Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Að sofa saman

Sofa samanHvers vegna sefur fólk saman? Hrotur maka kosta hinn aðilan jafnvel tveggja ára svefnleysi og eflaust má rekja ýmis önnur óþægindi til þess að hjón sofa í sama rúmi alla ævi. Á Spáni og í fleiri löndum (þar sem getnaðarvarnir hafa ekki alltaf verið aðgengilegar) þykir sjálfsagt að hjón sofi í tveimur rúmum, þótt þau séu reyndar í sama herbergi. Í Evrópu fyrri tíma voru hjón með sitt hvort herbergið og snyrtiherbergi, þannig að þau áttu sitt prívat. Það var ekki nema þau ætluðu að nota rúmin til annars en að sofa, að þau skriðu undir sömu sæng, en fóru svo í sitt hvort rúmið til að sofa og líklega til að fá svefnfrið. Væri þetta ekki meira spennandi?
mbl.is Hrotur maka kosta mikinn svefn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími (væri) til kominn!

Ef Hillary yrði næsti forseti Bandaríkjanna lofa ég að endurskoða afstöðu mína gagnvart bandarískum hugsunarhætti, en þótt ég sé að eðlisfari bjartsýn á ég erfitt með að sjá þetta gerast. Það eru einfaldega svo margir fundamentalistar í Bandaríkjunum, sem aðhyllast undarlega þjóðfélagshætti sem endurspeglast í hinu týpíska miðvesturríkja millistéttarsamfélagi. Ég ætla ekki nánar út í þá sálma, en svo sannarlega er kominn tími fyrir leiðtoga eins og Hilary í Bandaríkjunum.
mbl.is Hillary Clinton vill brjótast upp úr glerþakinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þroskasaga kirkjunnar

Kirkjan og þróun trúmála eru mér hugleikin efni um þessar mundir, annars vegar vegna þess að þetta er annar veturinn sem ég sæki kirkju reglulega þar sem ég er að ferma afkvæmin, og hins vegar vegna þess að ég held að allir sem hafa áhuga á alþjóðastjórnmálum hljóti að fylgjast með trúmálum á alþjóðavettvangi, þar sem þau eru oft afsakanir fyrir stríðum og glæpum.
Hugmyndir um að sameina kirkjudeildir kristinnar kirkju eru ákaflega áhugaverðar að mínu mati, sérstaklega þar sem það myndi vera merki um ákveðinn þroska og gagnkvæman skilning kristins samfélags. Mér finnst líka áhugaverðar kenningar þess efnis að siðbót í ætt við þá sem M.Lúter stóð fyrir í kristinni kirkju, hafi enn ekki átt sér stað í trúarsamfélagi múslíma, og því vanti upp á ákveðinn þroska þess samfélags sem notar gjarna trú sem skálkaskjól fyrir rangtúlkanir og samfélagslega glæpi á borð við ofsóknir. Ef við skoðum trúna í tímalegu samhengi, þá ætti kannski að fara að koma að slíkri umbreytingu, þótt hún virðist reyndar ekki vera í sjónmáli!
Kirkjuhefðir á Íslandi hafa líka þroskast mikið undanfarin ár og get ég altént hrósað prestum í Nesirkju fyrir að hafa leitt kirkjuna inn í nútímann án allrar helgislepju. Þar er talað um dægurmál, mannleg samskipti skoðuð, boðið upp á tónleika, börnin látin njóta sín og svo er hlegið hjartanlega og klappað. Halelúja!

Bleik hafmeyja tilvalið PR tæki

Enginn veit hver eða hvers vegna Hafmeyjan var máluð bleik, og til að kveða niður raddir um hryðjuverk eða fordóma, ættu borgaryfirvöld að eigna sér glæpinn og segja að þetta sé til að vera með í baráttu gegn brjóstakrabbameini. Sniðugt PR múv, ekki satt?!
mbl.is Litla hafmeyjan máluð bleik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sælueyja án karla

Þetta er áhugavert framtak hjá Írönum. Ef konur geta hvergi verið í friði og verða sífellt að lúta reglum karla, hvers vegna þá ekki að útbúa stað þar sem engir karlar eru?! Maður ímyndar sér að það felist ákveðið frelsi í að losna undan drottnurunum, sem í mörgum samfélögum eru slíkir í krafti líkamsútlitslegs munar. (Þetta hefur nú verið get áður, samkvæmt sögunni, á eyjunni Lesbos undan strönd Grikklands, en það er önnur saga!) Íranir eru ekki svo galnir. Þeir hafa svarað Vesturlöndum því til, að ef þau krefjist þess að þeir hætti auðgun úrans til þróunar kjarnorku, þá ættu Vesturlönd að gera það líka. Hvers vegna ekki? Væri ekki nær að eyða fjármunum í að þróa aðra orkugjafa? Það myndi leysa nokkur vandamál á einu bretti, skal ég segja ykkur.
mbl.is Aðeins fyrir konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of miklar upplýsingar í minningargreinum

Hafið þið lesið minningargrein og fengið á tilfinninguna að það komi fram aðeins of miklar upplýsingar um prívat mál? Ýmsar uppljóstranir um fjölskylduleyndarmál geta komið fram og ævintýralegar frásagnir eru sagðar þegar erfitt er að hemja tilfinningarnar. Undanfarin ár hefur þróunin í minningargreinaskrifum orðið sú, að fólk ávarpar stundum hinn látna eins og verið sé að skrifa viðkomandi persónulegt bréf. Þegar talað er þannig beint við látið fólk hættir tilfinningunum til að flæða óheftar og það koma jafnvel fram álasanir ef fólk er ekki sátt. Þetta er mjög sérstakt. Svo er fólk farið að skrifa minningargreinar um foreldra sína en það tíðkaðist lítið áður, þar sem nálægðin þótti of mikil. Minningargreinar ættu að vera til að mæra hinn látna, gefa ágrip af æviferli, sögu og gjörðum og ættu að vera skrifaðar í annan lið hið minnsta. En samt eru þær oft skemmtilegar og nálgast að vera reyfarakenndar, eins og greinin sem varð kveikjan að þessum hugleiðingum.

RAUÐI ipodinn minn

product-redÉg var að fá ipod, eldrauðan að sjálfsögðu og er ægilega ánægð með hann. Er hann ekki flottur? Ég féll alveg gjörsamlega fyrir honum. Ekki skemmir fyrir að þetta er svona rauð sérútgáfa og ákveðin upphæð seldra tækja rennur til rannsókna til góða fyrir þriðja heiminn. Sem gerir mig ekki bara flotta, heldur líka góða manneskju. Annars á Villi vinur min, leikari og snillingur, afmæli í dag 1. febrúar. Til hamingju með afmælið!


Börn sem söluvara?

Með frestun barneigna og aukinni ófrjósemi í hinum vestræna heimi er skiljanlegt að eftirspurn eftir börnum til ættleiðingar aukist. Að sjálfsögðu er það hið besta mál að börn sem fæðast í slæmum aðstæðum komist til fólks sem getur veitt því gott líf. Það sem ég óttast hins vegar mest þegar fréttir berast af mikilli "eftirspurn" eftir börnum til ættleiðingar, er að óprúttnir aðilar kunni að nýta sér neyð fólks og ræna börnum til að græða pening. Ég held nefnilega að það sé algengara en margur heldur.


mbl.is Aukin eftirspurn eftir börnum til ættleiðingar á alþjóðavettvangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur við stjórnvölinn á alþjóðavettvangi

Það hlýtur að vera sérstakt fyrir ráðamenn í Sádí Arabíu að fá sendinefnd, sem eingöngu er skipuð konum, í opinbera heimsókn frá öðru landi. Frá okkar bæjardyrum séð kemur það flott út að konur í valdastöðum í þjóðríki heimsæki land, þar sem möguleikar kvenna eru raunverulega afskaplega litlir þótt annað sé látið í veðri vaka, og sýni að í okkar landi séu konum allir vegir færir. Hins vegar væri gaman að vera fluga á vegg og heyra sjónarmið móttökuaðilanna, og hvað þeim finnst í raun og veru. Í þeirra menningu hlýtur það að virðast undarlegt að konur séu sendar einar til útlanda til að hafa orð fyrir þjóð sinni. Taka þeir mark á því sem þær hafa fram að færa? Kannski er þetta tómt kurteisishjal? Haldið þið að við getum breytt einhverju í djúpstæðri menningu Sádí Arabíu?
mbl.is Ræddu málefni kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Girnilegt hjónabandsheit

Sveimér þá ef ég myndi ekki gifta mig undir þessum formerkjum! Skikka kallinn bara til að gefa mér kött. Ég verð nú að játa að ég hef ekki kynnt mér nægilega vel út á hvað kenningar Vísindakirkjunnar ganga, þótt margir álitlegir menn í Hollywood hafi gengist undir hennar kennisetningar. En ef ég fengi bæði John Travolta og kött, þá held ég að ég myndi ekki hika við að skrá mig sem Vísindakirkjukonu!


mbl.is Cruise hvattur til að gefa Holmes kött
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband