Færsluflokkur: Tónlist

Mögnuð sýning og upplifun í Borgarleikhúsinu - Jesus Christ Superstar

Á laugardaginn brugðum við okkur þrjár kynslóðir saman á Jesus Christ Superstar, þá frábæru rokkóperu sem er nýfarið að sýna í Borgarleikhúsinu. Sýningin var hreint út sagt frábær, mögnuð uppfærsla og geggjuð upplifun út í gegn. Það er ekki oft sem maður vill ekki að sýning endi, og ekki oft sem áhorfendur standa upp í lokin og fagna með klappi og hrópum! Ég er mikill aðdáandi verksins og hef séð þær uppfærslur sem hér hafa verið gerðar, en þessi var algjörlega frábær, enda vorum við saman þrjár kynslóðir sem allar skemmtu sér vel í sinni upplifun á verkinu. Allir sem sungu aðalhlutverkin fengu að njóta sín samkvæmt því sem hæfði þeirra hlutverki, Krummi firnagóður og trúverðugur sem Jesús og Jens feikilega sterkur sem Júdas, enda býður það hlutverk jafnan upp á mikil tilþrif. Lára var æðisleg sem María Magdalena, Ingvar sem Pílatus og Bergur sem Heródes ...og bara allir sem komu fram í sýningunni. Það skín af þeim áhuginn og vandvirknin. Og þótt gaman sé að lesa leikdóma í fjölmiðlum, þá vil ég hvetja fólk til að láta sinn eigin smekk ráða, því þetta var gæsahúð allan tímann og ég gef sýningunni 6 stjörnur af 5 mögulegum!

Landsliðið í tónlist á vellinum

Ég ætla ekkert að tjá mig um hvort bankar eiga að standa í tónleikahaldi eður ei, það er svona spurning um forgangsatriði þeirra sem eflaust má margt segja um. Nei, ég ætla bara að segja hvað mér fannst um flytjendur. 

SSSól enn í stuði, Helgi Björns klöngraðist meira að segja upp í turn og ég hafði smá áhyggjur af því að kallinn myndi fara sér að voða, en það fór ágætlega þótt klifrið hafi virkað allt annað en auðvelt fyrir hann.

Todmobile ber með sér að hittast lítið nú orðið. Koma soldið svona úr sitthvorri áttinni. Spurning að halda þeirri leið áfram og hætta þessu. Þau voru svo sterk í "den", má ekki eyðileggja það.

Bubbi mætti í Che múnderingunni og hamaðist við að vera pólitískur, gaman að honum. Hvað var þetta með gleraugun undir húfunni? Eru þetta dulbúin fjarsýnisgleraugu? Stál og hnífur klikkar ekki, það er útilegulag sem sameinar kynslóðirnar.

Garðar Thor kallaði fram gæsahúð hjá mér, sætur og intellektúal drengur með rödd sem vex og vex. Skemmdi ekki fyrir að hann söng um mína gömlu heimaborg, Granada.

Mmmm, súkkulaðistrákarnir í Luxor lofa góðu... en man reyndar ekkert hvernig þeir sungu! - en til hvers eru svona bönd nema til að vera sætir?

Nylon var kraftlaus, vantaði alla útgeislun á sviði, enda þurftu þær liðsstyrk og hlaup fram og til baka á sviðinu til að sanna að þær væru "in the house", annars gæti fólk haldið að það væri auglýsingahlé!?

Mugison er ekki alveg minn tebolli... 

Hljómsveit allra landsmanna var í stuði, Stuðmenn eru eins og harðfiskur og flatkökur í útilegu - alveg ómissandi í svona partýum. Húmorinn þannig að aðrar þjóðir skilja örugglega ekkert í því hvers vegna þeir eru vinsælir. Mátti greina einhverja austan-Alpastemmningu sem kom á óvart. Takturinn var þreytandi til lengdar og passaði ekki við gömlu lögin. Verð nú samt að viðurkenna að þeir virka soldið innantómir þegar vantar Röggu Gísla. Gaman að fá Bjögga með í lokin. Hann er náttúrulega töffari töffaranna. Ég efa að hann hafi áður komið fram í pilsi.

Páll Óskar er stuðbolti landsins, hefur ekkert fyrir því að  vera flottur. Stóð sig vel sem veislustjóri og frábært að láta hann hita upp með sínum lögum!

Já, var ekki bara gaman að þessu?! Nú er að sjá tónleika Landsbankans á morgun, Glitnir verður í hlaupinu, þannig að allir bankarnir hafa þá boðið landsmönnum upp á eitthvað skrall um helgina og munu væntanlega klappa sér á öxl fyrir það. 


mbl.is Aldrei fleiri á Laugardalsvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úti að aka

Auðvitað er það ekki aðalmálið að vera með símann í hendinni, ég meina fólk hefur alltaf verið að gera fullt annað við stýrið en að keyra. T.d. ef maður er með börn í bílnum þarf oft að nota hendur í að rétta þeim eitthvað eða jafnvel aðskilja systkini í slagsmálum í aftursæti. Nú svo er algengt að sinna snyrtingu, varalitun eða tannaplokkun, fyrir utan það að örugglega um 90% ökumanna bora í nefið við stýrið - þótt það sé aðallega gert á rauðu ljósi. Það er fleira gert á rauðu ljósi, ég á vinkonu sem kynntist manninum sínum við þær aðstæður, þannig að fólk er líka í því að daðra milli bíla. Svo er náttúrulega gott að nota tímann og gleypa í sig skyndibitann og totta gosflösku eins og er algengt. Fólk hefur alltaf hlustað á tónlist og sungið af innlifun við stýrið, og eitthvað er orðið um að bílstjórar setji sjónvarp í bílinn, við hliðína á síma- og ipod tengingum. Margir eru farnir að hlusta á hljóðbækur, sem geta vakið ýmsar tilfinningar við stýrið, og þá er ótalinn fjöldi þeirra sem býður fleirum með sér í bílinn til að tala saman. Þá eru þær samræður væntanlega jafnhættulegar og símablaður, eða hvað?
mbl.is Handfrjáls búnaður eða ekki, samræðurnar skipta mestu máli við aksturinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá stórmenni

Lágvaxið fólk hefur komist ansi langt, ekki síst í skemmtanabransanum. Þar get ég nefnt sem dæmi Madonnu, Prince, Dustin Hoffmann... og örugglega eru einhverjir fleiri smávaxnir snillingar...


mbl.is Rod Stewart kemur upp um eigin smæð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggvinum boðið í eins árs afmæli

Ekkert hefur verið bloggað hér um Eurovision og kosningar. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að gera það núna og þess vegna ákvað ég að nota tækifærið og óska sjálfri mér til hamingju með að hafa haldið úti Fararstjóranum (moi) í eitt ár, en fyrsta blogg síðunnar var einmitt um Eurovision í fyrra. Síðan þá hef ég skrifað um hitt og þetta, tjáð mig um fréttir og dægurmál, pælt í bloggi annarra og síðast en ekki síst eignast bloggvini, hverra síður ég les reglulega. Af því tilefni er öllum bloggvinum boðið að fagna okkur sjálfum, og óska ég okkur öllum farsællar skrifræpu um ókomna framtíð, á besta blogginu í bænum, Moggablogginu! Og pælið í því, að þegar ég skrifaði fyrstu færsluna, höfðu rétt um 10.000 færslur verið skráðar, núna eru þær komnar á þriðja hundrað þúsund og í raun ótrúlegt hve margt frábært fólk hefur ákveðið að ganga í þetta skemmtilega samfélag á netinu.

Testesterónið trekkir

Það kemur ekki á óvart að Eiríkur Hauksson veki athygli fyrir karlmannlegt atgervi og útgeislun! Í samanburði við aðra karlmenn sem taka þátt í keppninni, er hann náttúrulegur, eðlilegur karlmaður. Kannski hafa margir gleymst hvernig svoleiðis eintak lítur út, því aðrir karlkyns þátttakendur eru allt frá því að vera óver-metró yfir í að vera einfaldlega í kvenmannsfötum með brjóst. Ég var ekkert hrifin af laginu til að byrja með, en ég hef tröllatrú á útgeislun og sviðsframkomu Eika. Áfram Ísland!


mbl.is Slegist um Eirík í Helsinki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munið þið eftir kasettunum?

Ég man hve merkilegt mér fannst að eignast kasettutæki með hljóðnema, en það var notað til að taka upp endalaust blaður og vitleysu sem svo var spilað aftur og aftur. Rosalega fannst okkur vinkonunum á Framnesveginum við vera fyndnar!
Ég man eftir að hafa safnað kasettum og tekið yfir þær aftur og aftur.
Ég man eftir að hafa keypt sérstaka kasettugrind í skápinn minn, til að geta raðað kasetttunum í.
Ég man eftir að hafa stillt kasettutækinu upp fyrir framan útvarpið, gjarna við Kanaútvarpið eða Lög unga fólksins, og heimtað grafarþögn þegar lög voru tekin upp.
Ég man eftir að hafa sent kasettur milli landa í stað bréfa, með blaðri og slúðri.
Ég man eftir að hafa smyglað kasettutækinu inn í Háskólabíó í rauðu íþróttatöskunni minni (sem var keypt í Sport á Laugavegi 13 og merkt búðinni) og tekið upp heilar bíómyndir, eins og t.d. Grease.
Ég man eftir þegar kasettur flæktust í tækinu og maður þurfti að losa bandið ofurvarlega til að slíta það ekki.
Ég man þegar tækninni fleygði fram, þá blandaði ég tónlist á kasettur og skírði þær nöfnum eins og "Rólegt", "Stuð" eða "Blandað", á svipaðan hátt og maður býr til spilunarlista á ipod í dag.
Ég man eftir hreinsispólunum sem maður keyrði í gegnum kasettutækið með vissu millibili.
Ég man þegar myndbandsspólurnar bættust við - hvenær ætli þeirra tími líði undir lok?!
mbl.is Dagar hljóðsnældunnar taldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sígaunarnir eru komnir

Gypsy familyHver hefði trúað því að hingað kæmu á endanum sígaunar, svona alvöru sígaunar, sem láta hverjum degi nægja sína þjáningu. Rúmenum er að fjölga hér á landi, eftir að Rúmenía bættist í hóp landa sem mynda Evrópska efnahagssvæðið, og þar með er þeim frjálst að fara milli landa, dvelja og vinna í öðrum EES löndum. Hingað eru komnar fjölskyldur, sem eru alveg eins og sígaunarnir sem voru svo áberandi á götum ferðamannastaða Spánar í kringum 1980, fólk sem á ekki samastað, finnst ekkert tiltökumál að vera ekki með fasta vinnu, og lifir fyrir einn dag í einu. Þau eru meira að segja alveg eins útlítandi, nema helsti munurinn er að hér verða þau að klæða sig heldur betur en á Costa del Sol! Kunningi minn gaf sig á tal við sígaunahjón á Lækjartorgi nú í vikunni, sem spurðu hvort hann vissi um herbergi til að halla sér eða einhverja vinnu til að stunda í stuttan tíma. Hver hefði trúað því að sígaunar sæktust eftir því að búa á Íslandi!? Spennandi verður að sjá hvernig þeim gengur að aðlagast lífinu hér, - kannski eigum við eftir að sjá sígauna dansa og spila á götum Reykjavíkur í sumar, alveg eins og maður man eftir frá Torremolinos. Það væri hægt að ímynda sér að þeir gætu lífgað við landbúnaðinn, en mikið held ég að þeim eigi eftir að blöskra verðið á hjólhýsum!

Hvenær verður nóg komið af byggingum?

Það er ekkert lát á byggingaframkvæmdum. Íbúðir, atvinnuhúsnæði og skrifstofuhúsnæði af öllum stærðum og gerðum, turnar spretta og virðast allir vera í keppni við Hallgrím blessaðan! Það hlýtur að koma að því að við fáum öll okkar einkaíbúð og getum öll rekið nokkur fyrirtæki um allt land. Spurning hvort við herðum okkur ekki í innflutningi fólks og reynum að draga huldufólkið út úr klettunum svo við getum fyllt alla kassana af kjöti? Á meðan úthverfin fyllast af byggingum og vegirnir breikka og batna til að fólk komist hratt og örugglega í svefnbæina, er eins og ekkert vitrænt megi gera fyrir hjarta borgarinnar. Þar var allt púður lagt í að gera hraðbraut í gegnum miðbæinn til að drepa örugglega niður von um manneskjulegan miðbæ í kringum garð og tjörn. Ljós punktur er þó Tónlistarhúsið sem mun án efa efla miðbæinn.

Var þetta ekki snilld?!?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband