Sumir hneykslast á því að ég versla oftast í Melabúðinni og geri mér ekki ferð í stórmarkaði nema til að kaupa stærri pakkningar af hreinlætisvörum eða þegar ég á von á fleiri en fjórum í matarboð. Þá er fólk að hugsa um verðlagið fyrst og fremst. Ég hef hins vegar alltaf haldið því fram að Melabúðin sé ekkert dýrari en aðrar matvöruverslanir nema ef vera skyldu Bónus og Krónan - sem ég sæki vegna áðurnefndra vörukaupa.
Í gær datt ég inn í Hagkaup Eiðistorgi og ákvað að kaupa nú inn af því helsta sem vantaði en fékk næstum hjartaáfall við kassann vegna þess hve hátt verðið var. Þetta fannst mér ástæða til að gerast meðvitaður neytandi og fór því með kassamiðann og bar saman þær vörur sem ég kaupi helst í minni búð, Melabúðinni. Og viti menn! Melabúðin er mun ódýrari, svo nú hef ég áþreifanlegar sannanir!
En Melabúðin er hagstæðari á svo margan hátt, ekki aðeins fyrir budduna. Hér eru nokkur atriði sem mér koma helst í hug:
- Vöruverð er í meðallagi, dýrara en Bónus en hagstæðara en t.d. Hagkaup og Nóatún. 10-11 kemur þessu ekki við, því hún er svo svaka dýr.
- Ég og mínir göngum í verslunina, þurfum ekki að fara á bíl með meðfylgjandi bensíneyðslu, mengun og umferð.
- Hægt er að senda börnin í búðina þegar eitthvað smálegt vantar. Það kennir þeim sjálfstæði og að aðstoða við heimilisstörfin.
- Ég kaupi BARA það sem vantar þá stundina. Það þýðir að ég er alltaf með ferskt hráefni og safna ekki birgðum sem annars vegar taka pláss og hins vegar fara oft yfir síðasta söludag og enda í ruslinu og verða því mun dýrari á endanum.
- Ég hitti nágranna og vini, tala við fólk og fæ fréttir í rólegheitum, þar sem enginn er í stórmarkaðastresskasti.
- Ég fæ hlýlegt og gott viðmót, frábæra og persónulega þjónustu og ýmsa aukaþjónustu sem fólk sem þekkir bara stórmarkaði veit ekki einu sinni að er til. T.d. er hægt að láta skrifa hjá sér vörur ef maður er blankur eða gleymdi veskinu, afgreiðslufólk gefur ráð við innkaup og jafnvel uppskriftir og margt fleira.
- Þar sem ég þarf ekki að fara á bíl, þarf ekki að bera kynstrin af vörum, ég hitti fólk og fæ gott viðmót og persónulega þjónustu, þá hefur Melabúðin góð andleg áhrif sem er ómetanlegt fyrir geðheilsuna...
Ég gæti haldið áfram en læt gott heita.
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Dægurmál, Matur og drykkur, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:52 | Facebook
Athugasemdir
Ég tek undir þetta allt hjá þér. Melabúðin er og verður mín uppáhaldsverslun og eigendur og starfsfólk frábær.
Ég bjó í nokkurra skrefa fjarlægð í næstum 10 ár og þótt ég sé löngu flutt og með aðra "búð á horninu" sem ég fer í næstum daglega af svipuðum ástæðum og þú í Melabúðina - þá nota ég hvert tækifæri til að fara í mína gömlu uppáhaldsverslun og upplifa þessi notalegheit sem þú gerir svo góð skil.
Lára Hanna Einarsdóttir, 1.9.2008 kl. 11:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.