Færsluflokkur: Kvikmyndir

Borgað fyrir lífsreynslusögur - líka á Íslandi?

Þrátt fyrir bann við því að bresku hermennirnir sem voru í haldi Írana selji fjölmiðlum sögu sína, er svo kristaltært í mínum huga að það bann má sín lítils gegn ofurkrafti fjölmiðla og skemmtanabransans. Hvort sem það verður í spjallþætti, þar sem þeir segja krassandi sögur eða nota sjónvarp sem áfallahjálp og gráta úr sér augun, eða í formi nýrrar spennumyndar, þá mun sagan verða sögð. Og fjölmiðlar munu borga fyrir hana. Þannig gerast kaupin á Eyrinni. Þetta er líka orðið þekkt hér á landi, þótt hitt sé sem betur fer enn normið. Svo er það líka algengt hér að fólk borgi fjölmiðlunum fyrir að taka viðtal við það, og þykir eðlilegt sem PR þjónusta.
mbl.is Breska varnarmálaráðuneytið bannar hermönnum að selja sögur sínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háðsleg uppástunga

Þetta er kaldhæðin uppástunga hjá prófessornum, en það er ekki laust við að manni renni kalt vatn milli skinns og hörunds þegar lýsingin er lesin. Þetta hljómar helst eins og upplag í krassandi tölvuleik, og við skulum vona að enginn raunveruleikafirrtur valdamaður taki hugmyndina alvarlega!?
mbl.is Nær að sprengja Ísland en Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími (væri) til kominn!

Ef Hillary yrði næsti forseti Bandaríkjanna lofa ég að endurskoða afstöðu mína gagnvart bandarískum hugsunarhætti, en þótt ég sé að eðlisfari bjartsýn á ég erfitt með að sjá þetta gerast. Það eru einfaldega svo margir fundamentalistar í Bandaríkjunum, sem aðhyllast undarlega þjóðfélagshætti sem endurspeglast í hinu týpíska miðvesturríkja millistéttarsamfélagi. Ég ætla ekki nánar út í þá sálma, en svo sannarlega er kominn tími fyrir leiðtoga eins og Hilary í Bandaríkjunum.
mbl.is Hillary Clinton vill brjótast upp úr glerþakinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ó, herra Darcy!

Darcy and ElizabethPride and Prejudice er snilld. Einföld saga sem gengur þvert á rómantískar hugmyndir í mannkynnssögunni og á alltaf við. Höfundur leggur aðaláherslu á persónulýsingar og samskipti og skapar þannig ógleymanlega karaktera. Sagan er sennilega mest kvikmynduð allra skáldsagna, fyrir utan hve margir hafa stolið söguþræðinum og stælt söguna á allan hátt, eins og höfundur Bridget Jones gerði svo snilldarlega. Besta aðlögun sögunnar er án efa sjónvarpsþættir BBC með Jennifer Elhe í hlutverki Elizabeth Bennet og Colin Firth (andvarp!) sem hinn hrokafulla sjarmör Mr. Darcy...
mbl.is Hroki og hleypidómar uppáhaldsbók breskra lesenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nautasæði í hárið

Ég rak augun í texta framan á Bændablaðinu, sem liggur alltaf frammi á kassanum í Melabúðinni, um kosti nautasæðis sem hárnæringar. Þar er fullyrt að sæðið gefi gljáa og næringu og geri hárið líflegt og fallegt. Þetta er afskaplega forvitnilegt, þótt ég vilji nú frekar halda áfram að vera með hálmkennt strý frekar en brúka þennan gæðavökva. MaryMaður sér fyrir sér ákveðið vandamál ef æði grípur um sig og eftirspurnin verður mikil. En það góða er að það verður gaman hjá nautunum ef þær aðferðir eru notaðar við að ná glundrinu sem ímyndunarafl mitt segir til um. Vonandi gefst það betur en sullið úr öðru spendýri, sem Cameron Díaz notaði óvænt í stað hárgels í snilldarmyndinni "There is Something About Mary", það var snilldar atriði, en oj, ég held ég haldi mig við kemískar hárvörur!

Gamaldags gaur

Brad kallinn á greinilega erfitt með að sætta sig við að konur hafa önnur viðhorf en hann var alinn upp við, því Jennifer hárfyrirmynd níunda áratugarins vildi ekki eiga fullt af börnum eins og hann, og nú vill Angelina stútulína góðgerðarprinsessa ekki rjúka upp að altarinu. Í stað þess að játast undir ný viðhorf, þá fer hann í tómt tjón greyið. Of þrjóskur, eins og er nú reyndin með marga góða drengi, hóst, hóst...


mbl.is Samband Jolie og Pitt sagt í vanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Látum viðfangsefnið ekki flækjast fyrir okkur

Ég ætlaði ekki að tjá mig um klámþingið margumrædda, en get ekki orða bundist. Ég fer fremst í flokki þeirra sem vilja veg Íslands sem ferðamannalands og fýsilegs staðar til ráðstefnu- og fundarhalda sem mestan og tel hæpið að stjórnvöld eða aðrir geti valið viðfangsefni viðburða sem hér eru haldnir. Hér er um að ræða hóp sem hefur lifibrauð af ákveðnum iðnaði. Auðvitað getur ýmislegt vafasamt tengst þessum iðnaði sem öðrum. Eigum við að banna læknaþing af því sumir læknar í heiminum útvega fíklum lyf? Við höfum tekið með virktum á móti ráðamönnum ríkja þar sem mannréttindi eru fótum troðin, bjóðum stórfyrirtæki sem styrkir vopnaframleiðslu að setja á fót starfsemi hér, seljum fatnað fyrirtækja sem þykir sannað að hafi börn í þrælavinnu, og svo mætti áfram telja. Viðkomandi aðilar hafa valið okkar land til að hittast, þau leigja sér dýr hótelherbergi, ráðstefnusali og samgöngutæki og greiða fáránlegt verð fyrir mat og drykk til að koma hingað. Í þessum stóra hópi er meirihlutinn eflaust frekar venjulegt fólk, sem jafnvel gæti komið hingað síðar með fjölskyldu sína eða vinnufélaga og kynnt fallegt land og góðar móttökur víða. Tekjur og gott orðspor er okkur til framdráttar en forræðishyggjan til vansa.

Lost eða ekki Lost?

Ný þáttaröð af Lost er að byrja á RÚV en ég get ekki gert upp við mig hvort ég á að byrja að horfa á hana. Ég datt algerlega inní fyrstu þættina og fannst þetta vera nýtt og ferskt efni en svo fannst mér þetta farið að vera til bara til að halda lífi í sjálfu sér og hugmyndir voru endurunnar. Samt fylgdist ég með svona þegar ég var fyrir framan sjónvarpið. Þetta er náttúrulega ruglþáttur, en það er eitthvað sem heldur manni. Ætli það sé ekki óvæntu atvikin, hugmyndaruglið og hryllingurinn... Kannski ég reyni að komast að því hvernig þáttaröðin endar og spari mér tímann.

Skemmtun fyrir konur, börn og homma - hvað kemur rigning þessu við?

Í Blaðinu í dag er ágætis kvikmyndasíða sem ég las upp til agna, sérstaklega greinina um söngvamyndir sem sagðar eru gerðar fyrir ofangreinda hópa. Svo er listi yfir vinsælustu titillög nokkra dans- og söngvamynda, en fjögur af tíu titillögum fjalla um rigningu!

Ég elska dans og söngvamyndir -og er stolt af því, og held mest upp á tvö tímabil. Fyrst eru það gullaldarár MGM kvikmyndaversins í kringum 1950 þegar sjarmörinn Gene Kelly, dramaunglingurinn Judy Garland, stríðnispúkinn Mickey Rooney, sunddrotningin Esther Williams og dansandi parið Fred og Ginger voru upp á sitt besta. Síðara tímabilið eru svo the "roving eighties". Nostalgían grípur mig og diskótakturinn hríslast um mig alla þegar ég hugsa um Flashdance, Grease, Footloose, Saturday Night Fever, Breakdance, Beat Street og Fame. Ég á það meira að segja til að bresta í söng við ýmis tækifæri, stökkva upp á bíla og húsgögn og tjá mig með dillandi diskó eða steppi og taka nokkra létta tóna. Ef þið hafið ekki séð mig, þá eigið þið mikið eftir! En það var þetta dularfulla rigningarmál. Vinsælustu titillög söngvamynda eru samkvæmt Blaðinu:

1. Singin' in the Rain úr úr samnefndri mynd
2. America úr West Side Story
3. Over the Rainbow úr Wizard of Oz
4. The Sound of Music úr samnefndri mynd
5. Tomorrow úr Annie
6. Supercalifragilisticexpialidocious úr Mary Poppins
7. The Rain in Spain úr My Fair Lady
8. Don't Rain on my Parade úr Funny Girl
9. You're The One That I Want úr Grease
10. Roxanne úr Moulin Rouge


Svíar og húmor = mótsögn!

Ég rakst á dagskrárlið á RÚV í kvöld sem lýst var sem "sænskum gamanþætti" og þurfti að hugsa um það heillengi. Felst ekki ákveðin mótsögn í þessu? Geta Svíar gert gamanþætti? Þetta varð ég að sjá! Fordómar mínir reyndust því miður fullkomlega á rökum reistir og vel það. Húmor og Svíar fara ekki saman. Jafnvel í "gamanþáttum" velta þeir sér upp úr vandamálum! Ykkur er velkomið að reyna að snúa þessari skoðun minni, en það þarf að vera með mjög sterkum rökum!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband