Færsluflokkur: Sjónvarp

Allt í góðu Geiri beibí!

Hæstvirtur forsætisráðherra vor telur ekki að við eigum í neinum teljandi efnahagserfiðleikum, samkvæmt viðtölum við hann í fréttaþáttum beggja sjónvarpsstöðva í kvöld. Það er allt í góðu, þótt fólk missi vinnuna, fjöldauppsagnir hafi orðið víða, fyrirtæki verði gjaldþrota og loki áður blómlegri starfsemi. Það er allt í lagi þótt krónan dansi súludans og vextir séu orðnir svo háir að venjulegt fólk getur ekki einu sinni séð fyrir sér afleiðingarnar í verstu martröðum sínum. Og það er ekkert tiltökumál þótt eignatengdar skuldir fari langt umfram verðmæti eigna. Nei, nei, þetta er allt í góðu, ekkert stress, verið alveg róleg. Við höfum það gott. Hættið þessu væli....

Sumt grín er G-vara - endursýnum góðar gamanþáttasyrpur

allo alloÉg rakst á þátt um daginn sem heitir "Er grín G-vara?" þar sem sýndar eru gamlar glefsur úr íslenskum grínþáttum, gömlum áramótaskaupum o.fl. Var það ekki skaupið 1982 eða 84 sem var svo ægilega gott, að í minningunni hefur annað eins skaup ekki verið gert? Samt er það nú þannig að sumt af þessu gríni hefur ekki elst vel. Hins vegar langar mig að vekja máls á því að Sjónvarpið endursýni ógleymanlega erlenda þætti á borð við Löður (Soap) og Allo! allo!. Ég hef verið að fylgjast með síðarnefndri þáttaröð á ferðum mínum um Evrópu, og þar er sko komið grín sem eldist vel. Ég sit ein á hótelherbergjum og finn mér afsakanir til að mæta ekki í dýrindis kvöldverði aðeins til að missa ekki af René og félögum í frönsku andspyrnuhreyfingunni og málverkinu af "the fallen madonna with the big boobies!" Hvernig væri að dusta rykið af þessum góðu þáttum sem hafa sannað að sumt grín er G-vara?

Það verður sko engin rúta, það verður langferðabíll !

Þessi setning er ein af þeim bestu úr íslenskum myndum. Djúp og hefur víðtæka tilvísun í það sem Stinni stuð vildi segja í skemmtimyndinni Með allt á hreinu. Annars var fyrsta setningin sem mér datt í hug með Arnold "Hasta la vista, baby!" en hún þýðir svosem það sama, þannig að það er alltaf gaman að eiga von á kallinum aftur.
mbl.is Vinsælast að lofa endurkomu að hætti Tortímandans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Visakort eða dvalarleyfi?

Alltaf gaman að skemmtilegum þýðingum, eins og í sjónvarpsþætti nú í kvöld, þegar söguhetjurnar komu að vegatálma vörðuðum hermönnum í Rússlandi, og hann sagði: "there is a roadblock ahead, and my visa has expired" sem var snilldarlega þýtt: "vegartálmi framundan og kortið mitt er útrunnið"! Skenntlegt!

Óþarft átak

Ég hef aldrei vitað eins óþarft átak og gervi-tilstand eins og á bak við fréttina í kvöld um að "nú ætli krakkar að ganga eða hjóla í skólann" í takt við eitthvað evrópskt átak, og tekið dæmi af míkróbænum Seltjarnarnesi, þar sem skólinn er uppi á hæð og allir búa innan við 100 metra í kringum þann hól. Síðast þegar ég vissi, þá tíðkaðist að börn væru í hverfisskólum á Íslandi, nema með einstaka undantekningum. Það er einfaldlega ekki hægt annað en ganga í skólann! Við þurfum ekki að taka öll átök beint upp eftir öðrum þjóðum þar sem aðstæður barna eru allt aðrar og oft frelsisheftandi. Ég skil ekki hvernig er hægt að hugsa sér að keyra börn í skólann við okkar aðstæður. Það myndi bara breyta þeim í ósjálfstæða eymingja. 

Síminn segir ekki alla söguna í auglýsingum

Loksins sá ég fram á að geta haft sjónvarpið þar sem ég vildi hafa það í stofunni, því með því að taka sjónvarpið í gegnum netttenginguna mína hjá Símanum, heyra loftnetin sögunni til! Eða svo er haldið fram í auglýsingunni frá fyrirtækinu. Engin loftnet, því það er hægt að ná öllu í gegnum netið. með betri myndgæðum að auki! Ég breytti því uppröðun í stofunni, færði sjónvarpið og settist til að horfa á báða fréttatímana, eins og flestir fréttaþyrstir Íslendingar gera. En þá kom í ljós að ekki er öll sagan sögð með auglýsingunni. Ég get ekki horft á fréttir Stöðvar 2 og Ísland í dag. Maður þarf semsagt að vera áskrifandi til að geta horft á ólæsta dagskrá í gegnum sjónvarp Símans. Þar með missir Stöð 2 alla hina, sem horfa á fréttir stöðvarinnar. Getur einhver stoppað þetta fólk í auglýsingunni, sem er að saga niður loftnetin sín, og sagt þeim að þau gætu séð eftir þessu!!



Íslenskir hestar erlendis

Ég var að horfa á samantekt frá heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem nú fer fram í Hollandi. Íslenski hesturinn er örugglega ein besta landkynningin okkar og frábært hve vel hefur gengið að kynna hann erlendis. En ég get ekki að því gert, að í hvert sinn sem ég horfi á íslenska hesta sem hafa verið fluttir út vegna keppni eða hafa verið seldir, þá er það tvennt sem vekur hjá mér ónotatilfinningu. Annars vegar hugsa ég alltaf hve heitt hestunum hlýtur að vera í ókunnu loftslagi, og hins vegar finn ég til sorgar yfir þeirri staðreynd að þegar hestarnir eru komnir út, eiga þeir aldrei afturkvæmt heim hvort sem eigendum þeirra líkar vetur eða verr. 

Sumarleg frétt á sumarsólstöðum

solGirnilegasta, sumarlegasta fréttin í sjónvarpinu í dag var af krökkum fyrir austan að stökkva ofan í Eyvindará í sólinni. Mig langar þangað, að stökkva ofan í ána, að vera í sólinni... mig langar út í sumarið! Það er allt fallegt við þennan dag, og ég hvet alla til að draga ekki fyrir sólina í nótt heldur hafa gardínur opnar og njóta ósvikinnar íslenskrar sumarnætur.


Hafa konur ekkert vit á fótbolta?

Ég var að horfa á 14:2, fótboltaþáttinn á RÚV, þar sem aðalumræðuefnið var gengi landsliðins á móti Svíum. Umsjónarmaður þáttarins ákvað að leita álits "fólksins á götunni" og tók allnokkra einstaklinga tali og spurði þá álits þeirra á landsliðinu og hvað hægt væri að gera. Það var engin kona í hópi þessara einstaklinga. Tilviljun? Vantrú á að konur hafi nokkuð að segja um fótbolta? Umsjónarmaður hefði allavega átt að sjá sóma sinn í að grafa upp einhverjar konur sem hann kannast við, ef hann var hræddur við að taka konur tali af handahófi.

Umskurður kvenna og hryllingur heimsins

BíómyndirÁ sunnudaginn sá ég tvær fantagóðar bíómyndir, svona myndir sem vekja mann til umhugsunar um heiminn og mannkynið sem hann byggir. Önnur var Beyond bordersmeð Angelinu Jolie og Colin Powell. Hún fjallaði um yfirstéttarpjásu í London sem fær mjög sterka köllun til að taka þátt í hjálparstarfi sem síðan leiðir hana frá Afríku til Tsjétsjéníu í gegnum Kambódíu. Þar mæta henni hryllilegar aðstæður, allt frá þurrkum og hungursneyð til öfgahópa og hryðjuverkastríðs. Hin myndir var sunnudagsmynd Sjónvarpsins, Moolaadé eða Verndarkraftur, senegölsk mynd um konu sem hjálpar litlum stelpum að flýja umskurð eða "hreinsun" sem viðgengst á ungum telpum í mörgum löndum Afríku. Það er eitt af þeim málefnum sem ég tel að þurfi að berjast gegnhvað ötullegast í heiminum í dag, og eitthvað sem myndi ekki viðgangast ef fleiri konur hefðu verið við stjórnvölinn undanfarnar aldir, en það er önnur saga. Frábær mynd, sem tók á viðkvæmu efni á smekklegan hátt með blöndu af kaldhæðni yfir lífinu og tilverunni. Þakka RÚV fyrir að sýna mynd frá Senegal, gott framtak! Ekki skemmir fyrir að Pollý, Senegalpáfagaukurinn okkar gat heyrt tungu forfeðra sinna...

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband