Færsluflokkur: Bloggar

Markaðsbrella ársins

Hverju finnur fólk ekki upp á! Það hlýtur að vera mjög spennandi að fylgjast með þroska þessa merkilega osts. Maður getur rétt ímyndað sér lyktina! En í alvöru, þetta er snilld. Ég tilnefni bændurna þarna í Suður-Englandi til markaðsverðlauna ársins.


mbl.is Ostur orðinn internetstjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menntun aðeins fyrir ríka?

graduationÍ Mogganum í dag er velt upp þeirri hugmynd hvort foreldrar ættu að huga að því að safna í menntunarsjóð fyrir börn sín, þar sem öll rök hnigi að því að háskólanám á Íslandi muni verða dýrt í framtíðinni. Vísað er til veruleikans sem birtist í bandarískum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, þar sem menntun barna og kostnaður við hana er eitt helsta áhyggjuefni foreldra. Þar ber ungt fólk enga ábyrgð á þessu sjálft og ekki samfélagið heldur. Einkavæðing menntunar er hafin hér fyrir löngu síðan, en viljum við að háskólamenntun verði í framtíðinni aðeins á færi þeirra efnameiri? Ýtir slíkt ekki um of undir stéttaskiptingu og heldur niðri efnaminni en kannski stórefnilegum námsmönnum, sem neyðast til að taka að sér ósérhæfð störf þar sem mamma og pabbi höfðu ekki efni á að borga fyrir nám þeirra? Þurfum við að hafa allt eins og í Ameríku?

Byggjum upp torgastemmningu

Þegar uppbygging hefst á reitnum þar sem brann í miðbænum, sérstaklega þegar Karnabæjarhúsið verður rifið, gefst tækifæri til að opna á fallega bakgarða og byggja upp torgamenningu sem hvarf með tengingu húsa í raðir einhvern tíma á síðustu öld. Garðurinn á bakvið Hressó, Jómfrúnna og Borgina er frábært svæði, og svo mætti gera eitthvað manneskjulegt við Lækjartorg, Ingólfstorg og Fógetagarðinn. Svo ætti auðvitað að opna Lækinn og byggja fallegar brýr yfir hann og leggja áherslu á mannbætandi þjónustu. Þetta er í raun gamli "rúnturinn" í hnotskurn, eða svæðið sem afmarkast af Hafnarstræti, Lækjargötu, Skólabrú, Kirskjustræti og Aðalstræti. Svona torgastemmning með tengileiðum, skemmtilegum kaffihúsum og menningarstarfsemi er ríkjandi í öllum borgum og bæjum Evrópu, því ekki líka í Reykjavík?

Var að lesa...

Ég las loksins Flugdrekahlauparann um daginn. Ég byrjaði á bókinni um borð í flugvél og var mjög pirruð að þurfa að lenda og leggja bókina frá mér! Hún vekur gífurlega sterk viðbrögð hjá manni, það liggur við að maður tárfelli í hverjum kafla. Ekki af því bókin sé sorgleg eða ofurgleðileg, heldur er frásögnin svo sterk að hún rústar algerlega tilfinningalegum vörnum. Menningarheimurinn og aðstæðurnar sem maður kemst í kynni við í gegnum frásögn Khaled Hosseini eru ótrúlegar og ættu að vera skyldulesning fyrir okkur Westrænu menningarvitana. Mæli hiklaust með henni, þótt ég sé kannski svolítið sein að lesa hana!

Hver verða stóru málin?

Formaður Íslandshreyfingarinna segir að umhverfismálin verði langstærsta kosningamálið. Hvað með Evrópusambandið og hugsanlega aðild Íslands? Er ekki komin tími til að athuga með aðildarviðræður? Það er alveg merkilegt hvernig tekst alltaf að svæfa þetta mál, kosningar eftir kosningar!

Var þetta ekki snilld?!?


Miðaldra pönkarar og eilífar diskódúllur

mohawk hairstyleAldarfjórðungur er frá því kvikmyndin Rokk í Reykjavík var frumsýnd, og að því tilefni bauð Jón Ólafs nokkrum pönkurum, sem voru í myndinni, í sjónvarpsþátt sinn í kvöld. Það er sniðugt að sjá miðaldra menn rifja upp bernskubrekin, og eiginlega frekar krúttlegt.  En svakalega voru sumir ungir menn reiðir á þessum tíma! Var það bara til að vera eins og ungt fólk samtímans í London? Þar bjó fólk við ofbeldi og langtíma atvinnuleysi og sá ástæðu til að gera uppreisn gegn kerfinu. Hér voru aðstæður aðrar, en samt um að gera að taka þátt í nýjustu straumum í tónlist og tísku. Það komu rosa margir áhugaverðir tónlistarmenn upp á þessum tíma sem hafa haft áhrif á íslenska tónlist, eins og t.d. Þeyr og Björk, og óhætt að segja að þetta hafi verið einstakur tími. Ég man vel eftir þessum tíma, en ég var svoddan diskódrottning og nýbylgjudúlla að umræddir menn hefðu sjálfsagt ælt. 

Eiríkur flottur

Stigagjafaþættir Norðurlandaþjóðanna, þar sem lögin í Eurovision eru sýnd og dæmd, er alltaf hin besta skemmtun og orðin mun betri en keppnin sjálf! Þar er keppnin tekin mátulega alvarlega og skapaðar umræður um þetta menningarlega fyrirbæri sem Eurovision er. Eiríkur kemur vel út, drengur góður, lítillátur og norrænn án þess að tapa kúlinu - þrátt fyrir að vera hluti af geiminu í ár.

Furðufugl í Mosfellsdalnum

Við mæðgur fórum í reiðtúr í dag, sem ekki er í frásögur færandi, en það er svo gaman að fylgjast með Mosfellsdalnum fyllast af fuglum þegar fer að vora og þar er t.d. oft hægt að sjá mikinn fjölda lóa við undirbúning hreiðurgerðar. Í dag sáum við undarlegan fugl, sem minnti helst á afríska fugla sem við höfum séð í dýragörðum. Hann var búkstór, á stærð við önd, en með mjóan háls og langan og mjóan gogg, og langt og þunnt stél. Það væri gaman að vita hvaða fugl þetta var og hvaðan hann kom. Þasð hafa löngum fundist furðufuglar í Mosfellsdalnum, eins og má t.d. lesa um í Innansveitarkróníku Laxness!

Borgað fyrir lífsreynslusögur - líka á Íslandi?

Þrátt fyrir bann við því að bresku hermennirnir sem voru í haldi Írana selji fjölmiðlum sögu sína, er svo kristaltært í mínum huga að það bann má sín lítils gegn ofurkrafti fjölmiðla og skemmtanabransans. Hvort sem það verður í spjallþætti, þar sem þeir segja krassandi sögur eða nota sjónvarp sem áfallahjálp og gráta úr sér augun, eða í formi nýrrar spennumyndar, þá mun sagan verða sögð. Og fjölmiðlar munu borga fyrir hana. Þannig gerast kaupin á Eyrinni. Þetta er líka orðið þekkt hér á landi, þótt hitt sé sem betur fer enn normið. Svo er það líka algengt hér að fólk borgi fjölmiðlunum fyrir að taka viðtal við það, og þykir eðlilegt sem PR þjónusta.
mbl.is Breska varnarmálaráðuneytið bannar hermönnum að selja sögur sínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband