Menntun aðeins fyrir ríka?

graduationÍ Mogganum í dag er velt upp þeirri hugmynd hvort foreldrar ættu að huga að því að safna í menntunarsjóð fyrir börn sín, þar sem öll rök hnigi að því að háskólanám á Íslandi muni verða dýrt í framtíðinni. Vísað er til veruleikans sem birtist í bandarískum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, þar sem menntun barna og kostnaður við hana er eitt helsta áhyggjuefni foreldra. Þar ber ungt fólk enga ábyrgð á þessu sjálft og ekki samfélagið heldur. Einkavæðing menntunar er hafin hér fyrir löngu síðan, en viljum við að háskólamenntun verði í framtíðinni aðeins á færi þeirra efnameiri? Ýtir slíkt ekki um of undir stéttaskiptingu og heldur niðri efnaminni en kannski stórefnilegum námsmönnum, sem neyðast til að taka að sér ósérhæfð störf þar sem mamma og pabbi höfðu ekki efni á að borga fyrir nám þeirra? Þurfum við að hafa allt eins og í Ameríku?

Byggjum upp torgastemmningu

Þegar uppbygging hefst á reitnum þar sem brann í miðbænum, sérstaklega þegar Karnabæjarhúsið verður rifið, gefst tækifæri til að opna á fallega bakgarða og byggja upp torgamenningu sem hvarf með tengingu húsa í raðir einhvern tíma á síðustu öld. Garðurinn á bakvið Hressó, Jómfrúnna og Borgina er frábært svæði, og svo mætti gera eitthvað manneskjulegt við Lækjartorg, Ingólfstorg og Fógetagarðinn. Svo ætti auðvitað að opna Lækinn og byggja fallegar brýr yfir hann og leggja áherslu á mannbætandi þjónustu. Þetta er í raun gamli "rúnturinn" í hnotskurn, eða svæðið sem afmarkast af Hafnarstræti, Lækjargötu, Skólabrú, Kirskjustræti og Aðalstræti. Svona torgastemmning með tengileiðum, skemmtilegum kaffihúsum og menningarstarfsemi er ríkjandi í öllum borgum og bæjum Evrópu, því ekki líka í Reykjavík?

Var að lesa...

Ég las loksins Flugdrekahlauparann um daginn. Ég byrjaði á bókinni um borð í flugvél og var mjög pirruð að þurfa að lenda og leggja bókina frá mér! Hún vekur gífurlega sterk viðbrögð hjá manni, það liggur við að maður tárfelli í hverjum kafla. Ekki af því bókin sé sorgleg eða ofurgleðileg, heldur er frásögnin svo sterk að hún rústar algerlega tilfinningalegum vörnum. Menningarheimurinn og aðstæðurnar sem maður kemst í kynni við í gegnum frásögn Khaled Hosseini eru ótrúlegar og ættu að vera skyldulesning fyrir okkur Westrænu menningarvitana. Mæli hiklaust með henni, þótt ég sé kannski svolítið sein að lesa hana!

Hver verða stóru málin?

Formaður Íslandshreyfingarinna segir að umhverfismálin verði langstærsta kosningamálið. Hvað með Evrópusambandið og hugsanlega aðild Íslands? Er ekki komin tími til að athuga með aðildarviðræður? Það er alveg merkilegt hvernig tekst alltaf að svæfa þetta mál, kosningar eftir kosningar!

Var þetta ekki snilld?!?


Miðaldra pönkarar og eilífar diskódúllur

mohawk hairstyleAldarfjórðungur er frá því kvikmyndin Rokk í Reykjavík var frumsýnd, og að því tilefni bauð Jón Ólafs nokkrum pönkurum, sem voru í myndinni, í sjónvarpsþátt sinn í kvöld. Það er sniðugt að sjá miðaldra menn rifja upp bernskubrekin, og eiginlega frekar krúttlegt.  En svakalega voru sumir ungir menn reiðir á þessum tíma! Var það bara til að vera eins og ungt fólk samtímans í London? Þar bjó fólk við ofbeldi og langtíma atvinnuleysi og sá ástæðu til að gera uppreisn gegn kerfinu. Hér voru aðstæður aðrar, en samt um að gera að taka þátt í nýjustu straumum í tónlist og tísku. Það komu rosa margir áhugaverðir tónlistarmenn upp á þessum tíma sem hafa haft áhrif á íslenska tónlist, eins og t.d. Þeyr og Björk, og óhætt að segja að þetta hafi verið einstakur tími. Ég man vel eftir þessum tíma, en ég var svoddan diskódrottning og nýbylgjudúlla að umræddir menn hefðu sjálfsagt ælt. 

Eiríkur flottur

Stigagjafaþættir Norðurlandaþjóðanna, þar sem lögin í Eurovision eru sýnd og dæmd, er alltaf hin besta skemmtun og orðin mun betri en keppnin sjálf! Þar er keppnin tekin mátulega alvarlega og skapaðar umræður um þetta menningarlega fyrirbæri sem Eurovision er. Eiríkur kemur vel út, drengur góður, lítillátur og norrænn án þess að tapa kúlinu - þrátt fyrir að vera hluti af geiminu í ár.

Furðufugl í Mosfellsdalnum

Við mæðgur fórum í reiðtúr í dag, sem ekki er í frásögur færandi, en það er svo gaman að fylgjast með Mosfellsdalnum fyllast af fuglum þegar fer að vora og þar er t.d. oft hægt að sjá mikinn fjölda lóa við undirbúning hreiðurgerðar. Í dag sáum við undarlegan fugl, sem minnti helst á afríska fugla sem við höfum séð í dýragörðum. Hann var búkstór, á stærð við önd, en með mjóan háls og langan og mjóan gogg, og langt og þunnt stél. Það væri gaman að vita hvaða fugl þetta var og hvaðan hann kom. Þasð hafa löngum fundist furðufuglar í Mosfellsdalnum, eins og má t.d. lesa um í Innansveitarkróníku Laxness!

Borgað fyrir lífsreynslusögur - líka á Íslandi?

Þrátt fyrir bann við því að bresku hermennirnir sem voru í haldi Írana selji fjölmiðlum sögu sína, er svo kristaltært í mínum huga að það bann má sín lítils gegn ofurkrafti fjölmiðla og skemmtanabransans. Hvort sem það verður í spjallþætti, þar sem þeir segja krassandi sögur eða nota sjónvarp sem áfallahjálp og gráta úr sér augun, eða í formi nýrrar spennumyndar, þá mun sagan verða sögð. Og fjölmiðlar munu borga fyrir hana. Þannig gerast kaupin á Eyrinni. Þetta er líka orðið þekkt hér á landi, þótt hitt sé sem betur fer enn normið. Svo er það líka algengt hér að fólk borgi fjölmiðlunum fyrir að taka viðtal við það, og þykir eðlilegt sem PR þjónusta.
mbl.is Breska varnarmálaráðuneytið bannar hermönnum að selja sögur sínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur Bláa Lónið annað fjöldanum?

Páskarnir hafa að mestu farið í letilíf og vellíðan hjá fjölskyldunni, við duttum í púsl, þið vitið þetta sem er "öfugt" þannig að maður sér ekki myndina heldur á að púsla það sem fólkið á myndinni á kassanum sér. Þetta er mjög skemmtilegt og verðugt verkefnið fyrir okkur öll! Byrjaði páskana samt á að vera mjög aktív og fór í reiðtúr á miðvikudag og á skírdag og var með matargesti föstudaginn langa í humarsúpu, laugardag í lambalæri og páskadag í hangikjöti. Á föstudaginn langa brugðum við okkur svo í Bláa Lónið í sólinni. Þar standa yfir framkvæmdir þannig að aðstaðan er vægast sagt hræðilegt. Svo koma páskar, ferðamenn farnir að tínast til landsins, en Íslendingar líka fjölmennir í Lóninu vegna frísins og góða veðursins. Fjöldinn og aðstöðuleysið kemur því miður niður á upplifuninni, þótt maður geti að mestu slappað af úti í Lóninu sjálfu. Að öðru leyti er þetta eins og að vera á járnbrautastöð á annatíma. Ekki gott. Samt pössuðum við að vera ekki á þeim tíma sem transit farþegarnir eru hvað fjölmennastir, því það er hræðilegt. En nóg um það í bili. Vonandi verður framkvæmdum hraðað þannig að þjónustan verði komin í samt lag fyrir sumarið.

Háðsleg uppástunga

Þetta er kaldhæðin uppástunga hjá prófessornum, en það er ekki laust við að manni renni kalt vatn milli skinns og hörunds þegar lýsingin er lesin. Þetta hljómar helst eins og upplag í krassandi tölvuleik, og við skulum vona að enginn raunveruleikafirrtur valdamaður taki hugmyndina alvarlega!?
mbl.is Nær að sprengja Ísland en Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaman að fljúga

Flug er öruggur, þægilegur og fljótlegur ferðamáti, vilji maður skoppa milli heimshluta. Það er líka frekar skemmtilegt að fljúga og allt í kringum flug hefur alltaf verið ákaflega skemmtileg upplifun í hvert sinn. Þess vegna finnst mér svo óendanlega óréttlátt, að þegar flug var um það bil að verða gallalaust og þægilegra en nokkru sinni fyrr (rétt fyrir aldamótin), þá plöntuðu hryðjuverkamenn fræi tortryggni í flóru flugsamgangna, og síðan þá er eins og reynt sé að gera skipulagið í kringum flugið eins óþægilegt og hægt er. Ég þreytist seint að tala um þetta, því þetta fer svo í mig. Fyrst voru það oddhvöss tól, og núna er það vökvi af öllu tagi sem gerður er upptækur við innritun í flug. Í síðustu ferð minni voru flugvallarstarfsmenn svo uppteknir af sturtusápunni minni að þeir hirtu ekkert um naglaþjölina, sem er í lengra lagi og úr málmi. Svo er búið að taka stálhnífapörin upp aftur. Hverju verður tekið upp á næst? Það fer væntanlega eftir útspili þeirra sem hófu þennan leiðindaleik!
mbl.is Farþegaflug aldrei verið öruggara en nú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gagnslausar spurningar?

Þetta minnir mig á spurningarnar sem maður þarf að svara til að komast inn í Bandaríkin! Spurningarnar sem slíkar virka ákaflega hjákátlegar, því það væri undarlegt að einhver væri að sækjast eftir þjónustu þar sem ákveðin skilyrði eru sett, en myndi síðan skemma það fyrir sér með því að ljóstra upp um sig. Í því ljósi hef ég alltaf hlegið með sjálfri mér að svona spurningum. Hins vegar má lita á þetta frá hinni hliðinni, því með stórauknum alþjóðaviðskiptum og aukinni vitund manna um Ísland og möguleika þess, þá er aldrei að vita nema óprúttnir aðilar myndu nýta landið og fjármálakerfið til peningaþvættis. Við getum ekki stungið hausnum í sandinn með slíkt. Það þyrfti kannski að finna aðra aðferð en þessar beinu, undarlegu spurningar, sem ég get ekki ímyndað mér að skili árangri.  
mbl.is „Ertu hryðjuverkamaður?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugferðir í friði og ró

Til hvers ætti að leyfa notkun farsíma í flugi? Getið þið ímyndað ykkur 200-400 manns í þessu litla rými, símar hringjandi og fólk talandi um viðskipti eða persónuleg málefni. Þetta er algjör óþarfi, fyrir utan það að flugferðir eru kærkomið tækifæri til að slappa af frá símaamstri og erindum. Ég lít á flugerðir þannig, að maður er þarna í ákveðinn tíma og getur ekki annað, og því ekki að nota tímann til að lesa góða bók, tímarit eða fara yfir verkefni ferðarinnar í friði og ró, ef um vinnuferð er að ræða. Nú svo má bara borða og fá sér síðan hænublund! Getur fólk ekki sleppt símunum í nokkra klukkutíma? Og hvað ef erindið er áríðandi? Maður skreppur tæpast nokkuð frá?! Þá er alveg eins gott að vita ekkert af því fyrr en maður lendir.
mbl.is Farsímar verða ekki leyfðir í bandarískum flugvélum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um höfuðslæður múslima og sexý nærföt

Muslim womanFjöldi innflytjenda af arabískum uppruna hefur aukist í Brussel undanfarið, en ég tók sérstaklega eftir því núna þar sem það er frekar langt síðan ég var hér síðast. Á leið frá lestarstöðinni á hótelið gekk ég eftir götu sem heitir Rue Brabant, en þar eru margar verslanir í eigu múslímskra innflytjenda. Verslanirnar selja vefnaðarvöru og heimilisvöru og er þeim mörgum stýrt af konum, sem eru þá oftast klæddar á vestrænan máta, en með slæðu um höfuðið. Viðskiptavinirnir í verslunum á Rue Brabant eru líka aðallega konur, glæsilegar og fallega málaðar en með slæðu yfir hárinu. Í búðargluggum var víða stillt út höfuðgínum með fallegar, vandaðar slæður í öllum litum og mynstrum, en í sumum gluggum var stillt út svaka sexý nærfatnaði við hliðina á slæðunum.

red lingerieÍ einum glugganum voru t.d. rauðar efnislitlar brækur með glitrandi palíettum og rauður brjóstahaldari ásamt slæðum tilað hylja hárið. Þetta virkar tvíbent, mér fannst þetta mjög sérstakt og langaði mest að taka mynd af besta búðarglugganum, til menningarlegra rannsókna. Eru múslimakonur í sexý fötum undir kuflum og slæðum?  Eru þetta vestræn áhrif? Er þetta kannski hluti af menningunni? Hvers vegna er haldið í þann sið að hylja hárið ef manneskjan er síðan klædd á vestrænan máta, í gallapilsi og kafmáluð? Er þetta það sem koma skal, eftir því sem menningarheimarnir blandast?


Íslandsmet!

Til hamingju Ragga! Áfram Ísland, - áfram KR!!

mbl.is Ragnheiður setti Íslandsmet en Jakob Jóhann dæmdur úr leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband