Færsluflokkur: Matur og drykkur

Hundur í berjamó

RexVið skruppum í heimsókn í sumarbústað á Suðurlandi í gær til vinkonu minnar og fjölskyldu sem þar dvelja, og fannst tilvalið að fá okkur göngutúr og líta eftir berjum. Það þurfti ekki að ganga lengi til að hnjóta um svört krækilyng og ilmandi bláberjalyng. Ber, ber, ber út um allt, svo við lögðumst í mosann (sem er frekar harður eftir þetta þurra sumar!) og hófum tínsluna. Börnin skoppuðu um og tíndu ber, unglingurinn talaði í gemsann með annarri hendinni og tíndi ber með hinni og við vinkonurnar veltum okkur frá einu lyngi til annars, liggjandi í mosanum masandi. Eins og í öðru, vildi lögregluhundurinn Rex (sem ég passa á sumrin) ólmur vera með og hóf að tína ber af mikilli áfergju. Ég hef aldrei áður séð hund í berjamó, tína af lynginu og kjamsa á berjunum, en þetta var mjög fyndin sjón! Svo var haldið í sumarbústaðinn og berin höfð í eftirrétt um kvöldið ásamt ís, rjóma og grilluðum sykurpúðum. Indæll dagur, og góð afsökun til að svíkjast um frá verkefnum og próflestri!


Ostaskeraleitin mikla

imagesEitt af verkefnum sumarsins hefur verið að finna nothæfan ostaskera (ostahníf, ostaskerara) fyrir heimilið þar sem sá gamli góði gufaði upp með dularfullum hætti. Þetta var svona ostaskeri sem maður finnur aðeins einu sinni á lífsleiðinni, þar sem hann skar ost betur en aðrir slíkir. Hann var ekkert sérstaklega fagur, og því hafa verið nokkrir aðrir verið keyptir sem voru kannski flottari, en enginn þeirra hefur leyst grundvallarhlutverkið eins vel af hendi og sá gamli, þ.e. að skera fullkomnar ostsneiðar, án hlykkja, skrykkja eða annarra hnökra í ferlinu. Við höldum að sá gamli hljóti að hafa hafnað í ruslinu ásamt afgögnum af diskum, þar sem engin önnur skýring finnst á hvarfinu. Kannski maður þurfi að leita til Noregs, en ostaskerinn eins og við þekkjum hann er norsk uppfinning. Leit stendur yfir af verðugum arftaka...

Tækifæri fyrir ferðaskrifstofur að auglýsa

Mér líst ekki  illa þessa hugmynd, og bendi á bloggsíðu Fararstjórans sem ákaflega vænlegan miðil fyrir ferðaskrifstofur. Ég gæti þá látið fljóta með skemmtisögur af sólarströnd þegar ég tók þar á móti hundruðum Íslendinga, eða gæti sagt frá bestu hótelum og veitingastöðunum á mismunandi ferðamannastöðum...!
mbl.is Auglýsingar á vinsælar bloggsíður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf gaman á Akureyri

AkureyriVar að koma frá Akureyri, þar sem ég var á fundi um menntun í ferðaþjónustu, með hóp af kláru og skemmtilegu fólki. Hvað er þetta með Akureyri? Það er alltaf gott veður þar! Eftir langa fundarsetu í gær dreif ég mig í laugina, sem er sveimér þá sú best hannaða á landinu. Ef Vesturbærinn sykki í hafið, þá gæti ég alveg ímyndað mér að búa á Akureyri. Ég fer þangað næst síðustu vikuna í júní, þegar AMÍ sundmótið fer fram. (Aldursflokkameistaramót Íslands) Mig vantar enn stað til að gista á, ef þið vitið um íbúð sem hægt er að leigja í tæpa viku, látið mig vita!

Óður til sauðkindarinnar

Kindur Í Bændablaðinu er snilldarljóðabálkur sem heitir "Óður til sauðkindarinnar", sem er sagður eftir Þorfinn nokkurn Jónsson. Í blaðinu kemur fram að lesendur hafi lagt hart að blaðinu að birta ljóðið á ný eftir langan tíma. Þótt í þetta sinn hafi Bændablaðið orðið á vegi mínum á Akureyrarflugvelli, þá má geta þess fyrir áhugasama höfuðborgarbúa, að blaðið liggur jafnan frammi ókeypis á kassanum á Melabúðinni - nema hvað. Þetta er semsagt í 9. tbl. Bændablaðsins frá 15. maí 2007. Rafræn útgáfa hér.
Þetta er gargandi snilld og mikið eigum við blessaðri kindinni að þakka!


Frétt eða auglýsing?

Gott mál, það er kominn tími til að hressa upp á vöruval í þeim verslunum sem leggja áherslu á lágt verð. Ég á frekar erfitt með þessar verslanir, ég legg svo svakalega mikið upp úr þjónustunni og vil frekar faraí Melabúðina, þar sem ég fæ allt sem mig vantar og dett ekki í nein magninnkaup. Það þarf að vera þægilegt að versla, ekki gerir maður það að gamni sínu. Mér finnst framsetning fréttarinnar hins vegar vera á mörkum þess að vera auglýsing en ekki frétt...
mbl.is Ný kynslóð lágvöruverðsverslana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grannar og graðar

Þessi hópur vísindamanna sem vinnur að því að þróa pillu til að örva kynhvöt kvenna um leið og hún dregur úr matarlyst þeirra, samanstendur væntanlega af karlmönnum, sem skemmta sér vonandi konunglega. Er það ekki draumur allra karlmanna að hafa konur grannar og graðar? Kannski spurning hvort vísindamenn ættu ekki að nota tímann í að þróa aðferðir til að koma í veg fyrir eða lækna hættulega sjúkdóma, t.d. brjóstakrabbamein. Allt spurning um forgangsröðun...


mbl.is Vonir bundnar við pillu sem örvar kynhvötina og dregur úr matarlyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orgasmic!

Þvílíkt hugmyndaflug! Þvílík dýrð og fegurð! Þvílík veisla fyrir skynfærin! Já, ég fór enn einu sinni með góðum hópi á Sjávarkjallarann í gærkvöldi, en við höfðum pantað Exotic menu fyrir alla. Hugmyndaflugi kokkanna á Sjávarkjallaranum virðast engin takmörk sett, því nýir réttir bætast við matseðilinn reglulega, fiskur, skelfiskur, villibráð... og samsetningin slær öllum listaverkum við. Hvar annars staðar nýtur maður matarins með öllum skilningarvitum? Fyrirgefið enskuslettuna, en ég kvika ekki frá lýsingunni sem ég gef útlendingum stundum af staðnum: ORGASMIC!

Markaðsbrella ársins

Hverju finnur fólk ekki upp á! Það hlýtur að vera mjög spennandi að fylgjast með þroska þessa merkilega osts. Maður getur rétt ímyndað sér lyktina! En í alvöru, þetta er snilld. Ég tilnefni bændurna þarna í Suður-Englandi til markaðsverðlauna ársins.


mbl.is Ostur orðinn internetstjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byggjum upp torgastemmningu

Þegar uppbygging hefst á reitnum þar sem brann í miðbænum, sérstaklega þegar Karnabæjarhúsið verður rifið, gefst tækifæri til að opna á fallega bakgarða og byggja upp torgamenningu sem hvarf með tengingu húsa í raðir einhvern tíma á síðustu öld. Garðurinn á bakvið Hressó, Jómfrúnna og Borgina er frábært svæði, og svo mætti gera eitthvað manneskjulegt við Lækjartorg, Ingólfstorg og Fógetagarðinn. Svo ætti auðvitað að opna Lækinn og byggja fallegar brýr yfir hann og leggja áherslu á mannbætandi þjónustu. Þetta er í raun gamli "rúnturinn" í hnotskurn, eða svæðið sem afmarkast af Hafnarstræti, Lækjargötu, Skólabrú, Kirskjustræti og Aðalstræti. Svona torgastemmning með tengileiðum, skemmtilegum kaffihúsum og menningarstarfsemi er ríkjandi í öllum borgum og bæjum Evrópu, því ekki líka í Reykjavík?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband