Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2006

Þjóðin sem svaf yfir sig

Frábær grein Stefáns Mána, "Bakkafullur lækur" í Lesbókinni laugardaginn, 12.ág. segir það sem ég vildi segja um Kárahnjúkamálið ákkúrat núna. Greinin lýsir því hvernig fólk er orðið ringlað af því að hlusta á rök með og á móti, en það sem við stöndum í raun frammi fyrir er að þetta er orðið að veruleika, og þjóðin situr og fylgist með hvernig "skaðinn er skeður en samt er hann ekki skeður". Dramatískt, spennandi, ógnvænlegt, sorglegt? En við sofnuðum ekki aðeins á verðinum, heldur sváfum öll yfir okkur.

Auglýsing um afhommun

Mér svelgdist illilega á ristaða brauðinu í morgun þegar ég sá heilsíðuauglýsingu í Mogganum frá einhverjum hóp kristinna trúfélaga. Yfirskriftin er: "Frjáls... úr viðjum samkynhneigðar". Er ekki í lagi með fólk? Er virkilega til einhver sem heldur því fram að hægt sé að þvinga einstaklinga til að vera annað en þeir sjálfir?! Maður veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta. Kannski væri ráð að draga andann djúpt og líta á þetta sem brandara á þessum annars gleðidegi, þegar ástæða er til að fagna leiðréttingu mikilvægra mannréttinda með samkynhneigðum.

Ferðagleðin eyðilögð

Öfgafullir íslamstrúarmenn hafa eyðilagt fyrir mér jákvæðustu hliðar alþjóðavæðingarinnar, sem sneru að því hvað ferðalög voru orðin auðveld. Landamæri eru nú aftur orðin sýnilegri, tortryggni svífur yfir vötnum í ferðalögum og ferðagleðin líður fyrir það. Hvers vegna þessi stefna, að ráðast á samgöngutæki eins og flugvélar og lestar? Heimskulegur óþarfi, eins og allar slíkar deilur eru!

Bodies

Ég vona að læknar séu almennt ekki í svona svakalegri andlegri krísu eins og gefið er til kynna í Bodies, læknaþættinum í Sjónvarpinu. Á milli fúlheita og persónulegra vandamála sem klárlega hafa áhrif á starf þeirra, eru sýndar afar nákvæmar myndir af fæðingum, keisaraskurðum, legkökum, fæðingarvegi, o.s.frv. Það er skemmtilegi hlutinn! Svo er endalaus samkeppni milli illa upplagðra læknanna sem skipta mun meira máli en líf sjúklinga. Hjúkrunarfólk og starfsfólk sjúkrahússins eru sem betur fer í lagi. Ágætis mótvægi við aðra læknaþætti!

Högg og holur = golf?

Hvað er málið? Um helgina var höggkeppni og núna er holukeppni?! Er þetta ekki allt golf? Er hægt að vera Íslandsmeistari í höggum en ekki í holum? Hver er eiginlega munurinn? Snýst þetta ekki allt um að slá högg og hitta kúlu í holu?!
mbl.is Íslandsmótið í holukeppni hefst á morgun í Grafarholti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfgarnar í Kína

Hundaeign hefur farið ört vaxandi í Kína og er þar greinilega allt leyfilegt, öfganna á milli, allt frá því að hundar eru klæddir í föt og sendir í sundskóla til þess að allt í lagi sé að berja þá til dauða ef það hentar. Það er hræðilegt til þess að hugsa að engin landslög fjalli um hvernig meðferð dýra skuli háttað í svona stóru landi.


mbl.is 50.000 hundum lógað í Kína vegna hundaæðisfaraldurs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband