Um daginn var ég á leið til Brussel sem oft áður. Eins og hlýðinn þegn, setti ég allar hreinlætisvörur í vökvaformi í plastpoka, til að þurfa ekki að verða fyrir þeirri niðurlægingu að láta einhvern kall róta í snyrtibuddunni minni, eins og kom fyrir þegar ég var ekki búin að venjast vökvahræðslunni. Samt lendi ég alltaf í því að morgunkaffið mitt (1/2 l. dæet kók) er gert upptækt við öryggishliðið. Ég geri samt alveg í því að sturta í mig dreggjunum úr flöskunni og tollverðir bíða þolinmóðir á meðan ég innbyrði mögulegan sprengivökvann. En semsagt, þar sem ég sat í seinni vélinni frá Köben til Brussel, tók konan við hliðina á mér upp prjónana og sat allan tímann og bætti vel í peysuna sem hún var með á prjónunum! Já, nú þegar öllum er orðið sama um naglaþjalir og ofuráhersla lögð á að gera snyrtipinnum erfitt að ferðast með því að taka af þeim allar hreinlætisvörur, þá fer fólk bara um borð með prjóna eins og ekkert sé! Það er ekkert samræmi í þessu og það eina sem hefur gerst er að fólki er gert eins erfitt og leiðinlegt og mögulegt er að ferðast. Samt hefur fólk aldrei ferðast meira.
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:37 | Facebook
Athugasemdir
Þetta öryggis rugl er komið út í öfgar.
Gunnar Helgi Eysteinsson, 1.12.2007 kl. 22:58
Það "besta" við þetta er að vísindalegi grundvöllurinn fyrir mögulegum vökvasprengjum í flugvélum er vægast samt mjög vafasamur, þar sem margir hafa bent á það að væri afar erfitt, ef ekki ómögulegt, að blanda slíka sprengju um borð í flugvél. Viðkomandi þyrfti að hafa alls konar búnað, sem ekki væri auðvelt að koma með í handfarangri.
Ótrúlega pirrandi.
Svala Jónsdóttir, 2.12.2007 kl. 19:56
ÓÞOLANDI með öllu!
Ég ætti að heimta til baka bastprjóninn sem var rifinn úr hálfprjónaðri peysu á Heatthrow fyrir nokkrum árum!
Svo er maður orðinn hálfberrassaður (beltislaus, hárgreiðslulaus, skólaus ....) fyrir framan þessar nasistalegu securitaskonur og -karla sem eru klædd einhverjum púffúlpum svo þau líti út fyrir að vera vöðvastæltari. Fáránlegar reglur og vekja ekki með manni öryggiskennd að nokkru leiti.
Kær kveðja :-)
Laulau (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 12:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.