Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Hundur í berjamó

RexVið skruppum í heimsókn í sumarbústað á Suðurlandi í gær til vinkonu minnar og fjölskyldu sem þar dvelja, og fannst tilvalið að fá okkur göngutúr og líta eftir berjum. Það þurfti ekki að ganga lengi til að hnjóta um svört krækilyng og ilmandi bláberjalyng. Ber, ber, ber út um allt, svo við lögðumst í mosann (sem er frekar harður eftir þetta þurra sumar!) og hófum tínsluna. Börnin skoppuðu um og tíndu ber, unglingurinn talaði í gemsann með annarri hendinni og tíndi ber með hinni og við vinkonurnar veltum okkur frá einu lyngi til annars, liggjandi í mosanum masandi. Eins og í öðru, vildi lögregluhundurinn Rex (sem ég passa á sumrin) ólmur vera með og hóf að tína ber af mikilli áfergju. Ég hef aldrei áður séð hund í berjamó, tína af lynginu og kjamsa á berjunum, en þetta var mjög fyndin sjón! Svo var haldið í sumarbústaðinn og berin höfð í eftirrétt um kvöldið ásamt ís, rjóma og grilluðum sykurpúðum. Indæll dagur, og góð afsökun til að svíkjast um frá verkefnum og próflestri!


Breytt útilegustemmning

Með breyttum ferðavenjum og fjölbreyttara framboði á alls kyns afþreyingu um allt land hefur útilegu- og ferðamenning landans breyst mikið. Verslunarmannahelgin er ekki endilega mikilvægasta helgi ársins, helgin sem allir bíða eftir með uppsafnaðri spennu allt sumarið, helgin sem síðan stendur e.t.v. ekki undir væntingum þegar upp er staðið. Nú er hægt að sækja bæjarhátíðir og menningarsamkomur um allt land yfir sumarið, og er sú þróun jákvæð. Gistimöguleikar eru líka fleiri en nokkru sinni fyrr og tekið er tillit til allrar fjölskyldunnar í skemmtun og afþreyingu. Þessi þróun hófst e.t.v. fyrir um áratug og það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með henni og taka þátt í að gera Ísland að betra ferðamannalandi fyrir innlenda og erlenda gesti, og best af öllu að fá að njóta þess sem okkar frábæra land hefur upp á að bjóða með fjölskyldu og vinum.


Ostaskeraleitin mikla

imagesEitt af verkefnum sumarsins hefur verið að finna nothæfan ostaskera (ostahníf, ostaskerara) fyrir heimilið þar sem sá gamli góði gufaði upp með dularfullum hætti. Þetta var svona ostaskeri sem maður finnur aðeins einu sinni á lífsleiðinni, þar sem hann skar ost betur en aðrir slíkir. Hann var ekkert sérstaklega fagur, og því hafa verið nokkrir aðrir verið keyptir sem voru kannski flottari, en enginn þeirra hefur leyst grundvallarhlutverkið eins vel af hendi og sá gamli, þ.e. að skera fullkomnar ostsneiðar, án hlykkja, skrykkja eða annarra hnökra í ferlinu. Við höldum að sá gamli hljóti að hafa hafnað í ruslinu ásamt afgögnum af diskum, þar sem engin önnur skýring finnst á hvarfinu. Kannski maður þurfi að leita til Noregs, en ostaskerinn eins og við þekkjum hann er norsk uppfinning. Leit stendur yfir af verðugum arftaka...

Túttublómin eru komin!

Þegar ég var lítil - á áttunda áratugnum, þá gáfum við blómunum nafn eftir eiginleikum þeirra og hvernig við kynntumst þeim. Þess vegna heita baldursbrár líka túttublóm og biðukollur fíflanna blásublóm.  Hvönnin var músablóm, því í gamla Vesturbænum földu mýsnar sig í rótum hvannarinnar. Svo var það lakkrísblómið, sem ég hef nýlega lært að heitir Spánarkerfill, og flugublóm, sem ég man aldrei hvað heitir réttu nafni, en það var með belg fyrir neðan blómið sem flugur skriðu inn í. Peningablóm eða ástarblóm var arfi með hjartalaga lauf og lúpínan var sykurblóm, svo ekki sé minnst á breiðustu grasstráin sem voru að sjálfsögðu ýlustrá. 


Sumarleg frétt á sumarsólstöðum

solGirnilegasta, sumarlegasta fréttin í sjónvarpinu í dag var af krökkum fyrir austan að stökkva ofan í Eyvindará í sólinni. Mig langar þangað, að stökkva ofan í ána, að vera í sólinni... mig langar út í sumarið! Það er allt fallegt við þennan dag, og ég hvet alla til að draga ekki fyrir sólina í nótt heldur hafa gardínur opnar og njóta ósvikinnar íslenskrar sumarnætur.


Kaupa, kaupa, kaupa! - ætli H&M viti af þessu tækifæri?!

Ef eitthvað er til sölu, þá kaupa Íslendingar það! Þetta er vitað mál og þess vegna er fyrirtækjum óhætt að senda hingað umframlagera af öllum andskotanum, allt selst. Saumavélar verða náttúrulega allir að eiga, sérstaklega ef grunur leikur á að þær gætu verið þúsundkallinum ódýrari en alla jafna. Alveg sama þótt maður eigi saumavél, það væri glapræði að kaupa hana ekki og tapa af þessum gróða! Þetta er hugsunarhátturinn hér á landi, og ég skil ekki því í ósköpunum H&M hefur ekki fattað að senda hingað ruslið sitt. Það myndi rjúka út eins og heitar lummur. 
mbl.is Saumavélar streyma út í Kringlunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MR endurfundir

Á laugardaginn héldum við upp á útskrift okkar MR-inga 1987 á Nordica (Hilton), með tilheyrandi bekkjarpartýjum og endurfundum. Það var ferlega gaman, góð mæting og allir einhvern veginn afslappaðri með sig sjálfa heldur en á 10 ára afmælinu. Fólk er flest komið á nokkuð góðan stað í lífinu, stelpurnar í mínum bekk eiga heilu barnahópana og nokkrir með maka nr. 2. Okkur fannst við náttúrulega ekkert hafa breyst nema örfáir, og mesta furða hvað strákarnir eru sætir ennþá - jafnvel sætari en þeir voru með sítt að aftan og eyeliner í partýjum "in ðe eitís"! 

Úti að aka

Auðvitað er það ekki aðalmálið að vera með símann í hendinni, ég meina fólk hefur alltaf verið að gera fullt annað við stýrið en að keyra. T.d. ef maður er með börn í bílnum þarf oft að nota hendur í að rétta þeim eitthvað eða jafnvel aðskilja systkini í slagsmálum í aftursæti. Nú svo er algengt að sinna snyrtingu, varalitun eða tannaplokkun, fyrir utan það að örugglega um 90% ökumanna bora í nefið við stýrið - þótt það sé aðallega gert á rauðu ljósi. Það er fleira gert á rauðu ljósi, ég á vinkonu sem kynntist manninum sínum við þær aðstæður, þannig að fólk er líka í því að daðra milli bíla. Svo er náttúrulega gott að nota tímann og gleypa í sig skyndibitann og totta gosflösku eins og er algengt. Fólk hefur alltaf hlustað á tónlist og sungið af innlifun við stýrið, og eitthvað er orðið um að bílstjórar setji sjónvarp í bílinn, við hliðína á síma- og ipod tengingum. Margir eru farnir að hlusta á hljóðbækur, sem geta vakið ýmsar tilfinningar við stýrið, og þá er ótalinn fjöldi þeirra sem býður fleirum með sér í bílinn til að tala saman. Þá eru þær samræður væntanlega jafnhættulegar og símablaður, eða hvað?
mbl.is Handfrjáls búnaður eða ekki, samræðurnar skipta mestu máli við aksturinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MR1987 reunion

Það líður að tuttugu ára útskriftarafmælinu, og að því tilefni er búið að opna bloggsíðu. Myndirnar eru stórkostlegar! Herðapúðarnir, greiðslurnar, hair-mistið... Partýið verður 2. júní, þá er bara að grafa upp jakkann með herðapúðunum, bretta upp fyrir olnboga og skella sér í stuðið!

Bubbi heppinn!

Það er nú sveimér gott að Bubbi litli skyldi fá byssuleyfi við 10 mánaða aldurinn. Ekki seinna vænna að byrja að kenna ungum Bandaríkjamönnum að leika sér með skotvopn um það leyti! En Bubbi litli þarf að geyma byssuna sína heima hjá afa þangað til hann hefur náð 14 ára aldri, en þá telja foreldrarnir að hann geti farið að skjóta soldið svona á umhverfið. Hversu sick getur bandarískt þjóðfélag orðið?!
mbl.is Tíu mánaða gamalt barn fær byssuleyfi í Illinois
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband