Færsluflokkur: Dægurmál

Merkilegt ár, 2006!

Árið sem er að líða var merkilegt, það gerðist margt og margt mun leiða af því sem gerðist. Ég sjálf, trygglynd og trú sem íslenskur smalahundur, skipti formlega um starf um áramótin og hlakka til að takast á við ný verkefni. Hvað áramótaheit varðar, þá langar mig að verða skipulagðari á allan hátt á nýju ári. 2007 verður tímamótaár hjá mér og bara spennandi, það er á hreinu! Gleðilegt ár allir!

Þungbærar áhyggjur

Greyið Victoria, það lítur út fyrir að áhyggjur hennar af gallabuxum séu raunverulegar og skipti miklu máli í hennar daglega lífi. Þetta er greinilega spursmál um líf eða dauða. Pælið í því hvað grey fræga fólkið þarf að ganga í gegnum, annað en við hin! Hlýtur að vera ömurlegt líf, ég er blessunarlega laus við þessar áhyggjur af gallabuxum og prísa mig sæla með lífið.
mbl.is Viktoría Beckham óttast að gallabuxur verði sinn bani
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugur styrkir sig á prentmiðlamarkaði

Breytt fyrirkomulag og eignaraðild á DV þýðir einfaldlega að Baugur er að styrkja sig á tímarita- og blaðamarkaði. Félag í eigu Baugs, sem á stærsta hlutann í "nýju" DV, gefur út tímarit eins og Veggfóður, Ísafold og líka Hér og nú. Hinir aðaleigendurnir eru 365 og svo ritstjórinn og sonur hans. Áhugaverð flétta. Félagið er smám saman að koma upp tímaritum í sama stíl og gamli Fróði gaf út. Lífsstíls- matar- slúður- og hús/híbýlablað, og svo má búast við breskum áhrifum í fréttamennsku DV.
mbl.is Útgáfufélag í eigu Baugs og 365 tekur við útgáfu DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í göngutúr með ruslið

Ég hef verið að reyna að bæta mig í að fara með fernur, pappaílát og blöð í endurvinnsluna og hefur orðið vel ágengt síðan gámarnir komu hingað í hverfið. Um daginn höfðu safnast saman pappaílát í kassa og blöð í poka, og ákvað ég að taka það með mér þar sem ég var á leiðinni út í búð og skila því í gáminn. Þetta var um það leyti dags sem fólk er að koma úr vinnu og fara í búðir og margt fólk á ferli á Hofsvallagötunni. En það átti ekkert að líta illa út að vera úti að ganga með ruslið undir hendinni, því ég stefndi á gáminn. Þangað til ég komst að því að gámurinn var FARINN! Þá var ekkert um neitt annað að ræða en snúa við og fara í Melabúðina með ruslið í poka, eins og ég hefði skroppið með það í skemmtigöngu. Mjög lekkert. Hvert eru gámarnir farnir? Vilji minn til að safna fernum og öðru slíku er eiginlega gufaður upp og nágrannarnir halda að ég sé klikkuð. Og ég hlýt að spyrja mig hve mikils virði það er að ég taki þátt í endurvinnslunni.


Aðalskipulag höfuðborgarsvæðisins í hnotskurn

Þið verðið að skoða þessa snilldarlegu útfærslu á aðalskipulagi höfuðborgarsvæðisins, en um leið verð ég að biðja hörundsárt fólk að hafa húmor fyrir þessu! Ég hef nú fengið upplýsingar um að Halldór Baldursson teiknaði og vona að hann afsaki dreifinguna þar sem ég get hans sem höfundar. Hér er tengill í síðuna hans. Smellið á myndina til að stækka:


Reykjavík og nágrenni

Karlmenn að kyssast

Síðan hvenær fóru karlmenn að kyssast á Íslandi, t.d. við opinber tækifæri? Þetta sást á Eddunni. Alþjóðleg menningaráhrif kannski? Skemmtilegt.

Allir hafa sinn vitjunartíma

Ég hef trú á að Bryndís geti haldið uppi hinu góða starfi sem unnið hefur verið á Bifröst undanfarin ár. Ef hún verður eingöngu ráðin tímabundið, þá má segja að nú séu tvær lausar rektorsstöður við einkarekna háskóla á Íslandi, þar sem ráða þarf formlega í stöðu rektors á Bifröst, auk þess sem leita þarf verðugs eftirmanns Guðfinnu Bjarnadóttur við Háskólann í Reykjavík. Það eru spennandi tímar framundan í menntamálunum, það er víst!
mbl.is Bryndís Hlöðversdóttir tekur við sem rektor tímabundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Girnilegt hjónabandsheit

Sveimér þá ef ég myndi ekki gifta mig undir þessum formerkjum! Skikka kallinn bara til að gefa mér kött. Ég verð nú að játa að ég hef ekki kynnt mér nægilega vel út á hvað kenningar Vísindakirkjunnar ganga, þótt margir álitlegir menn í Hollywood hafi gengist undir hennar kennisetningar. En ef ég fengi bæði John Travolta og kött, þá held ég að ég myndi ekki hika við að skrá mig sem Vísindakirkjukonu!


mbl.is Cruise hvattur til að gefa Holmes kött
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viltu auga, tungu eða hnakkaspik?

Við fengum svið á sunnudögum eða á hátíðisdögum. Svið voru höfð á gamlárskvöld heima hjá okkur. Hvers vegna eldar maður ekki svið? Börnin í Hagaskóla léku sér með sviðin í dag og reyndu að ganga fram af hvoru öðru með því að bjóða tungu og stinga út augu. Sagði enginn þeim að það mætti ekki leika sér með matinn? Ætli þau trúi því að svið voru eitt sinn talin herramannsmatur?
mbl.is Borgarstjóri gæddi sér á sviðum með nemendum í Hagaskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætti Muhamed að verða Jónsdóttir þegar hann flytur til Íslands?

Hvers vegna tíðkast það að margar aðfluttar konur taka upp eftirnafn mannsins síns við giftingu, t.d. Jackie Sigurðsson? Þetta er undarleg þróun og gæti endað með því að nafnahefðir íslenskrar tungu tapast og við tökum upp notkun fjölskyldunafna. Slíkt er einkennandi fyrir patríarkísk samfélög þar sem karlar slá eign sinni á konur og á ekki heima í samfélagi sem byggist á jafnrétti og einstaklingsfrelsi. Þetta var kannski skiljanlegt þegar ein og ein erlend kona giftist Íslendingum, en núna þegar vinsældir víkinganna hafa aukist á alþjóðlegum hjónabandsmarkaði og mannanafnalög eru orðin opnari, þá ættu þeir sjálfir að hafa vit á að leggja áherslu á að konur þeirra haldi sínu nafni til samræmis við íslenska málhefð. Það myndi örugglega flýta fyrir aðlögun kvennanna að siðum og þjóðfélagi því það er margsannað að menning er nátengd tungumálinu og málvenjum. Ég hef ekki enn heyrt um að aðfluttir eiginmenn íslenskra kvenna kalli sig t.d. Muhamed Jónsdóttir og get ekki séð að annað skuli gilda um konur og að þær taki karlmannseftirnöfn!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband