Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Úti að aka

Auðvitað er það ekki aðalmálið að vera með símann í hendinni, ég meina fólk hefur alltaf verið að gera fullt annað við stýrið en að keyra. T.d. ef maður er með börn í bílnum þarf oft að nota hendur í að rétta þeim eitthvað eða jafnvel aðskilja systkini í slagsmálum í aftursæti. Nú svo er algengt að sinna snyrtingu, varalitun eða tannaplokkun, fyrir utan það að örugglega um 90% ökumanna bora í nefið við stýrið - þótt það sé aðallega gert á rauðu ljósi. Það er fleira gert á rauðu ljósi, ég á vinkonu sem kynntist manninum sínum við þær aðstæður, þannig að fólk er líka í því að daðra milli bíla. Svo er náttúrulega gott að nota tímann og gleypa í sig skyndibitann og totta gosflösku eins og er algengt. Fólk hefur alltaf hlustað á tónlist og sungið af innlifun við stýrið, og eitthvað er orðið um að bílstjórar setji sjónvarp í bílinn, við hliðína á síma- og ipod tengingum. Margir eru farnir að hlusta á hljóðbækur, sem geta vakið ýmsar tilfinningar við stýrið, og þá er ótalinn fjöldi þeirra sem býður fleirum með sér í bílinn til að tala saman. Þá eru þær samræður væntanlega jafnhættulegar og símablaður, eða hvað?
mbl.is Handfrjáls búnaður eða ekki, samræðurnar skipta mestu máli við aksturinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munið þið eftir kasettunum?

Ég man hve merkilegt mér fannst að eignast kasettutæki með hljóðnema, en það var notað til að taka upp endalaust blaður og vitleysu sem svo var spilað aftur og aftur. Rosalega fannst okkur vinkonunum á Framnesveginum við vera fyndnar!
Ég man eftir að hafa safnað kasettum og tekið yfir þær aftur og aftur.
Ég man eftir að hafa keypt sérstaka kasettugrind í skápinn minn, til að geta raðað kasetttunum í.
Ég man eftir að hafa stillt kasettutækinu upp fyrir framan útvarpið, gjarna við Kanaútvarpið eða Lög unga fólksins, og heimtað grafarþögn þegar lög voru tekin upp.
Ég man eftir að hafa sent kasettur milli landa í stað bréfa, með blaðri og slúðri.
Ég man eftir að hafa smyglað kasettutækinu inn í Háskólabíó í rauðu íþróttatöskunni minni (sem var keypt í Sport á Laugavegi 13 og merkt búðinni) og tekið upp heilar bíómyndir, eins og t.d. Grease.
Ég man eftir þegar kasettur flæktust í tækinu og maður þurfti að losa bandið ofurvarlega til að slíta það ekki.
Ég man þegar tækninni fleygði fram, þá blandaði ég tónlist á kasettur og skírði þær nöfnum eins og "Rólegt", "Stuð" eða "Blandað", á svipaðan hátt og maður býr til spilunarlista á ipod í dag.
Ég man eftir hreinsispólunum sem maður keyrði í gegnum kasettutækið með vissu millibili.
Ég man þegar myndbandsspólurnar bættust við - hvenær ætli þeirra tími líði undir lok?!
mbl.is Dagar hljóðsnældunnar taldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grannar og graðar

Þessi hópur vísindamanna sem vinnur að því að þróa pillu til að örva kynhvöt kvenna um leið og hún dregur úr matarlyst þeirra, samanstendur væntanlega af karlmönnum, sem skemmta sér vonandi konunglega. Er það ekki draumur allra karlmanna að hafa konur grannar og graðar? Kannski spurning hvort vísindamenn ættu ekki að nota tímann í að þróa aðferðir til að koma í veg fyrir eða lækna hættulega sjúkdóma, t.d. brjóstakrabbamein. Allt spurning um forgangsröðun...


mbl.is Vonir bundnar við pillu sem örvar kynhvötina og dregur úr matarlyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spænskar prinsessur nútímans

Casa RealÞá eru komnar tvær spænskar erfiprinsessur, en eldri dóttir þeirra Felipe og Letiziu mun erfa krúnuna eftir föður sinn. Til þess að svo mætti verða, þurfti að breyta aldagömlum lögum á Spáni, sem kváðu á um að aðeins synir gætu erft krúnuna. Slíkum lögum hefur undanfarna áratugi verið breytt í þeim löndum Evrópu þar sem er konungsstjórn, en Spánn var eitt síðasta landið til að breyta þessu. Felipe á tvær eldri systur, þær Elenu og Cristinu, en þær gátu skv. spænsku stjórnarskránni ekki erft konungdæmið og því þurftu konungshjónin að bíða eftir að drengurinn kæmi. Ég væri nú frekar fúl ef ég væri Elena, að vera elst, en horfa svo upp á litla bróður alinn upp sem verðandi konungur. En hún er vel upp alin spænsk kona af góðum ættum og gerir líklega ekki veður út af málinu úr þessu. Eiginmaður hennar er Jaime de Marichalar, sem lítur út eins og karakter úr málverki eftir El Greco. Yngri systirin, Elena, er gift Inaki Urdangarín handboltakappa úr Barcelona, og hún vinnur í banka þar í borg. Barnalánið hefur ekki verið vandamál hjá þessum spænsku kóngabörnum, því systurnar eiga samtals 6 börn og nú er Felipe komin með tvær prinsessur (í alvöru). Konungshjónin, Juan Carlos og Sofia eru því rík af barnarbörnum, enda eru þau víst alltaf að passa! Þetta var semsagt um spænsku konungsfjölskylduna fyrir áhugasama um kóngafólkið í Evrópu!


mbl.is Spánarprinsessa eignast sína aðra dóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Amma sem rokkar!

Það er töggur í þessari, algjörlega kona að mínu skapi. Hugsið ykkur hvað háskólanámið hefur gefið þessari öldruðu konu mikla lífsfyllingu, enda er margt annað hægt að gera en setjast við hannyrðir í ellinni. Ég verð nákvæmlega svona, eilífðarstúdentinn sjálfur, og stefni að því að útskrifast með einhverja gráðu um leið og barnabörnin!
mbl.is Útskrifast úr háskóla 95 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri mengun en í Bandaríkjunum

BeautyHún lét ekki mikið yfir sér í Mogganum í dag, fréttin um að mengun í Kína sé þegar orðin meiri en í Bandaríkjunum á þessu ári. Athugið að hér er ekki verið að tala um eitthvað svifryk á góðum degi, heldur raunverulega mengun sem hefur áhrif á allan heiminn. Hagkerfi Kína hefur vaxið með ógnarhraða undanfarið, kannski hraðar en gert var ráð fyrir, en spáð hafði verið að Kína færi fram úr BNA í mengun árið 2025. Vöxtur efnahags Kína mun bara aukast, fyrir utan að þjóðfélaginu verður sparkað með látum inn í nútímann. Þetta mun hafa áhrif á fleiri sviðum en mengun, eins og við eigum eftir að verða vitni að á næstu árum. Vonum bara að þróunin verði í átt að "fegurð" en ekki  "ringulreið", en kínversku táknin tvö standa fyrir það.

Markaðsbrella ársins

Hverju finnur fólk ekki upp á! Það hlýtur að vera mjög spennandi að fylgjast með þroska þessa merkilega osts. Maður getur rétt ímyndað sér lyktina! En í alvöru, þetta er snilld. Ég tilnefni bændurna þarna í Suður-Englandi til markaðsverðlauna ársins.


mbl.is Ostur orðinn internetstjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðufugl í Mosfellsdalnum

Við mæðgur fórum í reiðtúr í dag, sem ekki er í frásögur færandi, en það er svo gaman að fylgjast með Mosfellsdalnum fyllast af fuglum þegar fer að vora og þar er t.d. oft hægt að sjá mikinn fjölda lóa við undirbúning hreiðurgerðar. Í dag sáum við undarlegan fugl, sem minnti helst á afríska fugla sem við höfum séð í dýragörðum. Hann var búkstór, á stærð við önd, en með mjóan háls og langan og mjóan gogg, og langt og þunnt stél. Það væri gaman að vita hvaða fugl þetta var og hvaðan hann kom. Þasð hafa löngum fundist furðufuglar í Mosfellsdalnum, eins og má t.d. lesa um í Innansveitarkróníku Laxness!

Háðsleg uppástunga

Þetta er kaldhæðin uppástunga hjá prófessornum, en það er ekki laust við að manni renni kalt vatn milli skinns og hörunds þegar lýsingin er lesin. Þetta hljómar helst eins og upplag í krassandi tölvuleik, og við skulum vona að enginn raunveruleikafirrtur valdamaður taki hugmyndina alvarlega!?
mbl.is Nær að sprengja Ísland en Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaman að fljúga

Flug er öruggur, þægilegur og fljótlegur ferðamáti, vilji maður skoppa milli heimshluta. Það er líka frekar skemmtilegt að fljúga og allt í kringum flug hefur alltaf verið ákaflega skemmtileg upplifun í hvert sinn. Þess vegna finnst mér svo óendanlega óréttlátt, að þegar flug var um það bil að verða gallalaust og þægilegra en nokkru sinni fyrr (rétt fyrir aldamótin), þá plöntuðu hryðjuverkamenn fræi tortryggni í flóru flugsamgangna, og síðan þá er eins og reynt sé að gera skipulagið í kringum flugið eins óþægilegt og hægt er. Ég þreytist seint að tala um þetta, því þetta fer svo í mig. Fyrst voru það oddhvöss tól, og núna er það vökvi af öllu tagi sem gerður er upptækur við innritun í flug. Í síðustu ferð minni voru flugvallarstarfsmenn svo uppteknir af sturtusápunni minni að þeir hirtu ekkert um naglaþjölina, sem er í lengra lagi og úr málmi. Svo er búið að taka stálhnífapörin upp aftur. Hverju verður tekið upp á næst? Það fer væntanlega eftir útspili þeirra sem hófu þennan leiðindaleik!
mbl.is Farþegaflug aldrei verið öruggara en nú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband