Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
21.12.2007
Jólin koma...
Ég er komin í jólafrí þangað til 3. janúar 2008 og ætla að njóta dagana sem framundan eru með fjölskyldu, vinum, hrossum og gæludýrum heimilisins. Stöðug boð framundan, heima og heiman, þá er ég í essinu mínu! Búið að redda heimilisvandræðum þeirra Hrafns og Funa (hestarnir okkar), búið að kaupa langflestar jólagjafirnar og núna sit ég við eldhúsborðið og ætla að skipuleggja restina. Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og hamingju á nýju ári!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.12.2007
Bók andlitanna á netinu
Af því ég gef mig nú út fyrir að vera frekar svona tæknitengd og tölvuvædd miðað við að hafa verið unglingur "in the eighties" og gengið í framhaldsskóla sem trúði ekki á að tölvur myndu nokkurn tíma gera gagn, þá skráði ég mig á Facebook fyrir nokkru síðan. Nennti svo ekkert að gefa því meiri gaum fyrr en í síðustu viku að ég staðfesti skráninguna og opnaði mína eigin andlitsbók. Ég verð að játa að ég skil ekki alveg allt. Grunntilgangurinn, í mínum huga, er networking. En fyrir utan það, þá er ég hrædd um að svona dót ræni mig mikilvægum tíma. Ég byrjaði t.d. á að opna forrit sem felst í að merkja inn staði sem maður hefur komið á í heiminum. Ég hélt að þetta væru löndin, en komst að því að þetta voru allar borgir og bæir í öllum héruðum og svæðum heims. Eins og alþjóð veit, var ég fararstjóri í sólarlöndum um nokkurra ára skeið þannig að lítill blettur í heiminum eins og Mallorca fyllti strax vel upp í kvótann. Þegar ég var komin upp í 140 staði, börnin farin að sofa án þess að ég vekti því athygli og klukkan þaut yfirum miðnætti, þá gafst ég upp. Hver hefur tíma í þetta?! Samt er ég farin að leita að fólki á Facebook en lofa sjálfri mér að eyða ekki of miklum tíma í þetta. Enda er ég á kafi í vinnu, verkefnum, námi og ferðalögum. En ef þið eruð með Facebook, viljið þið vera vinir mínir?
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2007
Síríuslengjan bjargar ferðinni
Það verður nú að segjast, að það er ekki alltaf þægilegt að ferðast á almennu farrými í þröngum flugvélum fullum af farþegum í misjöfnu veðri og oftast á ókristilegum tímum eins og ég hef gert nokkrum sinnum í haust. Það er ekki einu sinni hægt að taka upp Makkann og nota tímann til að vinna, svo lítið er plássið og olnbogarýmið. EN mitt í öllum óþægindunum, þá bíð ég í ofvæni eftir bjargvættinum: SÍRÍUSLENGJUNNI sem nú fylgir næstum alltaf með matnum um borð. Algjör snilld. Meira af þessu Icelandair! En ég veit ekki hvað ég geri ef ég sé köldu skinkuna einu sinni enn, sem fluffurnar fegra með því að kalla "hamborgarhrygg"! Þá vil ég heldur fá átta Síríuslengjur, kók og kaffi.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)