Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Börn í fréttum í Ameríku

Ég horfði á morgunfréttir Fox sjónvarpsstöðvarinnar í Boston í gærmorgun og þar voru tvær fréttir um börn sem vöktu athygli Íslendings. Önnur fréttin var um notkun tálbeitu til að ná til barnaníðings sem hafði auglýst eftir unglingsstúlkum til að aðstoða sig við þrif. Lögreglan setti sig í samband við hann á netinu og þóttist vera stelpa og þá komu fljótt í ljós aðrar og annarlegri óskir af hálfu mannsins. Farið var með þetta alla leið, tálbeita send á staðinn, maðurinn handtekinn og dæmdur í fangelsi og sýnt frá öllu saman í sjónvarpi þar sem sýndar voru myndir af honum. Þarna finnst mér tilgangurinn réttlæta notkun tálbeitu til að taka svona menn úr umferð. Hin fréttin var um börn sem höfðu verið úti að leika en var orðið kalt og ætluðu heim. Foreldrarnir höfðu skroppið frá örstutt, og því biðu börnin á tröppunum þangað til þeir komu. Þetta fólk er búið að dæma fyrir vanrækslu af því börnin voru ein úti og varð kalt. Við þessu segi ég bara "only in America..."

Niðurtalningin hafin

Nú segi ég bara ÓMG (Ó Mæ God), niðurtalningin fyrir afmælið MIKLA hefst í dag! Vinir og félagar, takið daginn frá til að samgleðjast og hylla júnóhú!

Skemmtun fyrir konur, börn og homma - hvað kemur rigning þessu við?

Í Blaðinu í dag er ágætis kvikmyndasíða sem ég las upp til agna, sérstaklega greinina um söngvamyndir sem sagðar eru gerðar fyrir ofangreinda hópa. Svo er listi yfir vinsælustu titillög nokkra dans- og söngvamynda, en fjögur af tíu titillögum fjalla um rigningu!

Ég elska dans og söngvamyndir -og er stolt af því, og held mest upp á tvö tímabil. Fyrst eru það gullaldarár MGM kvikmyndaversins í kringum 1950 þegar sjarmörinn Gene Kelly, dramaunglingurinn Judy Garland, stríðnispúkinn Mickey Rooney, sunddrotningin Esther Williams og dansandi parið Fred og Ginger voru upp á sitt besta. Síðara tímabilið eru svo the "roving eighties". Nostalgían grípur mig og diskótakturinn hríslast um mig alla þegar ég hugsa um Flashdance, Grease, Footloose, Saturday Night Fever, Breakdance, Beat Street og Fame. Ég á það meira að segja til að bresta í söng við ýmis tækifæri, stökkva upp á bíla og húsgögn og tjá mig með dillandi diskó eða steppi og taka nokkra létta tóna. Ef þið hafið ekki séð mig, þá eigið þið mikið eftir! En það var þetta dularfulla rigningarmál. Vinsælustu titillög söngvamynda eru samkvæmt Blaðinu:

1. Singin' in the Rain úr úr samnefndri mynd
2. America úr West Side Story
3. Over the Rainbow úr Wizard of Oz
4. The Sound of Music úr samnefndri mynd
5. Tomorrow úr Annie
6. Supercalifragilisticexpialidocious úr Mary Poppins
7. The Rain in Spain úr My Fair Lady
8. Don't Rain on my Parade úr Funny Girl
9. You're The One That I Want úr Grease
10. Roxanne úr Moulin Rouge


Kominn tími til að endurmeta menntunarstig þjóðarinnar

Það getur ekki annað verið en þessar tölur - ef þær eru raunverulegar, hafi eitthvað að segja um menntunarstig íslensku þjóðarinnar. Nú er lag að gera úttekt á ný á brottfalli úr skólum og uppfæra rannsóknir á téðu lágu menntunarstigi okkar. Burtu með barlóminn í aðilum vinnumarkaðarins og förum að vera stolt af menntakerfinu okkar. Ef við trúum ekki að það virki, þá virkar það ekki.


mbl.is Mikil fjölgun nemenda í háskólum og framhaldsskólum á síðustu árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Börn sem söluvara?

Með frestun barneigna og aukinni ófrjósemi í hinum vestræna heimi er skiljanlegt að eftirspurn eftir börnum til ættleiðingar aukist. Að sjálfsögðu er það hið besta mál að börn sem fæðast í slæmum aðstæðum komist til fólks sem getur veitt því gott líf. Það sem ég óttast hins vegar mest þegar fréttir berast af mikilli "eftirspurn" eftir börnum til ættleiðingar, er að óprúttnir aðilar kunni að nýta sér neyð fólks og ræna börnum til að græða pening. Ég held nefnilega að það sé algengara en margur heldur.


mbl.is Aukin eftirspurn eftir börnum til ættleiðingar á alþjóðavettvangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég elska túrista!

Sem fararstjóri til margra ára, þá elska ég túrista af öllum þjóðernum og spurningar þeirra og vangaveltur. Svona fréttir skemmta mér því mikið og auka á pælingar mínar um hvað fólk er frábært. Ég hef heyrt margt svipað þessu, þó get ég sagt landanum það til hróss, að það er meira um kjánalegar spurningar útlendinga hér á landi en Íslendinga erlendis.
mbl.is Undarlegar spurningar ferðamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjársgangan ómissandi

Vetrarsól
Það fyrsta sem ég geri á nýjársdegi ár hvert er að fara í nýjársgöngu. Mér finnst það algerlega ómissandi, alveg sama hvenær ég vakna eða hvernig veðrið er. En það er nú bara þannig, að mér finnst alltaf vera stilla, sól og frekar kalt á nýjársdegi, sem sagt ekta flott vetrarveður. Það er líka einhver von í lofti á þessum degi, fólk heilsar manni á förnum vegi og býður gleðilegt ár og það er eins og dagurinn gefi vissu um nýtt upphaf. Hefðina hjá mér má rekja má til þess að mér þótti nauðsynlegt að fara út með hundana í góðan göngutúr eftir stressið á þeim á gamlárskvöldi. Ég ætla að drífa mig út, sjáumst á Ægisíðunni. Gleðilegt ár!

Merkilegt ár, 2006!

Árið sem er að líða var merkilegt, það gerðist margt og margt mun leiða af því sem gerðist. Ég sjálf, trygglynd og trú sem íslenskur smalahundur, skipti formlega um starf um áramótin og hlakka til að takast á við ný verkefni. Hvað áramótaheit varðar, þá langar mig að verða skipulagðari á allan hátt á nýju ári. 2007 verður tímamótaár hjá mér og bara spennandi, það er á hreinu! Gleðilegt ár allir!

Í göngutúr með ruslið

Ég hef verið að reyna að bæta mig í að fara með fernur, pappaílát og blöð í endurvinnsluna og hefur orðið vel ágengt síðan gámarnir komu hingað í hverfið. Um daginn höfðu safnast saman pappaílát í kassa og blöð í poka, og ákvað ég að taka það með mér þar sem ég var á leiðinni út í búð og skila því í gáminn. Þetta var um það leyti dags sem fólk er að koma úr vinnu og fara í búðir og margt fólk á ferli á Hofsvallagötunni. En það átti ekkert að líta illa út að vera úti að ganga með ruslið undir hendinni, því ég stefndi á gáminn. Þangað til ég komst að því að gámurinn var FARINN! Þá var ekkert um neitt annað að ræða en snúa við og fara í Melabúðina með ruslið í poka, eins og ég hefði skroppið með það í skemmtigöngu. Mjög lekkert. Hvert eru gámarnir farnir? Vilji minn til að safna fernum og öðru slíku er eiginlega gufaður upp og nágrannarnir halda að ég sé klikkuð. Og ég hlýt að spyrja mig hve mikils virði það er að ég taki þátt í endurvinnslunni.


Kók er ekki það sama og kók

Diet coke Þegar Kók Light var sett á markað læddist að mér lúmskur grunur um að það ætti að koma alveg í staðinn fyrir Diet Kók, en ég vonaði samt að gos-sjúk þjóð myndi sjá til þess að þetta seldist allt saman. Ég meina, það er enn verið að selja Tab, pælið í því, ég sem hélt að framleiðslan legðist af þegar ég hætti að kaupa það! Nú er hins vegar að koma á daginn að söluaðilar velja að selja annan hvorn drykkinn og með tilboðum og kynningum er eins og verið sé að setja Diet Kókið út í horn. Þetta farið að nálgast markaðslegan þjösnaskap á kaffihúsum, þar sem aðeins er hægt að fá Light. Já, það er munur á bragðinu. Light er sætara, líkara Kóki en með gerfibragði. Diet er á bragðið eins og diet drykkur og ekki þetta feik sykurbragð. Nú bíð ég og vona að Dietið lifi af, og ég geti haldið áfram að sötra gutlið í mínu horni.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband