Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Lækning á minnistapi í sjónmáli?

Læknar í Kanada gerðu óvart þessa uppgötvun í miðri heilaskurðaðgerð: Lesið um það hér, þetta er ótrúlegt!

Bók andlitanna á netinu

Af því ég gef mig nú út fyrir að vera frekar svona tæknitengd og tölvuvædd miðað við að hafa verið unglingur "in the eighties" og gengið í framhaldsskóla sem trúði ekki á að tölvur myndu nokkurn tíma gera gagn, þá skráði ég mig á Facebook fyrir nokkru síðan. Nennti svo ekkert að gefa því meiri gaum fyrr en í síðustu viku að ég staðfesti skráninguna og opnaði mína eigin andlitsbók. Ég verð að játa að ég skil ekki alveg allt. Grunntilgangurinn, í mínum huga, er networking. En fyrir utan það, þá er ég hrædd um að svona dót ræni mig mikilvægum tíma. Ég byrjaði t.d. á að opna forrit sem felst í að merkja inn staði sem maður hefur komið á í heiminum. Ég hélt að þetta væru löndin, en komst að því að þetta voru allar borgir og bæir í öllum héruðum og svæðum heims. Eins og alþjóð veit, var ég fararstjóri í sólarlöndum um nokkurra ára skeið þannig að lítill blettur í heiminum eins og Mallorca fyllti strax vel upp í kvótann. Þegar ég var komin upp í 140 staði, börnin farin að sofa án þess að ég vekti því athygli og klukkan þaut yfirum miðnætti, þá gafst ég upp. Hver hefur tíma í þetta?! Samt er ég farin að leita að fólki á Facebook en lofa sjálfri mér að eyða ekki of miklum tíma í þetta. Enda er ég á kafi í vinnu, verkefnum, námi og ferðalögum. En ef þið eruð með Facebook, viljið þið vera vinir mínir? Grin

Glærukynningar - of mikið af því góða?


Síminn segir ekki alla söguna í auglýsingum

Loksins sá ég fram á að geta haft sjónvarpið þar sem ég vildi hafa það í stofunni, því með því að taka sjónvarpið í gegnum netttenginguna mína hjá Símanum, heyra loftnetin sögunni til! Eða svo er haldið fram í auglýsingunni frá fyrirtækinu. Engin loftnet, því það er hægt að ná öllu í gegnum netið. með betri myndgæðum að auki! Ég breytti því uppröðun í stofunni, færði sjónvarpið og settist til að horfa á báða fréttatímana, eins og flestir fréttaþyrstir Íslendingar gera. En þá kom í ljós að ekki er öll sagan sögð með auglýsingunni. Ég get ekki horft á fréttir Stöðvar 2 og Ísland í dag. Maður þarf semsagt að vera áskrifandi til að geta horft á ólæsta dagskrá í gegnum sjónvarp Símans. Þar með missir Stöð 2 alla hina, sem horfa á fréttir stöðvarinnar. Getur einhver stoppað þetta fólk í auglýsingunni, sem er að saga niður loftnetin sín, og sagt þeim að þau gætu séð eftir þessu!!



Stóriðja í takt við tímann

Sú hugmynd, að bjóða erlendum veffyrirtækjum að setja hér upp netþjónabú, er líklega besta hugmyndin sem fram hefur komið í umræðunni um iðnaðaruppbyggingu og orkunýtingu. Hér væri um að ræða umhverfisvænan iðnað sem tæki ekki mikið pláss og mengaði lítið sem ekkert. Hægt væri að koma orkunni í verð, eins og stjórnmálamenn okkar virðast fyrir alla muni vilja gera, þjóðarbúið fengi tekjur af einhverju öðru en þorski og áli, og ekki verra að loks myndi kuldinn og vindurinn nýtast okkur sem söluvara. Þetta kalla ég stóriðju í lagi!
mbl.is Kostnaður við orku til netþjónabús 20-30% lægri hér en í samkeppnislöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munið þið eftir kasettunum?

Ég man hve merkilegt mér fannst að eignast kasettutæki með hljóðnema, en það var notað til að taka upp endalaust blaður og vitleysu sem svo var spilað aftur og aftur. Rosalega fannst okkur vinkonunum á Framnesveginum við vera fyndnar!
Ég man eftir að hafa safnað kasettum og tekið yfir þær aftur og aftur.
Ég man eftir að hafa keypt sérstaka kasettugrind í skápinn minn, til að geta raðað kasetttunum í.
Ég man eftir að hafa stillt kasettutækinu upp fyrir framan útvarpið, gjarna við Kanaútvarpið eða Lög unga fólksins, og heimtað grafarþögn þegar lög voru tekin upp.
Ég man eftir að hafa sent kasettur milli landa í stað bréfa, með blaðri og slúðri.
Ég man eftir að hafa smyglað kasettutækinu inn í Háskólabíó í rauðu íþróttatöskunni minni (sem var keypt í Sport á Laugavegi 13 og merkt búðinni) og tekið upp heilar bíómyndir, eins og t.d. Grease.
Ég man eftir þegar kasettur flæktust í tækinu og maður þurfti að losa bandið ofurvarlega til að slíta það ekki.
Ég man þegar tækninni fleygði fram, þá blandaði ég tónlist á kasettur og skírði þær nöfnum eins og "Rólegt", "Stuð" eða "Blandað", á svipaðan hátt og maður býr til spilunarlista á ipod í dag.
Ég man eftir hreinsispólunum sem maður keyrði í gegnum kasettutækið með vissu millibili.
Ég man þegar myndbandsspólurnar bættust við - hvenær ætli þeirra tími líði undir lok?!
mbl.is Dagar hljóðsnældunnar taldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugferðir í friði og ró

Til hvers ætti að leyfa notkun farsíma í flugi? Getið þið ímyndað ykkur 200-400 manns í þessu litla rými, símar hringjandi og fólk talandi um viðskipti eða persónuleg málefni. Þetta er algjör óþarfi, fyrir utan það að flugferðir eru kærkomið tækifæri til að slappa af frá símaamstri og erindum. Ég lít á flugerðir þannig, að maður er þarna í ákveðinn tíma og getur ekki annað, og því ekki að nota tímann til að lesa góða bók, tímarit eða fara yfir verkefni ferðarinnar í friði og ró, ef um vinnuferð er að ræða. Nú svo má bara borða og fá sér síðan hænublund! Getur fólk ekki sleppt símunum í nokkra klukkutíma? Og hvað ef erindið er áríðandi? Maður skreppur tæpast nokkuð frá?! Þá er alveg eins gott að vita ekkert af því fyrr en maður lendir.
mbl.is Farsímar verða ekki leyfðir í bandarískum flugvélum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg sjálfspíningarhvöt

Fyndið að lesa umræðu um Vista stýrikerfið og þurfa að heyra að tölvur "krassi" hjá vinum sínum eða að fólk eyði heilu og hálfu dögunum í vírusskann, en ég heyrði um þetta bæði í dag. Hvað er þetta eiginlega? Er fólk yfirleitt að nota PC vélar ennþá?!? Það er undarlegt í ljósi þess að: 1. þær virka aldrei eins og maður vill og stýrikerfið sem þær flestar keyra á er gallagripur frá upphafi og 2. það hafa verið til betri vélar í 20 ár sem byggja á þeirri hugmyndafræði að tölvur eigi ekki að vera með vesen, heldur bara að virka fyrir mann. Þær heita Apple Macintosh. Eignist líf, losið ykkur við vandamálin, hættið að pína ykkur, frelsist!

Þroskasaga kirkjunnar

Kirkjan og þróun trúmála eru mér hugleikin efni um þessar mundir, annars vegar vegna þess að þetta er annar veturinn sem ég sæki kirkju reglulega þar sem ég er að ferma afkvæmin, og hins vegar vegna þess að ég held að allir sem hafa áhuga á alþjóðastjórnmálum hljóti að fylgjast með trúmálum á alþjóðavettvangi, þar sem þau eru oft afsakanir fyrir stríðum og glæpum.
Hugmyndir um að sameina kirkjudeildir kristinnar kirkju eru ákaflega áhugaverðar að mínu mati, sérstaklega þar sem það myndi vera merki um ákveðinn þroska og gagnkvæman skilning kristins samfélags. Mér finnst líka áhugaverðar kenningar þess efnis að siðbót í ætt við þá sem M.Lúter stóð fyrir í kristinni kirkju, hafi enn ekki átt sér stað í trúarsamfélagi múslíma, og því vanti upp á ákveðinn þroska þess samfélags sem notar gjarna trú sem skálkaskjól fyrir rangtúlkanir og samfélagslega glæpi á borð við ofsóknir. Ef við skoðum trúna í tímalegu samhengi, þá ætti kannski að fara að koma að slíkri umbreytingu, þótt hún virðist reyndar ekki vera í sjónmáli!
Kirkjuhefðir á Íslandi hafa líka þroskast mikið undanfarin ár og get ég altént hrósað prestum í Nesirkju fyrir að hafa leitt kirkjuna inn í nútímann án allrar helgislepju. Þar er talað um dægurmál, mannleg samskipti skoðuð, boðið upp á tónleika, börnin látin njóta sín og svo er hlegið hjartanlega og klappað. Halelúja!

Ólaður niður allan tímann í flugvélum

Airplane seatMaður hefur varla við að fylgjast með breyttum kröfum í flugferðum. Undanfarið hef ég tekið eftir aukinni áherslu á að sitja kyrr í sætinu með sætisbeltin spennt, helst allan tímann. Þar áður var mikil áhersla lögð á að hreyfa sig sem mest um farþegarýmið til að ferðin hefði ekki slæm áhrif á líkamann. Það er eins og þessar reglur séu settar til að bregðast við einhverju sem gerist, frekar en þær séu rökréttar að öðru leyti. Sama má segja um tólahræðsluna og vökvabannið. En sem sagt, núna á maður helst að vera kyrr í sínu sæti og vera niðurólaður, líklega vegna þess sem nýlega gerðist um borð í vél milli Keflavíkur og Parísar. Svo maður situr bara, prúður og stilltur, getur ekki verið með vökva í neinu magni, getur ekki notað tímann til að snyrta á sér neglurnar, verður að böðlast við að skera kjúkling GordonBleu með plasthnífapörum, og svo verður maður að gjörasvovel að halda í sér þangað til lent er!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband