Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Bloggvinum boðið í eins árs afmæli

Ekkert hefur verið bloggað hér um Eurovision og kosningar. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að gera það núna og þess vegna ákvað ég að nota tækifærið og óska sjálfri mér til hamingju með að hafa haldið úti Fararstjóranum (moi) í eitt ár, en fyrsta blogg síðunnar var einmitt um Eurovision í fyrra. Síðan þá hef ég skrifað um hitt og þetta, tjáð mig um fréttir og dægurmál, pælt í bloggi annarra og síðast en ekki síst eignast bloggvini, hverra síður ég les reglulega. Af því tilefni er öllum bloggvinum boðið að fagna okkur sjálfum, og óska ég okkur öllum farsællar skrifræpu um ókomna framtíð, á besta blogginu í bænum, Moggablogginu! Og pælið í því, að þegar ég skrifaði fyrstu færsluna, höfðu rétt um 10.000 færslur verið skráðar, núna eru þær komnar á þriðja hundrað þúsund og í raun ótrúlegt hve margt frábært fólk hefur ákveðið að ganga í þetta skemmtilega samfélag á netinu.

Hættulegur leikur

Í hvert sinn sem við keyrum upp í hesthús til að fara í reiðtúr um Mosfellsdalinn, fáum við hland fyrir hjartað ef við sjáum fólk á torfæruhjólum. Við erum reyndar með trausta og góða hesta, en sprengihljóðin í torfæruhjólunum kljúfa oft kyrrðina og geta fælt pollrólega hesta þannig að gífurleg slysahætta skapast. Það verður einfaldlega að finna hjólagaurum aðra staði en reiðvegi, því slys á hestbaki verða oftast þegar hestar fælast af svipuðum ástæðum og þessum.


mbl.is Knöpum þungt í skapi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munið þið eftir kasettunum?

Ég man hve merkilegt mér fannst að eignast kasettutæki með hljóðnema, en það var notað til að taka upp endalaust blaður og vitleysu sem svo var spilað aftur og aftur. Rosalega fannst okkur vinkonunum á Framnesveginum við vera fyndnar!
Ég man eftir að hafa safnað kasettum og tekið yfir þær aftur og aftur.
Ég man eftir að hafa keypt sérstaka kasettugrind í skápinn minn, til að geta raðað kasetttunum í.
Ég man eftir að hafa stillt kasettutækinu upp fyrir framan útvarpið, gjarna við Kanaútvarpið eða Lög unga fólksins, og heimtað grafarþögn þegar lög voru tekin upp.
Ég man eftir að hafa sent kasettur milli landa í stað bréfa, með blaðri og slúðri.
Ég man eftir að hafa smyglað kasettutækinu inn í Háskólabíó í rauðu íþróttatöskunni minni (sem var keypt í Sport á Laugavegi 13 og merkt búðinni) og tekið upp heilar bíómyndir, eins og t.d. Grease.
Ég man eftir þegar kasettur flæktust í tækinu og maður þurfti að losa bandið ofurvarlega til að slíta það ekki.
Ég man þegar tækninni fleygði fram, þá blandaði ég tónlist á kasettur og skírði þær nöfnum eins og "Rólegt", "Stuð" eða "Blandað", á svipaðan hátt og maður býr til spilunarlista á ipod í dag.
Ég man eftir hreinsispólunum sem maður keyrði í gegnum kasettutækið með vissu millibili.
Ég man þegar myndbandsspólurnar bættust við - hvenær ætli þeirra tími líði undir lok?!
mbl.is Dagar hljóðsnældunnar taldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orgasmic!

Þvílíkt hugmyndaflug! Þvílík dýrð og fegurð! Þvílík veisla fyrir skynfærin! Já, ég fór enn einu sinni með góðum hópi á Sjávarkjallarann í gærkvöldi, en við höfðum pantað Exotic menu fyrir alla. Hugmyndaflugi kokkanna á Sjávarkjallaranum virðast engin takmörk sett, því nýir réttir bætast við matseðilinn reglulega, fiskur, skelfiskur, villibráð... og samsetningin slær öllum listaverkum við. Hvar annars staðar nýtur maður matarins með öllum skilningarvitum? Fyrirgefið enskuslettuna, en ég kvika ekki frá lýsingunni sem ég gef útlendingum stundum af staðnum: ORGASMIC!

Amma sem rokkar!

Það er töggur í þessari, algjörlega kona að mínu skapi. Hugsið ykkur hvað háskólanámið hefur gefið þessari öldruðu konu mikla lífsfyllingu, enda er margt annað hægt að gera en setjast við hannyrðir í ellinni. Ég verð nákvæmlega svona, eilífðarstúdentinn sjálfur, og stefni að því að útskrifast með einhverja gráðu um leið og barnabörnin!
mbl.is Útskrifast úr háskóla 95 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær verður nóg komið af byggingum?

Það er ekkert lát á byggingaframkvæmdum. Íbúðir, atvinnuhúsnæði og skrifstofuhúsnæði af öllum stærðum og gerðum, turnar spretta og virðast allir vera í keppni við Hallgrím blessaðan! Það hlýtur að koma að því að við fáum öll okkar einkaíbúð og getum öll rekið nokkur fyrirtæki um allt land. Spurning hvort við herðum okkur ekki í innflutningi fólks og reynum að draga huldufólkið út úr klettunum svo við getum fyllt alla kassana af kjöti? Á meðan úthverfin fyllast af byggingum og vegirnir breikka og batna til að fólk komist hratt og örugglega í svefnbæina, er eins og ekkert vitrænt megi gera fyrir hjarta borgarinnar. Þar var allt púður lagt í að gera hraðbraut í gegnum miðbæinn til að drepa örugglega niður von um manneskjulegan miðbæ í kringum garð og tjörn. Ljós punktur er þó Tónlistarhúsið sem mun án efa efla miðbæinn.

Byggjum upp torgastemmningu

Þegar uppbygging hefst á reitnum þar sem brann í miðbænum, sérstaklega þegar Karnabæjarhúsið verður rifið, gefst tækifæri til að opna á fallega bakgarða og byggja upp torgamenningu sem hvarf með tengingu húsa í raðir einhvern tíma á síðustu öld. Garðurinn á bakvið Hressó, Jómfrúnna og Borgina er frábært svæði, og svo mætti gera eitthvað manneskjulegt við Lækjartorg, Ingólfstorg og Fógetagarðinn. Svo ætti auðvitað að opna Lækinn og byggja fallegar brýr yfir hann og leggja áherslu á mannbætandi þjónustu. Þetta er í raun gamli "rúnturinn" í hnotskurn, eða svæðið sem afmarkast af Hafnarstræti, Lækjargötu, Skólabrú, Kirskjustræti og Aðalstræti. Svona torgastemmning með tengileiðum, skemmtilegum kaffihúsum og menningarstarfsemi er ríkjandi í öllum borgum og bæjum Evrópu, því ekki líka í Reykjavík?

Furðufugl í Mosfellsdalnum

Við mæðgur fórum í reiðtúr í dag, sem ekki er í frásögur færandi, en það er svo gaman að fylgjast með Mosfellsdalnum fyllast af fuglum þegar fer að vora og þar er t.d. oft hægt að sjá mikinn fjölda lóa við undirbúning hreiðurgerðar. Í dag sáum við undarlegan fugl, sem minnti helst á afríska fugla sem við höfum séð í dýragörðum. Hann var búkstór, á stærð við önd, en með mjóan háls og langan og mjóan gogg, og langt og þunnt stél. Það væri gaman að vita hvaða fugl þetta var og hvaðan hann kom. Þasð hafa löngum fundist furðufuglar í Mosfellsdalnum, eins og má t.d. lesa um í Innansveitarkróníku Laxness!

Getur Bláa Lónið annað fjöldanum?

Páskarnir hafa að mestu farið í letilíf og vellíðan hjá fjölskyldunni, við duttum í púsl, þið vitið þetta sem er "öfugt" þannig að maður sér ekki myndina heldur á að púsla það sem fólkið á myndinni á kassanum sér. Þetta er mjög skemmtilegt og verðugt verkefnið fyrir okkur öll! Byrjaði páskana samt á að vera mjög aktív og fór í reiðtúr á miðvikudag og á skírdag og var með matargesti föstudaginn langa í humarsúpu, laugardag í lambalæri og páskadag í hangikjöti. Á föstudaginn langa brugðum við okkur svo í Bláa Lónið í sólinni. Þar standa yfir framkvæmdir þannig að aðstaðan er vægast sagt hræðilegt. Svo koma páskar, ferðamenn farnir að tínast til landsins, en Íslendingar líka fjölmennir í Lóninu vegna frísins og góða veðursins. Fjöldinn og aðstöðuleysið kemur því miður niður á upplifuninni, þótt maður geti að mestu slappað af úti í Lóninu sjálfu. Að öðru leyti er þetta eins og að vera á járnbrautastöð á annatíma. Ekki gott. Samt pössuðum við að vera ekki á þeim tíma sem transit farþegarnir eru hvað fjölmennastir, því það er hræðilegt. En nóg um það í bili. Vonandi verður framkvæmdum hraðað þannig að þjónustan verði komin í samt lag fyrir sumarið.

Íslandsmet!

Til hamingju Ragga! Áfram Ísland, - áfram KR!!

mbl.is Ragnheiður setti Íslandsmet en Jakob Jóhann dæmdur úr leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband