Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Viðburðaríkur mánuður

September hefur verið svakalega viðburðaríkur hjá mér í vinnu og víðar. Búin að skipuleggja tvo risaviðburði og fjóra minni, sem allir tókust afskaplega vel. Vísindakaffin voru vel sótt og aldrei hafa fleiri komið á Vísindavöku. Svo er það skipulagið á Viku símenntunar sem mínir frábæru samstarfsaðilar um allt land sjá síðan um að framkvæma. En ég verð að játa að ég veit ekkert skemmtilegra en skipuleggja viðburði - ég bókstaflega þrífst á þeim! Tengist sjálfsagt gamla fararstjóranum í mér... En ég er nú samt pínu þreytt eftir þessa törn og fegin að nú gefst tími til að sinna persónulegum málefnum sem hafa setið á hakanum, eins og að hitta fjölskyldu og vini og kannski fara að synda og hjóla aftur. 

Þá er bara að halda í sér!

Stuðningsyfirlýsing barnshafandi kvenna við kjaradeilu ljósmæðra hófst með því að aðeins eitt barn fæddist á Landspítalanum fyrstu nótt verkfallsins. Áfram svona stelpur, gleymið kampavíninu, göngutúrunum og haldið ykkur frá kallinum! Herpið saman lærin og haldið í ykkur þar til búið er að semja! Ekki að spyrja að því...
mbl.is Eitt barn fæddist á LSH í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar kála dýrum í útrýmingarhættu sér til gamans

Hverjum dettur í hug að drepa ísbjörn, dýr sem nýlega hefur verið yfirlýst í útrýmingarhættu vegna bráðnunar íss á Norðurskautinu?! Hvað er að? Var hann að ógna einhverjum? Þurfum við Íslendingar ekki að fara að endurskoða fílósófíu okkar gagnvart náttúrunni? Það hlýtur að hafa verið hægt að sækja svæfingarlyf til dýralæknis á svæðinu og flytja björninn á brott Ég sé það alveg fyrir mér, að þegar síðasta ísbirnan í heiminum leitar lands á Íslandi eftir nokkra áratugi, ungafull og örvæntingafull, þá munu það verða hróðugir Íslendingar sem munu kála henni - alveg eins og við drápum síðasta geirfuglinn! Isbjarnarungi


mbl.is Ísbjörninn felldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtilegur fundur í Tékklandi

LibliceÉg er stödd í Tékklandi, nánar tiltekið í litlum bæ utan við Prag sem heitir Liblice. Tilefnið er ársfundur EUSCEA, Evrópusamtaka þeirra sem stýra mennta- og vísindaviðburðum, (www.euscea.org) Fundurinn fer fram í gamalli fallegri höll, sem sjá má á meðfylgjandi mynd, en hún hefur verið gerð upp og er núna notuð sem ráðstefnuhótel. Maturinn hér er stórkostlegur, ég veit nú ekki hvort hann er neitt sérstaklega tékkneskur, en hann er góður. Það helsta sem er tékkneskt eru kartöflur í öllum útgáfum auk alls kyns pylsa. Við fengum okkur rauðvín héðan úr héraðinu sem kom mjög á óvart, ferskt og gott. Við erum hér 40 manns frá 23 löndum, mjög skemmtilegt og hresst fólk, eins og við er að búast af viðburðastjórnendum.

Hvað kostar skutlið okkur?

fita vs olíaÉg rakst á áhugaverða síðu hjá Orkusetrinu þar sem hægt er að finna út hvað keyrsla kostar okkur, innanbæjar og utan, eftir því hvernig bíl við keyrum. Prófið þetta og spyrjið ykkur svo hvort ekki væri hægt að ganga eða hjóla og senda börn gangandi, hjólandi eða í strætó á íþróttaæfingar núna þegar daginn lengir. Þarna má einnig sjá rauntímamæli fyrir alla orkunotkun á Íslandi, raforkunotkun, heitavatnsnotkun og eldsneytisnotkun. Skemmtilegt. Hér er tengill í síðuna með prófinu, annars er þetta á orkusetur.is og þar fékk ég þessa skemmtilegu mynd líka lánaða.

Lækning á minnistapi í sjónmáli?

Læknar í Kanada gerðu óvart þessa uppgötvun í miðri heilaskurðaðgerð: Lesið um það hér, þetta er ótrúlegt!

Glærukynningar - of mikið af því góða?


Hvernig er veðrið þegar það er "crisp"?

Í morgunþætti Bylgjunnar í morgun talaði þáttagerðarkona um að hægt væri að finna að haustið nálgaðist, þar sem veðrið væri farið að vera svona "crisp" og var það örugglega nothæfasta orðið sem henni datt í hug. Ég skil lýsinguna, en langar að finna upp orð sem lýsir þessari "crispy" tilfinningu, þegar loftið er brakandi án þess að vera beint mjög kalt. Hugmyndir vel þegnar.

Umskurður kvenna og hryllingur heimsins

BíómyndirÁ sunnudaginn sá ég tvær fantagóðar bíómyndir, svona myndir sem vekja mann til umhugsunar um heiminn og mannkynið sem hann byggir. Önnur var Beyond bordersmeð Angelinu Jolie og Colin Powell. Hún fjallaði um yfirstéttarpjásu í London sem fær mjög sterka köllun til að taka þátt í hjálparstarfi sem síðan leiðir hana frá Afríku til Tsjétsjéníu í gegnum Kambódíu. Þar mæta henni hryllilegar aðstæður, allt frá þurrkum og hungursneyð til öfgahópa og hryðjuverkastríðs. Hin myndir var sunnudagsmynd Sjónvarpsins, Moolaadé eða Verndarkraftur, senegölsk mynd um konu sem hjálpar litlum stelpum að flýja umskurð eða "hreinsun" sem viðgengst á ungum telpum í mörgum löndum Afríku. Það er eitt af þeim málefnum sem ég tel að þurfi að berjast gegnhvað ötullegast í heiminum í dag, og eitthvað sem myndi ekki viðgangast ef fleiri konur hefðu verið við stjórnvölinn undanfarnar aldir, en það er önnur saga. Frábær mynd, sem tók á viðkvæmu efni á smekklegan hátt með blöndu af kaldhæðni yfir lífinu og tilverunni. Þakka RÚV fyrir að sýna mynd frá Senegal, gott framtak! Ekki skemmir fyrir að Pollý, Senegalpáfagaukurinn okkar gat heyrt tungu forfeðra sinna...

Rokið reddar

Það er greinilega fleira en mengun vegna reykinga eða svifryks sem ógnar andrúmslofti okkar, en samkvæmt þessari rannsókn í Róm má þar finna agnir úr öllum þeim efnum sem mannfólkinu dettur í hug að nota. Það er nú ljóta sullið sem hægt væri að greina í stórborgum á borð við Róm, London eða New York. Er í alvöru hægt að greina koffín í loftinu sem við öndum að okkur? Eða kókaín og maríjúana? Það sem ég segi, við eigum að vera þakklát fyrir rokið í Reykjavík, sem hvergi er hreinna eða kraftmeira en norðanmegin í Vesturbænum!
mbl.is Kókaínagnir í loftinu í Róm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband