Færsluflokkur: Ferðalög

Síríuslengjan bjargar ferðinni

Það verður nú að segjast, að það er ekki alltaf þægilegt að ferðast á almennu farrými í þröngum flugvélum fullum af farþegum í misjöfnu veðri og oftast á ókristilegum tímum eins og ég hef gert nokkrum sinnum í haust. Það er ekki einu sinni hægt að taka upp Makkann og nota tímann til að vinna, svo lítið er plássið og olnbogarýmið. EN mitt í öllum óþægindunum, þá bíð ég í ofvæni eftir bjargvættinum: SÍRÍUSLENGJUNNI sem nú fylgir næstum alltaf með matnum um borð. Algjör snilld. Meira af þessu Icelandair! En ég veit ekki hvað ég geri ef ég sé köldu skinkuna einu sinni enn, sem fluffurnar fegra með því að kalla "hamborgarhrygg"! Þá vil ég heldur fá átta Síríuslengjur, kók og kaffi.

Öryggisráðstafanir í flugvélum: eitt í dag og annað á morgun

Um daginn var ég á leið til Brussel sem oft áður. Eins og hlýðinn þegn, setti ég allar hreinlætisvörur í vökvaformi í plastpoka, til að þurfa ekki að verða fyrir þeirri niðurlægingu að láta einhvern kall róta í snyrtibuddunni minni, eins og kom fyrir þegar ég var ekki búin að venjast vökvahræðslunni. Samt lendi ég alltaf í því að morgunkaffið mitt (1/2 l. dæet kók) er gert upptækt við öryggishliðið. Ég geri samt alveg í því að sturta í mig dreggjunum úr flöskunni og tollverðir bíða þolinmóðir á meðan ég innbyrði mögulegan sprengivökvann. En semsagt, þar sem ég sat í seinni vélinni frá Köben til Brussel, tók konan við hliðina á mér upp prjónana og sat allan tímann og bætti vel í peysuna sem hún var með á prjónunum! Já, nú þegar öllum er orðið sama um naglaþjalir og ofuráhersla lögð á að gera snyrtipinnum erfitt að ferðast með því að taka af þeim allar hreinlætisvörur, þá fer fólk bara um borð með prjóna eins og ekkert sé! Það er ekkert samræmi í þessu og það eina sem hefur gerst er að fólki er gert eins erfitt og leiðinlegt og mögulegt er að ferðast. Samt hefur fólk aldrei ferðast meira.

Heimilislausir hnjóskóttir hestar

DSC09996Hvað gerir maður þegar hesturinn manns er allt í einu heimilislaus? Tekur hann heim í Vesturbæinn og býr um hann í bílskúrnum? Við erum semsagt að missa hesthúsaplássið í Mosfellsdalnum og sáum fram á að taka hestana inn um áramótin á nýjan stað. En vegna veðurfarsins í haust eru hestarnir okkar allir í holdhnjóskum og því þarf að taka þá inn 6-8 vikum fyrr en vanalega, eða um síðustu helgi í stað áramótanna. En ég er ekki enn búin að tryggja pláss! Þabbaraþa, nú liggja Danir í því!

Af Rómverjum, englum og djöflum

Roma, Fontana di TreviFjölskyldan brá sér til Rómar í vetrarfríi barnanna, enda kjörið tækifæri til að kynna þeim vöggu evrópskrar menningar um leið og kíkt er í búðir og borðaður góður matur. Róm er ein af mínum uppáhaldsborgum í Evrópu og þreytist ég seint á að detta um sögu, menningu og fegurð við hvert götuhorn. Svo á ég frábæran vin í Róm, hann Tito, sem finnst ekki tiltökumál að hitta fólk og leiða það um götur og veitingastaði borgarinnar. Í þetta sinn kenndi hann dætrunum allt um pizzur og pasta og útskýrði að ekki má setja hvaða sósu sem er á hvaða pasta sem er! Að áeggjan Titos keypti ég bók Dan Browns, Engla og djöfla, sem einmitt gerist í Róm og las hana í næstu flugferðum mínum. Hún er hræðilega spennandi og mun betri en da Vinci lykillinn, ég mæli með henni. Að öðru leyti gengum við okkur til óbóta í Róm, versluðum pínu, borðuðum mikinn og góðan mat og drukkum í okkur menningu og sögu. Tito leysti mig svo út, eins og venjulega, með heimalöguðu Limoncello, namm, namm!

Visakort eða dvalarleyfi?

Alltaf gaman að skemmtilegum þýðingum, eins og í sjónvarpsþætti nú í kvöld, þegar söguhetjurnar komu að vegatálma vörðuðum hermönnum í Rússlandi, og hann sagði: "there is a roadblock ahead, and my visa has expired" sem var snilldarlega þýtt: "vegartálmi framundan og kortið mitt er útrunnið"! Skenntlegt!

Attsjúúú!!!


Hundur í berjamó

RexVið skruppum í heimsókn í sumarbústað á Suðurlandi í gær til vinkonu minnar og fjölskyldu sem þar dvelja, og fannst tilvalið að fá okkur göngutúr og líta eftir berjum. Það þurfti ekki að ganga lengi til að hnjóta um svört krækilyng og ilmandi bláberjalyng. Ber, ber, ber út um allt, svo við lögðumst í mosann (sem er frekar harður eftir þetta þurra sumar!) og hófum tínsluna. Börnin skoppuðu um og tíndu ber, unglingurinn talaði í gemsann með annarri hendinni og tíndi ber með hinni og við vinkonurnar veltum okkur frá einu lyngi til annars, liggjandi í mosanum masandi. Eins og í öðru, vildi lögregluhundurinn Rex (sem ég passa á sumrin) ólmur vera með og hóf að tína ber af mikilli áfergju. Ég hef aldrei áður séð hund í berjamó, tína af lynginu og kjamsa á berjunum, en þetta var mjög fyndin sjón! Svo var haldið í sumarbústaðinn og berin höfð í eftirrétt um kvöldið ásamt ís, rjóma og grilluðum sykurpúðum. Indæll dagur, og góð afsökun til að svíkjast um frá verkefnum og próflestri!


Íslenskir hestar erlendis

Ég var að horfa á samantekt frá heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem nú fer fram í Hollandi. Íslenski hesturinn er örugglega ein besta landkynningin okkar og frábært hve vel hefur gengið að kynna hann erlendis. En ég get ekki að því gert, að í hvert sinn sem ég horfi á íslenska hesta sem hafa verið fluttir út vegna keppni eða hafa verið seldir, þá er það tvennt sem vekur hjá mér ónotatilfinningu. Annars vegar hugsa ég alltaf hve heitt hestunum hlýtur að vera í ókunnu loftslagi, og hins vegar finn ég til sorgar yfir þeirri staðreynd að þegar hestarnir eru komnir út, eiga þeir aldrei afturkvæmt heim hvort sem eigendum þeirra líkar vetur eða verr. 

Breytt útilegustemmning

Með breyttum ferðavenjum og fjölbreyttara framboði á alls kyns afþreyingu um allt land hefur útilegu- og ferðamenning landans breyst mikið. Verslunarmannahelgin er ekki endilega mikilvægasta helgi ársins, helgin sem allir bíða eftir með uppsafnaðri spennu allt sumarið, helgin sem síðan stendur e.t.v. ekki undir væntingum þegar upp er staðið. Nú er hægt að sækja bæjarhátíðir og menningarsamkomur um allt land yfir sumarið, og er sú þróun jákvæð. Gistimöguleikar eru líka fleiri en nokkru sinni fyrr og tekið er tillit til allrar fjölskyldunnar í skemmtun og afþreyingu. Þessi þróun hófst e.t.v. fyrir um áratug og það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með henni og taka þátt í að gera Ísland að betra ferðamannalandi fyrir innlenda og erlenda gesti, og best af öllu að fá að njóta þess sem okkar frábæra land hefur upp á að bjóða með fjölskyldu og vinum.


Mannlegur aldingarður

Dreif mig í fríinu að lesa Aldingarðinn, smásagnasafn Ólafs Jóhanns Ólafssonar sem kom út um síðustu jól. Þetta eru frábærlega vel gerðar sögur af venjulegu fólki sem á það sameiginlegt að ástin og tíminn hafa á einhvern hátt haft áhrif á líf þess. Sögurnar eru fljótlesnar og hreyfa við manni. Mæli með henni sem sumarlesningu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband