Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Skemmtilegur fundur í Tékklandi

LibliceÉg er stödd í Tékklandi, nánar tiltekið í litlum bæ utan við Prag sem heitir Liblice. Tilefnið er ársfundur EUSCEA, Evrópusamtaka þeirra sem stýra mennta- og vísindaviðburðum, (www.euscea.org) Fundurinn fer fram í gamalli fallegri höll, sem sjá má á meðfylgjandi mynd, en hún hefur verið gerð upp og er núna notuð sem ráðstefnuhótel. Maturinn hér er stórkostlegur, ég veit nú ekki hvort hann er neitt sérstaklega tékkneskur, en hann er góður. Það helsta sem er tékkneskt eru kartöflur í öllum útgáfum auk alls kyns pylsa. Við fengum okkur rauðvín héðan úr héraðinu sem kom mjög á óvart, ferskt og gott. Við erum hér 40 manns frá 23 löndum, mjög skemmtilegt og hresst fólk, eins og við er að búast af viðburðastjórnendum.

Sagan um ísskápinn sem dó

Ísskápurinn á heimilinu gafst upp á fimmtudaginn. Ég brást auðvitað við með því að reyna að forða sem mestu af matnum frá skemmdum, og sem betur fer átti ég von á fólki í heimsókn sem þannig breyttist í matarboð. Í frystinum var dýrindis humar frá Vestmannaeyjum, rækjur og krabbi þannig að þemað varð sjávarkrás. Gestirnir mættu með vín og því varð fínasta veisla úr þessu. Verst er að ég var nýbúin að kaupa birgðir af ís sem fóru beint í ruslið. En þá var það ísskápurinn sjálfur. Ég byrjaði á að reyna að fá ísskáp lánaðan en ákvað frekar að drífa í að kaupa. Það sem hefur orðið okkur til bjargar er að það er fullkomið veður til að geyma helstu nauðsynjar úti við, og því ríkir útilegustemmning á Hagamelnum. Svo voru ísskápabúðirnar þræddar, spáð og spekúlerað, og vonandi tekst að finna rétta skápinn um helgina. Á meðan er það bara útilegustemmning á norðursvölunum!

Hvað kostar skutlið okkur?

fita vs olíaÉg rakst á áhugaverða síðu hjá Orkusetrinu þar sem hægt er að finna út hvað keyrsla kostar okkur, innanbæjar og utan, eftir því hvernig bíl við keyrum. Prófið þetta og spyrjið ykkur svo hvort ekki væri hægt að ganga eða hjóla og senda börn gangandi, hjólandi eða í strætó á íþróttaæfingar núna þegar daginn lengir. Þarna má einnig sjá rauntímamæli fyrir alla orkunotkun á Íslandi, raforkunotkun, heitavatnsnotkun og eldsneytisnotkun. Skemmtilegt. Hér er tengill í síðuna með prófinu, annars er þetta á orkusetur.is og þar fékk ég þessa skemmtilegu mynd líka lánaða.

Sumt grín er G-vara - endursýnum góðar gamanþáttasyrpur

allo alloÉg rakst á þátt um daginn sem heitir "Er grín G-vara?" þar sem sýndar eru gamlar glefsur úr íslenskum grínþáttum, gömlum áramótaskaupum o.fl. Var það ekki skaupið 1982 eða 84 sem var svo ægilega gott, að í minningunni hefur annað eins skaup ekki verið gert? Samt er það nú þannig að sumt af þessu gríni hefur ekki elst vel. Hins vegar langar mig að vekja máls á því að Sjónvarpið endursýni ógleymanlega erlenda þætti á borð við Löður (Soap) og Allo! allo!. Ég hef verið að fylgjast með síðarnefndri þáttaröð á ferðum mínum um Evrópu, og þar er sko komið grín sem eldist vel. Ég sit ein á hótelherbergjum og finn mér afsakanir til að mæta ekki í dýrindis kvöldverði aðeins til að missa ekki af René og félögum í frönsku andspyrnuhreyfingunni og málverkinu af "the fallen madonna with the big boobies!" Hvernig væri að dusta rykið af þessum góðu þáttum sem hafa sannað að sumt grín er G-vara?

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband