið við lýði í lýðræðisríkjum, að það er ei nema svipur hjá sjón. Við Vesturlandabúar erum svo meðvituð um að sýna ekki fordóma og passa að allir fái að njóta vafans, en leyfum um leið öðrum að troða á okkar rétti til tjáningar. Og nú eru hefðir hins kristna heims farnar að lúffa fyrir tilætlunarsemi og fordómum hópa sem þola ekki öðrum að hafa hefðir og skoðanir.
mbl.is Spánverjar stilla hátíðahöldum í hóf af ótta við að móðga múslima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband