Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Græddum heilan dag í dag

Í dag er merkilegur dagur, aukadagur, alveg ókeypis, okkur til afnota að njóta og nýta. Hann var fallegur, bjartur og fagur þessi dagur. Ég fíla 29. febrúar. Til hamingju með hlaupársdaginn!

Fjallbaksleið til Aþenu

Snow on AcropolisÉg lagði land undir fót í gær, sem ekki er svo sem í frásögur færandi, og var á leið á tveggja daga fund í Aþenu. Það er nú ekki heiglum hent að komast til Grikkjaveldis þar sem flugsamgöngur þangað eru örugglega stopulli en rútuferðir um fjallbaksleið nyrðri. Lausnin var að fljúga til Köben á sunnudagskvöldi, gista þar og fara áfram til Aþenu á mánudagsmorgun. Þegar ég svo mætti á Kastrup kom í ljós að allt flug til Aþenu hafði verið fellt niður. Starfsmaður SAS sagði mér kíminn að það hefði snjóað aðeins í borginni og þess vegna hafi flugvellinum hreinlega verið lokað og ekki væri hægt að lenda í borginni. Eftir að hafa kannað allar leiðir til að komast var ljóst að ég myndi í öllum tilfellum missa af fundinum. Því var ekki um annað að ræða en snúa við heim. Ég verð nú að játa að það var pínu kjánalegt að fara svona tilgangslausan flugrúnt út í heim og aftur til baka bara vegna þess að Grikkir eru ekki "ávallt reiðubúnir" eins og skátarnir...

Lækning á minnistapi í sjónmáli?

Læknar í Kanada gerðu óvart þessa uppgötvun í miðri heilaskurðaðgerð: Lesið um það hér, þetta er ótrúlegt!

Leikhúsin að gera góða hluti

LeikhúsFrábært framtak hjá leikhúsunum að bjóða upp á ódýrari miða fyrir börn og ungt fólk. Þetta ýtir við manni að drífa sig að sjá það sem mann langaði að sjá í vetur og taka börnin með. Ég hringdi í dag og pantaði miða á nokkrar sýningar í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu svo við mæðgur verðum á leikhúsmaraþoni út febrúar! Við ætlum að sjá Ívanov á morgun, Sólarferð eftir tvær vikur og svo eina eða tvær sýningar uppi í Kringlu þar á milli. Reyndar hefur Borgarleikhúsið lengi haft ókeypis fyrir börn undir tólf ára, og ég hef nýtt mér það mikið til að menningarvæða afkvæmin og farið með þær að sjá hin ólíkustu leikverk. Þær eru alltaf til í að fara á leikhús, ég er mjög ánægð með hvað þær eru opinhuga gagnvart því. Núna eru þær orðnar pínu eldri, svo þetta kemur sér vel. Þótt það sé ekki aðalmálið með verðið, þá er það nú bara þannig, að svona tilboð virkar eins og pot til að minna mann á að drífa sig í leikhús.

Æðislegt veður, yndislegur mánuður!

EsjanGleðilegan febrúar gott fólk! Útsýnið úr glugganum á nýju skrifstofunni minni er slíkt, að þar blasir við Esjan og Skarðsheiðin, og þvílík fegurð að horfa yfir í svona brakandi kulda og snjó! Ég læt mér þó ekki nægja að horfa út um gluggann, því ég dreif mig uppí hesthús til gegninga í gær og mokaði allt húsið ein - 30 hesta hús. Mjög hressandi og gefur manni beina jarðtengingu, slökun og vellíðan. Holdhnjóskarnir farnir að losna og skeifurnar komnar undir klárana. Svo er kominn febrúar, pælið í því hvað það er geggjað! Öll afmælin í fjölskyldu- og vinahópi framundan, mitt sjálfrar í enda mánaðarins og það gerir ekkert annað en birta til. Er einhver ástæða til að vera annað en glimrandi bjartsýnn?

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband