Bloggfærslur mánaðarins, júní 2006

Heiti skipta máli

ESB
Oft þarf bara einn Finna til að koma með hugmynd. Auðvitað myndu aðildalönd ESB taka drögum að stjórnarskrá sambandsins betur ef plaggið yrði kallað eitthvað annað. "Stjórnarskrá" hljómar meira eins og pjúra yfirþjóðleg stjórn, á meðan að hægt væri að sættast á að milliríkjasamkomulag yrði um plagg sem héti eitthvað aðeins vægara. Ég hlakka til að kynna mér betur stefnu Finna þegar þeir taka við forsæti í Evrópusambandinu. Kippis!
mbl.is Finnar vilja að stjórnarskrá ESB verði kölluð eitthvað annað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundar eða voffar með réttu orðalagi

c_documents_and_settings_vidskiptavinur_ejs_my_documents_alla_my_pictures_cocker_spaniel.jpg
Loksins sagði einhver eitthvað af viti! Þetta orðalag í núgildandi samþykkt um hundahald (eða ó-hundahald) er til háborinnar skammar fyrir bæ sem vill vera heimsborg. Það eru sjálfsögð mannréttindi að geta sótt um að halda hund á þeim forsendum að það sé í lagi, en ekki að það þurfi að sækja um undanþágu og líða eins og glæpamanni alla hundsævina. Löngu er sannað að þunglyndi og leiðindi eru vaxandi vandamál hjá einmana borgarbúum, og að hundur er besta andlega og líkamlega lausnin sem til er. Í dag geta allir fundið hund við hæfi, og ætti að vera skylda að hafa hund t.d. í þjónustuíbúðum og sambýlum aldraðra.
mbl.is Banni við hundahaldi verði aflétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KR-ingar, krefjist heimaleikja!

Í ljósi nýlegrar fréttar um að betra gengi íþróttaliða á heimavelli kunni að mega rekja til aukins testósterónflæðis leikmanna og frumhvatar þeirra til að verja yfirráðasvæði sitt, leiðir mig bara til einnar niðurstöðu: Ekki fleiri útileiki fyrir KR í sumar! (Allavega ekki eftir Grindavík.) Það verður líka enn skemmtilegra fyrir okkur stelpurnar að mæta á heimavöllinn og fíla þetta brjálaða hormónaflæði þarna niðri á grasinu, yes, yes, yes!!

Gott tengslanet og krassandi sögur

Maður getur ekki annað en heimsótt Orðið á götunni til að sækja fréttir um það sem er efst á baugi. Þetta er snilldarsíða, og er eiginlega nýja uppáhaldsbloggsíðan mín eftir að ég kom að utan. Höfundar hafa greinilega yfir að ráða tenglum inn á flest svið þjóðmála, og dansa á þessari línu sem sumir blaðamenn kunna, en verða að passa sig að fara ekki yfir. Það er galdurinn.

Hjólum allsber í Reykjavík

Ég mæli með að Reykvíkingar verði með á næsta ári, og sé fyrir mér að við gætum trekkt að ferðamenn sem sæju það sem ögrun að hjóla naktir í kuldanum! Hópurinn gæti farið allan göngustíginn, vestan úr bæ og endað í Elliðaárdalnum med grilli og alls konar skemmtilegheitum! Olíufélögin gætu t.d. kostað grillveislu, bjór og skemmtiatriði. Er þetta ekki rakið dæmi fyrir nýjan borgarstjóra til að hressa upp á ímyndina?
mbl.is Bensíneyðslu mótmælt á hinum alþjóðlega Hjólaðu nakinn degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumalandið, loksins!

Ég notaði tækifærið á meðan ég er í þessu hálf-fríi og byrjaði á Draumalandinu. Mig hefur klæjað í lófa og heila að lesa hana frá því hún kom út, því mér finnast svona bækur svo skemmtilegar, sem tala til fólks á vitsmunalegan hátt. Andri Snær, til hamingju með að þora að skrifa svona bók, þú ert snillingur! Það er ekki mikið um það í doða neyslusamfélagsins að einhver nenni að skrifa svona texta, en meira var um slík skrif áður fyrr sem höfðuðu til almennings, t.d. greina -og ritgerðasöfn, enda vitnar Andri Snær til slíkra rita í bókinni. Draumalandið gerir ráð fyrir að fólk hugsi á gagnrýninn hátt og dragi ályktanir, þótt orðræðunni sé að sjálfsögðu ætlað að selja ákveðna hugmyndafræði. Bókin heldur mér algerlega fanginni, og er ég ánægð að hafa tækifæri til að lesa hana loksins. Ég vil að allir lesi hana, annars kem ég í heimsókn og les upp úr henni fyrir ykkur! En geri það kannski þegar ég er komin heim frá Draumalandinu mínu þar sem ég er núna - Spáni!

Hjólatúrar og önnur afrek á Lanzarote

Á sunnudag var KR-ingum gefið frí frá morgunsundæfingu, en í staðinn skipulögðum við hjólatúr. Farið var í gegnum fiskimannaþorpið La Santa og upp að bænum Tinajo, sem er um 7 km. hér upp af ströndinni. Það var mjög erfitt að hjóla upp á við í 26 gráðu hita, en frábært að rúlla nánast í frjálsu falli heim á leið! Daginn áður hafði ég hjólað til bæjarins Famara, en þangað átti að vera örstutt leið, kannski um 6-8 km. Kom svo í ljós að það var þrisvar sinnum það, en þrjóskan náði tökum á mér, og hjólaði ég báðar leiðir, alein! Ég verð nú samt að viðurkenna, að það hvarflaði að mér að semja við einhvern innfæddan að skutla mér til baka! Báða þessa hjóladaga, fórum við fararstjórarnir líka í einn aerobictíma á dag, -reyndar annan daginn fórum við í geggjaðan tíma sem heitir "stretch and relax", enda veitti ekki af. Daginn eftir þetta allt, ákvað ég að vera í sólarstraffi og hélt mig við lestur og inniveru. Byrjaði loksins á Draumalandi Andra Snæs, og er algerlega hugfanginn af þeirri bók.

Heilsulíf á Lanzarote

Club la Santa
Landslagið á Lanzarote er ekki svo ólíkt því íslenska. Hraun, lágvaxinn gróður og svartur sandur. Sunddeild KR er hér í æfingabúðum í tvær vikur, alls 37 manns á norðurströnd eyjarinnar, við bæinn La Santa. Aðstaðan hér á Club la Santa ýtir öll undir heilsusamlegt líferni. Innifalið í hótelinu er ótakmarkaður aðgangur að líkamsrækt, aerobic, jóga, teygjum, spinning, boltaleikjum og boltavöllum af öllum tegundum, hjólum af öllum stærðum og gerðum, -að ógleymdum sundlaugunum! Hér er 50 m keppnislaug og að auki stórglæsileg garðlaug fyrir gesti. Heitir pottar, vatnsmeðferð, gufubað, nudd... Maturinn er svakalega góður, maður hesthúsar heil ósköp af þvílíkt fjölbreyttum mat, að það hálfa væri nóg! Biðjum að heilsa öllum heima, kíkid á okkur í webcam sem finna má á heimasídu Club la Santa!

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband