Skemmtilegur fundur í Tékklandi

LibliceÉg er stödd í Tékklandi, nánar tiltekið í litlum bæ utan við Prag sem heitir Liblice. Tilefnið er ársfundur EUSCEA, Evrópusamtaka þeirra sem stýra mennta- og vísindaviðburðum, (www.euscea.org) Fundurinn fer fram í gamalli fallegri höll, sem sjá má á meðfylgjandi mynd, en hún hefur verið gerð upp og er núna notuð sem ráðstefnuhótel. Maturinn hér er stórkostlegur, ég veit nú ekki hvort hann er neitt sérstaklega tékkneskur, en hann er góður. Það helsta sem er tékkneskt eru kartöflur í öllum útgáfum auk alls kyns pylsa. Við fengum okkur rauðvín héðan úr héraðinu sem kom mjög á óvart, ferskt og gott. Við erum hér 40 manns frá 23 löndum, mjög skemmtilegt og hresst fólk, eins og við er að búast af viðburðastjórnendum.

Sagan um ísskápinn sem dó

Ísskápurinn á heimilinu gafst upp á fimmtudaginn. Ég brást auðvitað við með því að reyna að forða sem mestu af matnum frá skemmdum, og sem betur fer átti ég von á fólki í heimsókn sem þannig breyttist í matarboð. Í frystinum var dýrindis humar frá Vestmannaeyjum, rækjur og krabbi þannig að þemað varð sjávarkrás. Gestirnir mættu með vín og því varð fínasta veisla úr þessu. Verst er að ég var nýbúin að kaupa birgðir af ís sem fóru beint í ruslið. En þá var það ísskápurinn sjálfur. Ég byrjaði á að reyna að fá ísskáp lánaðan en ákvað frekar að drífa í að kaupa. Það sem hefur orðið okkur til bjargar er að það er fullkomið veður til að geyma helstu nauðsynjar úti við, og því ríkir útilegustemmning á Hagamelnum. Svo voru ísskápabúðirnar þræddar, spáð og spekúlerað, og vonandi tekst að finna rétta skápinn um helgina. Á meðan er það bara útilegustemmning á norðursvölunum!

Hvað kostar skutlið okkur?

fita vs olíaÉg rakst á áhugaverða síðu hjá Orkusetrinu þar sem hægt er að finna út hvað keyrsla kostar okkur, innanbæjar og utan, eftir því hvernig bíl við keyrum. Prófið þetta og spyrjið ykkur svo hvort ekki væri hægt að ganga eða hjóla og senda börn gangandi, hjólandi eða í strætó á íþróttaæfingar núna þegar daginn lengir. Þarna má einnig sjá rauntímamæli fyrir alla orkunotkun á Íslandi, raforkunotkun, heitavatnsnotkun og eldsneytisnotkun. Skemmtilegt. Hér er tengill í síðuna með prófinu, annars er þetta á orkusetur.is og þar fékk ég þessa skemmtilegu mynd líka lánaða.

Sumt grín er G-vara - endursýnum góðar gamanþáttasyrpur

allo alloÉg rakst á þátt um daginn sem heitir "Er grín G-vara?" þar sem sýndar eru gamlar glefsur úr íslenskum grínþáttum, gömlum áramótaskaupum o.fl. Var það ekki skaupið 1982 eða 84 sem var svo ægilega gott, að í minningunni hefur annað eins skaup ekki verið gert? Samt er það nú þannig að sumt af þessu gríni hefur ekki elst vel. Hins vegar langar mig að vekja máls á því að Sjónvarpið endursýni ógleymanlega erlenda þætti á borð við Löður (Soap) og Allo! allo!. Ég hef verið að fylgjast með síðarnefndri þáttaröð á ferðum mínum um Evrópu, og þar er sko komið grín sem eldist vel. Ég sit ein á hótelherbergjum og finn mér afsakanir til að mæta ekki í dýrindis kvöldverði aðeins til að missa ekki af René og félögum í frönsku andspyrnuhreyfingunni og málverkinu af "the fallen madonna with the big boobies!" Hvernig væri að dusta rykið af þessum góðu þáttum sem hafa sannað að sumt grín er G-vara?

Er þetta merki um fullorðnun?

Ég hef aldrei komist upp á lag með að drekka mikið kaffi. Fannst það bara vont á bragðið og hélt mig við dæet kók eða aðra kalda drykki. Ég byrjaði að smakka kaffi um þrítugt þegar ég vann á Spáni og fannst ágætt að fá einn sterkan eftir kvöldmat, enda var kaffið þar gott, og jafnaðist ekkert á við einn Café cortado eða jafnvel Tía María kaffi. Svo þegar ég vann í Portúgal komst ég virkilega að því hvað kaffi getur verið gott. Á vinnustöðum hér heima fór á sama tíma að bera á "alvöru" kaffivélum og maður gat fengið "cortado" (hér á landi kallaður "macchiato" uppá ítalskan máta) eða cappuccino á fundum í staðinn fyrir afrennslið sem áður tíðkaðist. Núna hef ég verið á tveimur vinnustöðum þar sem eru góðar kaffivélar og ég er barasta farin að fá mér kaffi á hverjum degi! Það er ennþá gos á morgnana eins og unglingarnir, en svo allt í einu langar mig bara hreinlega í kaffibolla. Skrýtið. Ætli þetta sé eins og með ólífur, avocado, gin og fleira, sem maður "lærir" að þykja gott með aldrinum? En semsagt, ég leyfi mér að halda því blákalt fram að kaffinotkun mín tengist því að ég sé orðin fullorðin, svo nú má fara að taka mig alvarlega hvað á hverju.

Græddum heilan dag í dag

Í dag er merkilegur dagur, aukadagur, alveg ókeypis, okkur til afnota að njóta og nýta. Hann var fallegur, bjartur og fagur þessi dagur. Ég fíla 29. febrúar. Til hamingju með hlaupársdaginn!

Fjallbaksleið til Aþenu

Snow on AcropolisÉg lagði land undir fót í gær, sem ekki er svo sem í frásögur færandi, og var á leið á tveggja daga fund í Aþenu. Það er nú ekki heiglum hent að komast til Grikkjaveldis þar sem flugsamgöngur þangað eru örugglega stopulli en rútuferðir um fjallbaksleið nyrðri. Lausnin var að fljúga til Köben á sunnudagskvöldi, gista þar og fara áfram til Aþenu á mánudagsmorgun. Þegar ég svo mætti á Kastrup kom í ljós að allt flug til Aþenu hafði verið fellt niður. Starfsmaður SAS sagði mér kíminn að það hefði snjóað aðeins í borginni og þess vegna hafi flugvellinum hreinlega verið lokað og ekki væri hægt að lenda í borginni. Eftir að hafa kannað allar leiðir til að komast var ljóst að ég myndi í öllum tilfellum missa af fundinum. Því var ekki um annað að ræða en snúa við heim. Ég verð nú að játa að það var pínu kjánalegt að fara svona tilgangslausan flugrúnt út í heim og aftur til baka bara vegna þess að Grikkir eru ekki "ávallt reiðubúnir" eins og skátarnir...

Lækning á minnistapi í sjónmáli?

Læknar í Kanada gerðu óvart þessa uppgötvun í miðri heilaskurðaðgerð: Lesið um það hér, þetta er ótrúlegt!

Leikhúsin að gera góða hluti

LeikhúsFrábært framtak hjá leikhúsunum að bjóða upp á ódýrari miða fyrir börn og ungt fólk. Þetta ýtir við manni að drífa sig að sjá það sem mann langaði að sjá í vetur og taka börnin með. Ég hringdi í dag og pantaði miða á nokkrar sýningar í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu svo við mæðgur verðum á leikhúsmaraþoni út febrúar! Við ætlum að sjá Ívanov á morgun, Sólarferð eftir tvær vikur og svo eina eða tvær sýningar uppi í Kringlu þar á milli. Reyndar hefur Borgarleikhúsið lengi haft ókeypis fyrir börn undir tólf ára, og ég hef nýtt mér það mikið til að menningarvæða afkvæmin og farið með þær að sjá hin ólíkustu leikverk. Þær eru alltaf til í að fara á leikhús, ég er mjög ánægð með hvað þær eru opinhuga gagnvart því. Núna eru þær orðnar pínu eldri, svo þetta kemur sér vel. Þótt það sé ekki aðalmálið með verðið, þá er það nú bara þannig, að svona tilboð virkar eins og pot til að minna mann á að drífa sig í leikhús.

Æðislegt veður, yndislegur mánuður!

EsjanGleðilegan febrúar gott fólk! Útsýnið úr glugganum á nýju skrifstofunni minni er slíkt, að þar blasir við Esjan og Skarðsheiðin, og þvílík fegurð að horfa yfir í svona brakandi kulda og snjó! Ég læt mér þó ekki nægja að horfa út um gluggann, því ég dreif mig uppí hesthús til gegninga í gær og mokaði allt húsið ein - 30 hesta hús. Mjög hressandi og gefur manni beina jarðtengingu, slökun og vellíðan. Holdhnjóskarnir farnir að losna og skeifurnar komnar undir klárana. Svo er kominn febrúar, pælið í því hvað það er geggjað! Öll afmælin í fjölskyldu- og vinahópi framundan, mitt sjálfrar í enda mánaðarins og það gerir ekkert annað en birta til. Er einhver ástæða til að vera annað en glimrandi bjartsýnn?

Hvaða ameríski bíll er þessi Mörrseidís?

Mercedes BenzHvers vegna þarf Benz-umboðið að breyta umræðunni, nafninu og framburði á nafni bílategundarinnar sem það selur? Hvers vegna eigum við, hér á Íslandi, sem alltaf höfum talað um Benz eða Mercedez Benz, allt í einu að tala um "MÖRRSEIDÍS"?!, samanber auglýsingar sem ganga á öldum ljósvakans nú um stundir. Sagan sem ég heyrði af þessum bíl er að þýskur náungi, að nafni Benz, hafi orðið ástfanginn af suður-amerískri konu (argentískri held ég) sem hét Mercedes (borið fram "merseðes") og því kallaði hann bílinn Mercedes-Benz. Hér á landi hefur bílategundin alltaf verið kölluð Benz til styttingar. En Mörrseidís, með amerískum framburði og rúllandi tungu-erri... fíla það ekki alveg.

Mögnuð sýning og upplifun í Borgarleikhúsinu - Jesus Christ Superstar

Á laugardaginn brugðum við okkur þrjár kynslóðir saman á Jesus Christ Superstar, þá frábæru rokkóperu sem er nýfarið að sýna í Borgarleikhúsinu. Sýningin var hreint út sagt frábær, mögnuð uppfærsla og geggjuð upplifun út í gegn. Það er ekki oft sem maður vill ekki að sýning endi, og ekki oft sem áhorfendur standa upp í lokin og fagna með klappi og hrópum! Ég er mikill aðdáandi verksins og hef séð þær uppfærslur sem hér hafa verið gerðar, en þessi var algjörlega frábær, enda vorum við saman þrjár kynslóðir sem allar skemmtu sér vel í sinni upplifun á verkinu. Allir sem sungu aðalhlutverkin fengu að njóta sín samkvæmt því sem hæfði þeirra hlutverki, Krummi firnagóður og trúverðugur sem Jesús og Jens feikilega sterkur sem Júdas, enda býður það hlutverk jafnan upp á mikil tilþrif. Lára var æðisleg sem María Magdalena, Ingvar sem Pílatus og Bergur sem Heródes ...og bara allir sem komu fram í sýningunni. Það skín af þeim áhuginn og vandvirknin. Og þótt gaman sé að lesa leikdóma í fjölmiðlum, þá vil ég hvetja fólk til að láta sinn eigin smekk ráða, því þetta var gæsahúð allan tímann og ég gef sýningunni 6 stjörnur af 5 mögulegum!

Hátíðarmaturinn snæddur í rólegheitum

Nýársdagur enn á ný, og árið 2007 virðist hafa flogið hjá á ógnarhraða. Snemma dags í dag fórum við í okkar hefðbundnu nýársgöngu, þótt það hafi verið frekar kalt. Mér finnst samt nauðsynlegt að fara út íu göngutúr á þessum degi til að hnusa af nýja árinu sem er að feta sín fyrstu skref. Þar sem brennan var haldin í dag, fékk ég góða vini í heimsókn til að borða kalkúnaafganga og svo löbbuðum við niður á Ægisíðu. Það var varla líft á brennunni sökum reyks og því drifum við okkur heim og skutum upp flugeldunum sem geymdir voru síðan í gær. Mér finnst stundum eins og hátíðarmaturinn sem tilheyrir aðfangadegi og gamlársdegi bragðist betur daginn eftir, kannski vegna þess að þá er ekki verið að borða í stressi til að taka þátt í hátíð kvöldsins, pökkum, brennum og flugeldum. Ég fíla að borða afganga daginn eftir í rólegheitum.
Svo er það bara að koma sér í gírinn fyrir nýtt ár, skipuleggja sig og setja markmið fyrir komandi vikur og mánuði. Gleðilegt nýtt ár!


Jólin koma...

Gleðileg jólÉg er komin í jólafrí þangað til 3. janúar 2008 og ætla að njóta dagana sem framundan eru með fjölskyldu, vinum, hrossum og gæludýrum heimilisins. Stöðug boð framundan, heima og heiman, þá er ég í essinu mínu! Búið að redda heimilisvandræðum þeirra Hrafns og Funa (hestarnir okkar), búið að kaupa langflestar jólagjafirnar og núna sit ég við eldhúsborðið og ætla að skipuleggja restina. Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og hamingju á nýju ári!

Bók andlitanna á netinu

Af því ég gef mig nú út fyrir að vera frekar svona tæknitengd og tölvuvædd miðað við að hafa verið unglingur "in the eighties" og gengið í framhaldsskóla sem trúði ekki á að tölvur myndu nokkurn tíma gera gagn, þá skráði ég mig á Facebook fyrir nokkru síðan. Nennti svo ekkert að gefa því meiri gaum fyrr en í síðustu viku að ég staðfesti skráninguna og opnaði mína eigin andlitsbók. Ég verð að játa að ég skil ekki alveg allt. Grunntilgangurinn, í mínum huga, er networking. En fyrir utan það, þá er ég hrædd um að svona dót ræni mig mikilvægum tíma. Ég byrjaði t.d. á að opna forrit sem felst í að merkja inn staði sem maður hefur komið á í heiminum. Ég hélt að þetta væru löndin, en komst að því að þetta voru allar borgir og bæir í öllum héruðum og svæðum heims. Eins og alþjóð veit, var ég fararstjóri í sólarlöndum um nokkurra ára skeið þannig að lítill blettur í heiminum eins og Mallorca fyllti strax vel upp í kvótann. Þegar ég var komin upp í 140 staði, börnin farin að sofa án þess að ég vekti því athygli og klukkan þaut yfirum miðnætti, þá gafst ég upp. Hver hefur tíma í þetta?! Samt er ég farin að leita að fólki á Facebook en lofa sjálfri mér að eyða ekki of miklum tíma í þetta. Enda er ég á kafi í vinnu, verkefnum, námi og ferðalögum. En ef þið eruð með Facebook, viljið þið vera vinir mínir? Grin

Síríuslengjan bjargar ferðinni

Það verður nú að segjast, að það er ekki alltaf þægilegt að ferðast á almennu farrými í þröngum flugvélum fullum af farþegum í misjöfnu veðri og oftast á ókristilegum tímum eins og ég hef gert nokkrum sinnum í haust. Það er ekki einu sinni hægt að taka upp Makkann og nota tímann til að vinna, svo lítið er plássið og olnbogarýmið. EN mitt í öllum óþægindunum, þá bíð ég í ofvæni eftir bjargvættinum: SÍRÍUSLENGJUNNI sem nú fylgir næstum alltaf með matnum um borð. Algjör snilld. Meira af þessu Icelandair! En ég veit ekki hvað ég geri ef ég sé köldu skinkuna einu sinni enn, sem fluffurnar fegra með því að kalla "hamborgarhrygg"! Þá vil ég heldur fá átta Síríuslengjur, kók og kaffi.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband