Færsluflokkur: Lífstíll

Loksins!

Gaman að forseti Djíbútís skyldi loksins sjá sér fært að koma hingað! Ég býst við að ferðaskrifstofur munu keppast við að nýta stjórnmálasambandið til að bjóða upp á lúxus safaríferðir til landsins og bráðum vita allir hvar þetta er! En ef við snúum fáfræði okkar við: gætuð þið sett ykkur í spor einhvers greys í grunnskóla í téðu landi, ef það er beðið að benda á Ísland á landakorti? Það væri kvikindislegur kennari sem gerði það!
mbl.is Forseti Djíbútís sækir Ísland heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svitafýla áhrifameiri en gáfur og persónutöfrar

Svona rannsóknir sanna að það eru að sjálfsögðu ekki gáfur eða persónutöfrar sem laða okkur að körlum. Þeir þurfa ekkert á því að halda. Þetta er allt miklu prímitívara, enda erum við einfaldlega ein dýrategund enn. Persónulega er ég ekki mikið fyrir fýluna per se, þótt það geti verið flott að sjá svitastorkna, vel vaxna drengi púla við erfiðisverk, svona í fjarlægð. Það er miklu þolanlegri lykt af mörgum öðrum dýrategundum en körlum. Að mínu viti jafnast t.d. ekkert á við ilminn undir faxi hesta, eða angan af hlýjum, bangsalegum voffa. En kannski er það ég sem er bara svona mikil skepna...


mbl.is Sviti karla getur bætt skap og aukið kynferðislega örvun kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólaður niður allan tímann í flugvélum

Airplane seatMaður hefur varla við að fylgjast með breyttum kröfum í flugferðum. Undanfarið hef ég tekið eftir aukinni áherslu á að sitja kyrr í sætinu með sætisbeltin spennt, helst allan tímann. Þar áður var mikil áhersla lögð á að hreyfa sig sem mest um farþegarýmið til að ferðin hefði ekki slæm áhrif á líkamann. Það er eins og þessar reglur séu settar til að bregðast við einhverju sem gerist, frekar en þær séu rökréttar að öðru leyti. Sama má segja um tólahræðsluna og vökvabannið. En sem sagt, núna á maður helst að vera kyrr í sínu sæti og vera niðurólaður, líklega vegna þess sem nýlega gerðist um borð í vél milli Keflavíkur og Parísar. Svo maður situr bara, prúður og stilltur, getur ekki verið með vökva í neinu magni, getur ekki notað tímann til að snyrta á sér neglurnar, verður að böðlast við að skera kjúkling GordonBleu með plasthnífapörum, og svo verður maður að gjörasvovel að halda í sér þangað til lent er!


Þar sem maður öðlast skilning á samhengi hlutanna...

Fontana di TreviÁ morgun fer ég til Rómar á fund. Róm er æðisleg og ein af uppáhaldsstöðum mínum í heiminum. Þegar maður kemur til Rómar, sérstaklega ef maður hefur ferðast töluvert, þá er eins og það opnist upp fyrir manni samhengi evrópskrar menningar. Það gerist eitthvað þegar maður kemur fyrst til Rómar. Ég hef verið mikið þar undanfarin ár vegna vinnu, og finnst borgin alltaf jafn frábær. Búðirnar eru æði, mannlífið einstakt, umhverfið fallegt og þrungið sögu og ekki skemmir maturinn fyrir! Ég verð sem sagt í sjöréttuðum draumi næstu daga. Arrivaderci!

Of miklar upplýsingar í minningargreinum

Hafið þið lesið minningargrein og fengið á tilfinninguna að það komi fram aðeins of miklar upplýsingar um prívat mál? Ýmsar uppljóstranir um fjölskylduleyndarmál geta komið fram og ævintýralegar frásagnir eru sagðar þegar erfitt er að hemja tilfinningarnar. Undanfarin ár hefur þróunin í minningargreinaskrifum orðið sú, að fólk ávarpar stundum hinn látna eins og verið sé að skrifa viðkomandi persónulegt bréf. Þegar talað er þannig beint við látið fólk hættir tilfinningunum til að flæða óheftar og það koma jafnvel fram álasanir ef fólk er ekki sátt. Þetta er mjög sérstakt. Svo er fólk farið að skrifa minningargreinar um foreldra sína en það tíðkaðist lítið áður, þar sem nálægðin þótti of mikil. Minningargreinar ættu að vera til að mæra hinn látna, gefa ágrip af æviferli, sögu og gjörðum og ættu að vera skrifaðar í annan lið hið minnsta. En samt eru þær oft skemmtilegar og nálgast að vera reyfarakenndar, eins og greinin sem varð kveikjan að þessum hugleiðingum.

Glórulaust rugl

Þetta er nú algjört rugl. Vonandi verður þetta til að flýta fyrir því að "einkaflugvöllurinn" fari úr miðbænum, svo borgin geti þróast eðlilega. Nú er lag að blása lífi í umræðuna, fá tilboð í lagningu hraðlestar til Keflavíkur og spara þannig mannslíf, mengun, bíla og vegaframkvæmdir. Og hvar eru samkeppnissjónarmiðin? Maður verður bara orðlaus!
mbl.is Iceland Express fær ekki inni á Reykjavíkurflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lost eða ekki Lost?

Ný þáttaröð af Lost er að byrja á RÚV en ég get ekki gert upp við mig hvort ég á að byrja að horfa á hana. Ég datt algerlega inní fyrstu þættina og fannst þetta vera nýtt og ferskt efni en svo fannst mér þetta farið að vera til bara til að halda lífi í sjálfu sér og hugmyndir voru endurunnar. Samt fylgdist ég með svona þegar ég var fyrir framan sjónvarpið. Þetta er náttúrulega ruglþáttur, en það er eitthvað sem heldur manni. Ætli það sé ekki óvæntu atvikin, hugmyndaruglið og hryllingurinn... Kannski ég reyni að komast að því hvernig þáttaröðin endar og spari mér tímann.

RAUÐI ipodinn minn

product-redÉg var að fá ipod, eldrauðan að sjálfsögðu og er ægilega ánægð með hann. Er hann ekki flottur? Ég féll alveg gjörsamlega fyrir honum. Ekki skemmir fyrir að þetta er svona rauð sérútgáfa og ákveðin upphæð seldra tækja rennur til rannsókna til góða fyrir þriðja heiminn. Sem gerir mig ekki bara flotta, heldur líka góða manneskju. Annars á Villi vinur min, leikari og snillingur, afmæli í dag 1. febrúar. Til hamingju með afmælið!


Eingöngu karlmenn notaðir sem tilraunadýr?

Ég set spurningamerki við niðurstöður þessarar rannsóknar þar sem ég tel að konur hafi varla verið með í tilrauninni, en það hlýtur að vera nauðsynlegt til að fá rétta mynd af mannskepnuninni. Ef karlar voru þarna í meirihluta var rannsóknafé kastað á glæ þar sem það var fyrirfram viað að þeir geta fæstir gert meira en eitt í einu. Flestir karlmenn sem ég þekki kannast samt við fyrirbærið og kunna að hlæja að þessum líffræðilegu takmörkunum sínum!
mbl.is Flöskuháls kemur í veg fyrir að heilinn vinni tvö verk í einu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Boston á morgun

Á morgun liggur leið mín í stutta ferð til lærdómsborgarinnar Boston þar sem ég mun heimsækja einn af bestu háskólum heims. Mér dettur ekki í hug að ferðast án þess að njóta þess líka, og því mun ég, allan sunnudaginn og milli funda, spranga um Cambridge, rölta um Harvard Square og Newbury Street, og svo er víst skylda að snæða á Legal Seafoods í borginni. Verst að það er svo ferlegakalt þarna núna, það er svona veður eins og var hér um daginn, frost og snjór. Það er bara 66N peysan, úlpa og bomsur í búðirnar. En bókabúðirnar maður, jedúddamía, ég á eftir að gleyma mér! Sleppi bara Leyndardómum Viktoríu í staðinn. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband