Færsluflokkur: Dægurmál

Fjallbaksleið til Aþenu

Snow on AcropolisÉg lagði land undir fót í gær, sem ekki er svo sem í frásögur færandi, og var á leið á tveggja daga fund í Aþenu. Það er nú ekki heiglum hent að komast til Grikkjaveldis þar sem flugsamgöngur þangað eru örugglega stopulli en rútuferðir um fjallbaksleið nyrðri. Lausnin var að fljúga til Köben á sunnudagskvöldi, gista þar og fara áfram til Aþenu á mánudagsmorgun. Þegar ég svo mætti á Kastrup kom í ljós að allt flug til Aþenu hafði verið fellt niður. Starfsmaður SAS sagði mér kíminn að það hefði snjóað aðeins í borginni og þess vegna hafi flugvellinum hreinlega verið lokað og ekki væri hægt að lenda í borginni. Eftir að hafa kannað allar leiðir til að komast var ljóst að ég myndi í öllum tilfellum missa af fundinum. Því var ekki um annað að ræða en snúa við heim. Ég verð nú að játa að það var pínu kjánalegt að fara svona tilgangslausan flugrúnt út í heim og aftur til baka bara vegna þess að Grikkir eru ekki "ávallt reiðubúnir" eins og skátarnir...

Lækning á minnistapi í sjónmáli?

Læknar í Kanada gerðu óvart þessa uppgötvun í miðri heilaskurðaðgerð: Lesið um það hér, þetta er ótrúlegt!

Leikhúsin að gera góða hluti

LeikhúsFrábært framtak hjá leikhúsunum að bjóða upp á ódýrari miða fyrir börn og ungt fólk. Þetta ýtir við manni að drífa sig að sjá það sem mann langaði að sjá í vetur og taka börnin með. Ég hringdi í dag og pantaði miða á nokkrar sýningar í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu svo við mæðgur verðum á leikhúsmaraþoni út febrúar! Við ætlum að sjá Ívanov á morgun, Sólarferð eftir tvær vikur og svo eina eða tvær sýningar uppi í Kringlu þar á milli. Reyndar hefur Borgarleikhúsið lengi haft ókeypis fyrir börn undir tólf ára, og ég hef nýtt mér það mikið til að menningarvæða afkvæmin og farið með þær að sjá hin ólíkustu leikverk. Þær eru alltaf til í að fara á leikhús, ég er mjög ánægð með hvað þær eru opinhuga gagnvart því. Núna eru þær orðnar pínu eldri, svo þetta kemur sér vel. Þótt það sé ekki aðalmálið með verðið, þá er það nú bara þannig, að svona tilboð virkar eins og pot til að minna mann á að drífa sig í leikhús.

Æðislegt veður, yndislegur mánuður!

EsjanGleðilegan febrúar gott fólk! Útsýnið úr glugganum á nýju skrifstofunni minni er slíkt, að þar blasir við Esjan og Skarðsheiðin, og þvílík fegurð að horfa yfir í svona brakandi kulda og snjó! Ég læt mér þó ekki nægja að horfa út um gluggann, því ég dreif mig uppí hesthús til gegninga í gær og mokaði allt húsið ein - 30 hesta hús. Mjög hressandi og gefur manni beina jarðtengingu, slökun og vellíðan. Holdhnjóskarnir farnir að losna og skeifurnar komnar undir klárana. Svo er kominn febrúar, pælið í því hvað það er geggjað! Öll afmælin í fjölskyldu- og vinahópi framundan, mitt sjálfrar í enda mánaðarins og það gerir ekkert annað en birta til. Er einhver ástæða til að vera annað en glimrandi bjartsýnn?

Hvaða ameríski bíll er þessi Mörrseidís?

Mercedes BenzHvers vegna þarf Benz-umboðið að breyta umræðunni, nafninu og framburði á nafni bílategundarinnar sem það selur? Hvers vegna eigum við, hér á Íslandi, sem alltaf höfum talað um Benz eða Mercedez Benz, allt í einu að tala um "MÖRRSEIDÍS"?!, samanber auglýsingar sem ganga á öldum ljósvakans nú um stundir. Sagan sem ég heyrði af þessum bíl er að þýskur náungi, að nafni Benz, hafi orðið ástfanginn af suður-amerískri konu (argentískri held ég) sem hét Mercedes (borið fram "merseðes") og því kallaði hann bílinn Mercedes-Benz. Hér á landi hefur bílategundin alltaf verið kölluð Benz til styttingar. En Mörrseidís, með amerískum framburði og rúllandi tungu-erri... fíla það ekki alveg.

Jólin koma...

Gleðileg jólÉg er komin í jólafrí þangað til 3. janúar 2008 og ætla að njóta dagana sem framundan eru með fjölskyldu, vinum, hrossum og gæludýrum heimilisins. Stöðug boð framundan, heima og heiman, þá er ég í essinu mínu! Búið að redda heimilisvandræðum þeirra Hrafns og Funa (hestarnir okkar), búið að kaupa langflestar jólagjafirnar og núna sit ég við eldhúsborðið og ætla að skipuleggja restina. Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og hamingju á nýju ári!

Öryggisráðstafanir í flugvélum: eitt í dag og annað á morgun

Um daginn var ég á leið til Brussel sem oft áður. Eins og hlýðinn þegn, setti ég allar hreinlætisvörur í vökvaformi í plastpoka, til að þurfa ekki að verða fyrir þeirri niðurlægingu að láta einhvern kall róta í snyrtibuddunni minni, eins og kom fyrir þegar ég var ekki búin að venjast vökvahræðslunni. Samt lendi ég alltaf í því að morgunkaffið mitt (1/2 l. dæet kók) er gert upptækt við öryggishliðið. Ég geri samt alveg í því að sturta í mig dreggjunum úr flöskunni og tollverðir bíða þolinmóðir á meðan ég innbyrði mögulegan sprengivökvann. En semsagt, þar sem ég sat í seinni vélinni frá Köben til Brussel, tók konan við hliðina á mér upp prjónana og sat allan tímann og bætti vel í peysuna sem hún var með á prjónunum! Já, nú þegar öllum er orðið sama um naglaþjalir og ofuráhersla lögð á að gera snyrtipinnum erfitt að ferðast með því að taka af þeim allar hreinlætisvörur, þá fer fólk bara um borð með prjóna eins og ekkert sé! Það er ekkert samræmi í þessu og það eina sem hefur gerst er að fólki er gert eins erfitt og leiðinlegt og mögulegt er að ferðast. Samt hefur fólk aldrei ferðast meira.

Heimilislausir hnjóskóttir hestar

DSC09996Hvað gerir maður þegar hesturinn manns er allt í einu heimilislaus? Tekur hann heim í Vesturbæinn og býr um hann í bílskúrnum? Við erum semsagt að missa hesthúsaplássið í Mosfellsdalnum og sáum fram á að taka hestana inn um áramótin á nýjan stað. En vegna veðurfarsins í haust eru hestarnir okkar allir í holdhnjóskum og því þarf að taka þá inn 6-8 vikum fyrr en vanalega, eða um síðustu helgi í stað áramótanna. En ég er ekki enn búin að tryggja pláss! Þabbaraþa, nú liggja Danir í því!

Óþarft átak

Ég hef aldrei vitað eins óþarft átak og gervi-tilstand eins og á bak við fréttina í kvöld um að "nú ætli krakkar að ganga eða hjóla í skólann" í takt við eitthvað evrópskt átak, og tekið dæmi af míkróbænum Seltjarnarnesi, þar sem skólinn er uppi á hæð og allir búa innan við 100 metra í kringum þann hól. Síðast þegar ég vissi, þá tíðkaðist að börn væru í hverfisskólum á Íslandi, nema með einstaka undantekningum. Það er einfaldlega ekki hægt annað en ganga í skólann! Við þurfum ekki að taka öll átök beint upp eftir öðrum þjóðum þar sem aðstæður barna eru allt aðrar og oft frelsisheftandi. Ég skil ekki hvernig er hægt að hugsa sér að keyra börn í skólann við okkar aðstæður. Það myndi bara breyta þeim í ósjálfstæða eymingja. 

Bissí mánuður

Var að fatta að ég hef ekki bloggað í mánuð, enda hefur verið mjög mikið að gera í september. Ný vinna og næg verkefni, ferðalög og lærdómur, allt í einum hrærigraut. Það er eins og september sé upphaf að svo mörgu, undirbúningur undir virkni vetrarins. Sumarið er búið, og punkturinn var settur aftan við það með ýmsu eins og síðasta heimaleiknum í gær (við erum alla vega í deildinni...), hestarnir komnir á fjall, laufin farin að falla og börnin komin á fullt í skólanum og öllu öðru. Þetta verður skemmtilegur vetur!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband