Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Líf að færast í umræður um ESB aðild

Umræðan um ESB og hugsanlega aðild Íslands hefur undanfarið breyst úr yfirhylmingum og rangfærslum stjórnmálamanna, sem treystu því að almenningur væri almennt illa upplýstur, í meiri "matter-of-fact" umræðu. Ég fagna því, þar sem ég tel að Íslendingar þurfi að fara í aðildarviðræður til að vita í alvöru um alla kosti og galla þess að vera innan ESB. Reyndar er mín skoðun sú, að með EES samningnum höfum við í raun byrjað að taka þátt í Evrópusamrunanum, en séum í þrjósku okkar að fresta því að okkar forsendur og skoðanir hafi eitthvað að segja. Koma Michael A. Köhler, helsta aðstoðarmanns sjávarútvegsmálastjóra ESB hingað til lands og yfirlýsingar hans um að Íslendingar munu alltaf stýra aðgangi að sínum fiskimiðum, gæti haft áhrif á þróun umræðunnar. Pétur Gunnarsson minnir á að það voru Sjálfstæðismenn sem bentu á að aðild að Evrópusambandinu væri líklega heppilegasta leiðin fyrir Ísland, en síðan gerðist eitthvað dularfullt í þeim flokki. Í Háskólanum í Reykjavík var um daginn áhugavert málþing um evru eða ekki evru og nú í vikunni verður þar fundur um hvort hægrimenn eigi heima í ESB. Öll slík umræða er að sjálfsögðu af hinu góða, en nú er bara að sjá hvort einhver flokkur hafi hugrekki til að gera þetta virkilega að kosningamáli en drekki því ekki í dægurmálaþrasi.

Látum viðfangsefnið ekki flækjast fyrir okkur

Ég ætlaði ekki að tjá mig um klámþingið margumrædda, en get ekki orða bundist. Ég fer fremst í flokki þeirra sem vilja veg Íslands sem ferðamannalands og fýsilegs staðar til ráðstefnu- og fundarhalda sem mestan og tel hæpið að stjórnvöld eða aðrir geti valið viðfangsefni viðburða sem hér eru haldnir. Hér er um að ræða hóp sem hefur lifibrauð af ákveðnum iðnaði. Auðvitað getur ýmislegt vafasamt tengst þessum iðnaði sem öðrum. Eigum við að banna læknaþing af því sumir læknar í heiminum útvega fíklum lyf? Við höfum tekið með virktum á móti ráðamönnum ríkja þar sem mannréttindi eru fótum troðin, bjóðum stórfyrirtæki sem styrkir vopnaframleiðslu að setja á fót starfsemi hér, seljum fatnað fyrirtækja sem þykir sannað að hafi börn í þrælavinnu, og svo mætti áfram telja. Viðkomandi aðilar hafa valið okkar land til að hittast, þau leigja sér dýr hótelherbergi, ráðstefnusali og samgöngutæki og greiða fáránlegt verð fyrir mat og drykk til að koma hingað. Í þessum stóra hópi er meirihlutinn eflaust frekar venjulegt fólk, sem jafnvel gæti komið hingað síðar með fjölskyldu sína eða vinnufélaga og kynnt fallegt land og góðar móttökur víða. Tekjur og gott orðspor er okkur til framdráttar en forræðishyggjan til vansa.

Loksins!

Gaman að forseti Djíbútís skyldi loksins sjá sér fært að koma hingað! Ég býst við að ferðaskrifstofur munu keppast við að nýta stjórnmálasambandið til að bjóða upp á lúxus safaríferðir til landsins og bráðum vita allir hvar þetta er! En ef við snúum fáfræði okkar við: gætuð þið sett ykkur í spor einhvers greys í grunnskóla í téðu landi, ef það er beðið að benda á Ísland á landakorti? Það væri kvikindislegur kennari sem gerði það!
mbl.is Forseti Djíbútís sækir Ísland heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólaður niður allan tímann í flugvélum

Airplane seatMaður hefur varla við að fylgjast með breyttum kröfum í flugferðum. Undanfarið hef ég tekið eftir aukinni áherslu á að sitja kyrr í sætinu með sætisbeltin spennt, helst allan tímann. Þar áður var mikil áhersla lögð á að hreyfa sig sem mest um farþegarýmið til að ferðin hefði ekki slæm áhrif á líkamann. Það er eins og þessar reglur séu settar til að bregðast við einhverju sem gerist, frekar en þær séu rökréttar að öðru leyti. Sama má segja um tólahræðsluna og vökvabannið. En sem sagt, núna á maður helst að vera kyrr í sínu sæti og vera niðurólaður, líklega vegna þess sem nýlega gerðist um borð í vél milli Keflavíkur og Parísar. Svo maður situr bara, prúður og stilltur, getur ekki verið með vökva í neinu magni, getur ekki notað tímann til að snyrta á sér neglurnar, verður að böðlast við að skera kjúkling GordonBleu með plasthnífapörum, og svo verður maður að gjörasvovel að halda í sér þangað til lent er!


Viðurstyggilegar fréttir af níðingsverkum

Hvers vegna hefur aldrei verið talað um þetta áður? Getur verið að stór hluti fólks hér á landi hafi persónulega sögu að segja af misnotkun eða niðurlægingum á barnaheimilum, upptökuheimilum eða jafnvel sumarbúðum? Voru það bara níðingar sem fengust til að reka slíkar stofnanir? Var þetta kallað stríðni, agi, herðing, uppeldi, kennsla?! - hvaða merkimiða var hægt að setja á svona til að réttlæta það sem gekk á fyrir börnum og foreldrum? Það er hreint út sagt skelfilegt að heyra þetta og ekki furða þótt margir hefi átt erfitt uppdráttar í lífinu síðan, eins og sjá mátti í Kastljósi í kvöld. Maður getur ekki annað en spurt sig hvað telst eðlilegt í þessum heimi og hvaða viðmið getur maður kennt börnunum sínum?

Glórulaust rugl

Þetta er nú algjört rugl. Vonandi verður þetta til að flýta fyrir því að "einkaflugvöllurinn" fari úr miðbænum, svo borgin geti þróast eðlilega. Nú er lag að blása lífi í umræðuna, fá tilboð í lagningu hraðlestar til Keflavíkur og spara þannig mannslíf, mengun, bíla og vegaframkvæmdir. Og hvar eru samkeppnissjónarmiðin? Maður verður bara orðlaus!
mbl.is Iceland Express fær ekki inni á Reykjavíkurflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn tími til að endurmeta menntunarstig þjóðarinnar

Það getur ekki annað verið en þessar tölur - ef þær eru raunverulegar, hafi eitthvað að segja um menntunarstig íslensku þjóðarinnar. Nú er lag að gera úttekt á ný á brottfalli úr skólum og uppfæra rannsóknir á téðu lágu menntunarstigi okkar. Burtu með barlóminn í aðilum vinnumarkaðarins og förum að vera stolt af menntakerfinu okkar. Ef við trúum ekki að það virki, þá virkar það ekki.


mbl.is Mikil fjölgun nemenda í háskólum og framhaldsskólum á síðustu árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Börn sem söluvara?

Með frestun barneigna og aukinni ófrjósemi í hinum vestræna heimi er skiljanlegt að eftirspurn eftir börnum til ættleiðingar aukist. Að sjálfsögðu er það hið besta mál að börn sem fæðast í slæmum aðstæðum komist til fólks sem getur veitt því gott líf. Það sem ég óttast hins vegar mest þegar fréttir berast af mikilli "eftirspurn" eftir börnum til ættleiðingar, er að óprúttnir aðilar kunni að nýta sér neyð fólks og ræna börnum til að græða pening. Ég held nefnilega að það sé algengara en margur heldur.


mbl.is Aukin eftirspurn eftir börnum til ættleiðingar á alþjóðavettvangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur við stjórnvölinn á alþjóðavettvangi

Það hlýtur að vera sérstakt fyrir ráðamenn í Sádí Arabíu að fá sendinefnd, sem eingöngu er skipuð konum, í opinbera heimsókn frá öðru landi. Frá okkar bæjardyrum séð kemur það flott út að konur í valdastöðum í þjóðríki heimsæki land, þar sem möguleikar kvenna eru raunverulega afskaplega litlir þótt annað sé látið í veðri vaka, og sýni að í okkar landi séu konum allir vegir færir. Hins vegar væri gaman að vera fluga á vegg og heyra sjónarmið móttökuaðilanna, og hvað þeim finnst í raun og veru. Í þeirra menningu hlýtur það að virðast undarlegt að konur séu sendar einar til útlanda til að hafa orð fyrir þjóð sinni. Taka þeir mark á því sem þær hafa fram að færa? Kannski er þetta tómt kurteisishjal? Haldið þið að við getum breytt einhverju í djúpstæðri menningu Sádí Arabíu?
mbl.is Ræddu málefni kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþjóðasamvinna er framtíðin - setjum Evrópumálin á oddinn

Norrænt samstarf er ákaflega mikilvægt fyrir okkur og hefur á vissan hátt haft góð áhrif á hina sérstöku stöðu Íslands og Noregs utan við ESB en innan EES. Ástæðan fyrir því að norræna samstarfið hefur haldið, er fyrst og fremst vilji þjóðanna til að halda því og styrkja, en ekki má gleyma þeirri almennu ástæðu sem liggur í aukinni alþjóðasamvinnu á öllum sviðum þjóðlífs. Það er framtíðin, og löngu kominn tími til að óska eftir aðildarviðræðum okkar og Norðmanna við Evrópusambandið. Verst þykir mér hvernig málið hefur tapast í kosningum í dægurmálaþrasi. En nú er Halldór kominn þessa stöðu og verður reffilegur sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar og verðum við Íslendingar að nýta þann tíma, sem hann verður í embætti, til að byggja upp samstarf til framtíðar. Hann hefur breytt skoðunum sínum og ættu aðrir stjórnmálamenn að geta þróað skoðanir sínar á sama hátt. Ég hvet alla stjórnmálaflokka til að setja Evrópusamstarfið á oddinn í komandi kosningum og þora að segja hvað þeim finnst! Hér beini ég máli mínu e.t.v. helst til Sjálfstæðisflokksins, þar hafa Evrópusinnar verið í felum undanfarin ár en ættu nú að geta komið út úr Evrópuskúffunum.
mbl.is Halldór segir að norræna samstarfið muni eflast ef öll ríkin væru í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband