Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Um höfuðslæður múslima og sexý nærföt

Muslim womanFjöldi innflytjenda af arabískum uppruna hefur aukist í Brussel undanfarið, en ég tók sérstaklega eftir því núna þar sem það er frekar langt síðan ég var hér síðast. Á leið frá lestarstöðinni á hótelið gekk ég eftir götu sem heitir Rue Brabant, en þar eru margar verslanir í eigu múslímskra innflytjenda. Verslanirnar selja vefnaðarvöru og heimilisvöru og er þeim mörgum stýrt af konum, sem eru þá oftast klæddar á vestrænan máta, en með slæðu um höfuðið. Viðskiptavinirnir í verslunum á Rue Brabant eru líka aðallega konur, glæsilegar og fallega málaðar en með slæðu yfir hárinu. Í búðargluggum var víða stillt út höfuðgínum með fallegar, vandaðar slæður í öllum litum og mynstrum, en í sumum gluggum var stillt út svaka sexý nærfatnaði við hliðina á slæðunum.

red lingerieÍ einum glugganum voru t.d. rauðar efnislitlar brækur með glitrandi palíettum og rauður brjóstahaldari ásamt slæðum tilað hylja hárið. Þetta virkar tvíbent, mér fannst þetta mjög sérstakt og langaði mest að taka mynd af besta búðarglugganum, til menningarlegra rannsókna. Eru múslimakonur í sexý fötum undir kuflum og slæðum?  Eru þetta vestræn áhrif? Er þetta kannski hluti af menningunni? Hvers vegna er haldið í þann sið að hylja hárið ef manneskjan er síðan klædd á vestrænan máta, í gallapilsi og kafmáluð? Er þetta það sem koma skal, eftir því sem menningarheimarnir blandast?


Íslandsmet!

Til hamingju Ragga! Áfram Ísland, - áfram KR!!

mbl.is Ragnheiður setti Íslandsmet en Jakob Jóhann dæmdur úr leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beint flug til Brussel

Mannekin PisÍ hvert sinn sem ég fer til Brussel velti ég fyrir mér hvers vegna Icelandair flýgur ekki beint til höfuðborgar Evrópusambandsins. Maður fer eldsnemma af stað og þarf að skipta um vél t.d. í Kaupmannahöfn og kemur á áfangastað seinnipartinn eða að kvöldi. Þannig fer heill dagur í ferðalag. En það fynda er, að stór hluti þeirra sem leggja af stað frá Íslandi að morgni eru einmitt á leið til Brussel og verða manni samferða alla leið. Sífellt fleiri eiga erindi þangað, hvort sem er úr stjórnsýslunni, frá menntageiranum eða fyrirtækjum. Það er flogið beint til Amsterdam, og einnig fer fragtvél daglega til Brussel. Hvers vegna er ekki sett upp áætlunarflug til borgarinnar, a.m.k. þrisvar í viku til reynslu? Kannski fattar Iceland Express þetta á undan? Ég er viss um að flug til Brussel myndi borga sig.

Tiplað á línu lögleysis og siðleysis

SmáblómUm leið og Spaugstofumenn hófu upp raust sína og sungu texta um álver og álvæðingu, vissi maður hvað var að gerast. Þeir njóta þess að tipla á tánum á línu þess sem telst löglegt og / eða siðlaust, sbr. páskaþáttinn um árið, sem mér fannst reyndar mjög fyndinn. Þetta er náttúrulega spurning um viðkvæmni og virðingu og hve mikið af hvoru við viljum hafa í heiðri. Mér fannst þjóðsöngsgrínið ekkert mjög smekklegt, en þá er hægt að spyrja: er hægt að banna fólki að syngja sinn eigin texta við þekkt lög? hvað um það þegar landslið Íslands í íþróttum syngja bandvitlausan texta við lagið? en þegar erlendar lúðrasveitir nauðga laginu sjálfu svo það er vart þekkjanlegt, t.d. á alþjóðlegum íþróttaviðburðum? hve viðkvæm ætlum við að vera, t.d. í samanburði við Breta, en í þeirra gríni er allt leyfilegt? Ég verð reyndar að játa að mín fyrsta hugsun á laugardagskvöldið var að blogga um þetta, -talandi um að vilja vera fyrstur með fréttirnar!


mbl.is Spaugstofumenn brutu lög um þjóðsönginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TaB, TaB Cola, for beautiful people!

TaBÞað er kannski að bera í bakkafullan lækinn að blogga enn einu sinni um markaðssetningu gosdrykkja hér, en þar sem ég var ein af þeim sem hélt framleiðslunni  á TaB uppi á sínum tíma á Íslandi fann ég mig knúna til þess. Ég flutti mig síðan yfir í Diet Coke þegar ég bjó á Spáni og erfitt var að fá TaB, auk þess sem það var bragðverra þar. Man einhver eftir sjónvarpsauglýsingunni sem gekk 1982-1983, þegar sykurlausir gosdrykkir voru að ryðja sér til rúms? Lagið var svona: “Tab, Tab Cola, what a wonderful dream (eða drink?!), Tab, Tab Cola for beautiful people!, la,la,la...!"


mbl.is TaB af markaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MSN tákn rata inn í sérnöfn

Kynslóð, sem elst upp við notkun tákna til tjáningar yfir tölvuskjá, hlýtur að þykja eðlilegt að táknin séu hluti af tungumálinu. Það var einmitt þetta sem vakti athygli mina í fréttinni, að <3 sé hluti af nafni hljómsveitarinnar, en það er velþekkt tákn í msn samskiptum. Þetta er áhugavert, en hins vegar þykir mér miður skemmtileg sú tilhneiging að nota upphafsstafi í samsettum heitum, þar sem það er rangt í íslenskum rithætti, sbr. Soðin Skinka. (átsj, hvað það er vont að sjá þetta!)


mbl.is Soðin skinka og <3 Svanhvít! komust áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kúkakaffi

Nú verður maður að fara í Te & kaffi og smakka kaffið sem allir tala um - kúkakaffið. Hreysikettir í Indónesíu velja sér bestu kaffifræin af plöntunum, sem eru ákkúrat á réttum tíma í vexti, og éta þau. Baunin sjálf meltist ekki, svo þeir skila af sér einstakri baun sem fer náttúrulega leið í gegnum hreysiköttinn og er síðan tínd og brennd. Kaffið úr þessum baunum á að vera eitthvað alverlega sérstakt. Bollin kostar 600 krónur og ágóðinn rennur til langveikra barna. Ef þetta er ekki lífrænt ræktað, þá veit ég ekki hvað!


Sameinum úthverfin Reykjavík

Heyrst hefur að borgaryfirvöld telji nauðsynlegt að fjölga íbúum Reykjavíkur en ég veit ekki alveg hvort ég sé sammála því að í því liggi helsti byggðavandi þjóðarinnar, en gott og vel. Hvernig væri þá að viðurkenna vöxt höfuðborgarsvæðisins með því að innleiða fyrrum bæi og nú úthverfi, eins og Kópavog, Garðabæ, Seltjarnarnes og Álftanes, og viðurkenna þau sem hluta af Reykjavík? Hugsið ykkur hve mikið mætti spara og hagræða með einni borgarstjórn, einu stjórnkerfi í stað margra! Þetta hefur verið gert víða um land þar sem bæir eru meira að segja í töluverðri fjarlægð hver frá öðrum, með góðum árangri. Þá fengjum við kannski heildstæða borg í stað safns svefnbæja sem hafa hvorki miðbæ, líf né karakter, í kringum borgina okkar. Ég auglýsi eftir umræðu um þetta mál.
mbl.is Nauðsynlegt að fjölga borgarbúum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttum grunnskólann en ekki framhaldsskólann

Nýjungar í menntakerfinu hafa oft komið frá grasrótinni og þróast síðan út í kerfið, eins og nú sýnir sig í tilraunum framhaldsskólanna til að taka inn nema beint úr 9. bekk. Stjórnvöld byrjuðu eiginlega á vitlausum enda þegar þau komu fram með tillögur til styttingar á framhaldsskólanum, svo íslenskir nemar kæmust fyrr í háskóla og út í atvinnulífið. Tímanum í framhaldsskóla er alls ekki illa varið og árin þar eru skemmtileg og félagslega mikilvæg. Það er frekar að tímanum sé sóað á fyrstu árum grunnskólans, þegar börn fá ekki að glíma við verkefni sem höfða nægilega til þeirra sem vitsmunavera. Ef farið er í hinn endann og grunnskólinn endurskilgreindur og tengdur vetur við framhaldsskólann, þá gætu ungmenni hafið nám í framhaldsskóla ekki seinna en 15 ára, og yrðu komin í háskólanám 18-19 ára.

Framfarir en ekki samfarir

Þetta var líklega þarfasta frumvarpið sem samþykkt var á þessu þingi sem var að ljúka og mikið framfararstökk hjá þjóð þar sem kynferðisafbrot virðast því miður talin léttvæg. Hvað varðar hitt, þá hefði viljað sjá lágmarkssamræðisaldurinn hækkaðan í 16 ár, en fagna samt að hann sé ekki lengur 14. Eða eins og unglingarnir segja: "ég er orðin lögríða, þótt ég sé ekki orðin lögráða!" Ég tek ofan fyrir Ágústi Ólafi, þingmanninum og frænda mínum, enda er maðurinn snillingur.
mbl.is Fyrningarfrestur á kynferðisafbrotum gegn börnum afnuminn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband