Færsluflokkur: Spil og leikir

Munið þið eftir kasettunum?

Ég man hve merkilegt mér fannst að eignast kasettutæki með hljóðnema, en það var notað til að taka upp endalaust blaður og vitleysu sem svo var spilað aftur og aftur. Rosalega fannst okkur vinkonunum á Framnesveginum við vera fyndnar!
Ég man eftir að hafa safnað kasettum og tekið yfir þær aftur og aftur.
Ég man eftir að hafa keypt sérstaka kasettugrind í skápinn minn, til að geta raðað kasetttunum í.
Ég man eftir að hafa stillt kasettutækinu upp fyrir framan útvarpið, gjarna við Kanaútvarpið eða Lög unga fólksins, og heimtað grafarþögn þegar lög voru tekin upp.
Ég man eftir að hafa sent kasettur milli landa í stað bréfa, með blaðri og slúðri.
Ég man eftir að hafa smyglað kasettutækinu inn í Háskólabíó í rauðu íþróttatöskunni minni (sem var keypt í Sport á Laugavegi 13 og merkt búðinni) og tekið upp heilar bíómyndir, eins og t.d. Grease.
Ég man eftir þegar kasettur flæktust í tækinu og maður þurfti að losa bandið ofurvarlega til að slíta það ekki.
Ég man þegar tækninni fleygði fram, þá blandaði ég tónlist á kasettur og skírði þær nöfnum eins og "Rólegt", "Stuð" eða "Blandað", á svipaðan hátt og maður býr til spilunarlista á ipod í dag.
Ég man eftir hreinsispólunum sem maður keyrði í gegnum kasettutækið með vissu millibili.
Ég man þegar myndbandsspólurnar bættust við - hvenær ætli þeirra tími líði undir lok?!
mbl.is Dagar hljóðsnældunnar taldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grannar og graðar

Þessi hópur vísindamanna sem vinnur að því að þróa pillu til að örva kynhvöt kvenna um leið og hún dregur úr matarlyst þeirra, samanstendur væntanlega af karlmönnum, sem skemmta sér vonandi konunglega. Er það ekki draumur allra karlmanna að hafa konur grannar og graðar? Kannski spurning hvort vísindamenn ættu ekki að nota tímann í að þróa aðferðir til að koma í veg fyrir eða lækna hættulega sjúkdóma, t.d. brjóstakrabbamein. Allt spurning um forgangsröðun...


mbl.is Vonir bundnar við pillu sem örvar kynhvötina og dregur úr matarlyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Amma sem rokkar!

Það er töggur í þessari, algjörlega kona að mínu skapi. Hugsið ykkur hvað háskólanámið hefur gefið þessari öldruðu konu mikla lífsfyllingu, enda er margt annað hægt að gera en setjast við hannyrðir í ellinni. Ég verð nákvæmlega svona, eilífðarstúdentinn sjálfur, og stefni að því að útskrifast með einhverja gráðu um leið og barnabörnin!
mbl.is Útskrifast úr háskóla 95 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgað fyrir lífsreynslusögur - líka á Íslandi?

Þrátt fyrir bann við því að bresku hermennirnir sem voru í haldi Írana selji fjölmiðlum sögu sína, er svo kristaltært í mínum huga að það bann má sín lítils gegn ofurkrafti fjölmiðla og skemmtanabransans. Hvort sem það verður í spjallþætti, þar sem þeir segja krassandi sögur eða nota sjónvarp sem áfallahjálp og gráta úr sér augun, eða í formi nýrrar spennumyndar, þá mun sagan verða sögð. Og fjölmiðlar munu borga fyrir hana. Þannig gerast kaupin á Eyrinni. Þetta er líka orðið þekkt hér á landi, þótt hitt sé sem betur fer enn normið. Svo er það líka algengt hér að fólk borgi fjölmiðlunum fyrir að taka viðtal við það, og þykir eðlilegt sem PR þjónusta.
mbl.is Breska varnarmálaráðuneytið bannar hermönnum að selja sögur sínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háðsleg uppástunga

Þetta er kaldhæðin uppástunga hjá prófessornum, en það er ekki laust við að manni renni kalt vatn milli skinns og hörunds þegar lýsingin er lesin. Þetta hljómar helst eins og upplag í krassandi tölvuleik, og við skulum vona að enginn raunveruleikafirrtur valdamaður taki hugmyndina alvarlega!?
mbl.is Nær að sprengja Ísland en Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslandsmet!

Til hamingju Ragga! Áfram Ísland, - áfram KR!!

mbl.is Ragnheiður setti Íslandsmet en Jakob Jóhann dæmdur úr leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttum grunnskólann en ekki framhaldsskólann

Nýjungar í menntakerfinu hafa oft komið frá grasrótinni og þróast síðan út í kerfið, eins og nú sýnir sig í tilraunum framhaldsskólanna til að taka inn nema beint úr 9. bekk. Stjórnvöld byrjuðu eiginlega á vitlausum enda þegar þau komu fram með tillögur til styttingar á framhaldsskólanum, svo íslenskir nemar kæmust fyrr í háskóla og út í atvinnulífið. Tímanum í framhaldsskóla er alls ekki illa varið og árin þar eru skemmtileg og félagslega mikilvæg. Það er frekar að tímanum sé sóað á fyrstu árum grunnskólans, þegar börn fá ekki að glíma við verkefni sem höfða nægilega til þeirra sem vitsmunavera. Ef farið er í hinn endann og grunnskólinn endurskilgreindur og tengdur vetur við framhaldsskólann, þá gætu ungmenni hafið nám í framhaldsskóla ekki seinna en 15 ára, og yrðu komin í háskólanám 18-19 ára.

Undarleg sjálfspíningarhvöt

Fyndið að lesa umræðu um Vista stýrikerfið og þurfa að heyra að tölvur "krassi" hjá vinum sínum eða að fólk eyði heilu og hálfu dögunum í vírusskann, en ég heyrði um þetta bæði í dag. Hvað er þetta eiginlega? Er fólk yfirleitt að nota PC vélar ennþá?!? Það er undarlegt í ljósi þess að: 1. þær virka aldrei eins og maður vill og stýrikerfið sem þær flestar keyra á er gallagripur frá upphafi og 2. það hafa verið til betri vélar í 20 ár sem byggja á þeirri hugmyndafræði að tölvur eigi ekki að vera með vesen, heldur bara að virka fyrir mann. Þær heita Apple Macintosh. Eignist líf, losið ykkur við vandamálin, hættið að pína ykkur, frelsist!

Skoppandi líkamspartar og spiktutlur

Þetta gæti orðið grafískt og líka ákaflega vandræðalegt. Ímyndið ykkur hressilegan tröpputíma. Spinning með hraðri tónlist. Brjóst af öllum stærðum og gerðum að hristast í allar áttir, teygð og toguð. Pungar skutlast upp og niður, svitastorknir og klepraðir. Fitukeppir og spiktutlur fá alla athyglina. Nei, þá vil ég heldur þurfa að gangast undir tískuna í líkamsræktarsalnum. Ég verð að játa að ég sé ekkert eftirsóknarvert við nakið fólk saman í líkamsrækt. Kannski er ég bara svona púkó?
mbl.is Mikill áhugi á líkamsrækt fyrir nakta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höldum okkur við ímyndina um svala töffara

Wham! Bam! I am! A man! Job or no job, you can't tell me that I'm not! Do you enjoy what you do?! If not, just stop, don't stay there and rot! Þennan texta sungu þeir félagar í Wham þegar þeir voru ungir og vildu helst firra sig allri ábyrgð í lífinu, töluðu á móti því að festa sig í einhverri leiðindavinnu og sitja uppi með krakka og kerlingu. Síðan þá hefur George gengið í gegnum ýmislegt misjafnt en Andrew flutti á sveitabæ með konu sinni (sem söng bakraddir með Wham) og hóf búskap og virtist sáttur og frekar rólegur með lífið. Ég veit satt að segja ekki hvort það sé góð hugmynd að þeir reyni að koma saman aftur. Mér finnst bara svaka gott að muna þá í hvítum bolum með blacklight-væna fylgihluti í skærum litum, hoppandi og skoppandi um sviðið, eða sólbrúna á vindsæng í Club Tropicana, dreypandi á kokkteilum. Það geta ekki allir átt comeback, þótt Duran Duran hafi risið úr stónni eins og fuglinn Fönix.
mbl.is Tvíeykið Wham að undirbúa hljómplötu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband