Færsluflokkur: Ferðalög

Bloggvinum boðið í eins árs afmæli

Ekkert hefur verið bloggað hér um Eurovision og kosningar. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að gera það núna og þess vegna ákvað ég að nota tækifærið og óska sjálfri mér til hamingju með að hafa haldið úti Fararstjóranum (moi) í eitt ár, en fyrsta blogg síðunnar var einmitt um Eurovision í fyrra. Síðan þá hef ég skrifað um hitt og þetta, tjáð mig um fréttir og dægurmál, pælt í bloggi annarra og síðast en ekki síst eignast bloggvini, hverra síður ég les reglulega. Af því tilefni er öllum bloggvinum boðið að fagna okkur sjálfum, og óska ég okkur öllum farsællar skrifræpu um ókomna framtíð, á besta blogginu í bænum, Moggablogginu! Og pælið í því, að þegar ég skrifaði fyrstu færsluna, höfðu rétt um 10.000 færslur verið skráðar, núna eru þær komnar á þriðja hundrað þúsund og í raun ótrúlegt hve margt frábært fólk hefur ákveðið að ganga í þetta skemmtilega samfélag á netinu.

Hættulegur leikur

Í hvert sinn sem við keyrum upp í hesthús til að fara í reiðtúr um Mosfellsdalinn, fáum við hland fyrir hjartað ef við sjáum fólk á torfæruhjólum. Við erum reyndar með trausta og góða hesta, en sprengihljóðin í torfæruhjólunum kljúfa oft kyrrðina og geta fælt pollrólega hesta þannig að gífurleg slysahætta skapast. Það verður einfaldlega að finna hjólagaurum aðra staði en reiðvegi, því slys á hestbaki verða oftast þegar hestar fælast af svipuðum ástæðum og þessum.


mbl.is Knöpum þungt í skapi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sígaunarnir eru komnir

Gypsy familyHver hefði trúað því að hingað kæmu á endanum sígaunar, svona alvöru sígaunar, sem láta hverjum degi nægja sína þjáningu. Rúmenum er að fjölga hér á landi, eftir að Rúmenía bættist í hóp landa sem mynda Evrópska efnahagssvæðið, og þar með er þeim frjálst að fara milli landa, dvelja og vinna í öðrum EES löndum. Hingað eru komnar fjölskyldur, sem eru alveg eins og sígaunarnir sem voru svo áberandi á götum ferðamannastaða Spánar í kringum 1980, fólk sem á ekki samastað, finnst ekkert tiltökumál að vera ekki með fasta vinnu, og lifir fyrir einn dag í einu. Þau eru meira að segja alveg eins útlítandi, nema helsti munurinn er að hér verða þau að klæða sig heldur betur en á Costa del Sol! Kunningi minn gaf sig á tal við sígaunahjón á Lækjartorgi nú í vikunni, sem spurðu hvort hann vissi um herbergi til að halla sér eða einhverja vinnu til að stunda í stuttan tíma. Hver hefði trúað því að sígaunar sæktust eftir því að búa á Íslandi!? Spennandi verður að sjá hvernig þeim gengur að aðlagast lífinu hér, - kannski eigum við eftir að sjá sígauna dansa og spila á götum Reykjavíkur í sumar, alveg eins og maður man eftir frá Torremolinos. Það væri hægt að ímynda sér að þeir gætu lífgað við landbúnaðinn, en mikið held ég að þeim eigi eftir að blöskra verðið á hjólhýsum!

Spænskar prinsessur nútímans

Casa RealÞá eru komnar tvær spænskar erfiprinsessur, en eldri dóttir þeirra Felipe og Letiziu mun erfa krúnuna eftir föður sinn. Til þess að svo mætti verða, þurfti að breyta aldagömlum lögum á Spáni, sem kváðu á um að aðeins synir gætu erft krúnuna. Slíkum lögum hefur undanfarna áratugi verið breytt í þeim löndum Evrópu þar sem er konungsstjórn, en Spánn var eitt síðasta landið til að breyta þessu. Felipe á tvær eldri systur, þær Elenu og Cristinu, en þær gátu skv. spænsku stjórnarskránni ekki erft konungdæmið og því þurftu konungshjónin að bíða eftir að drengurinn kæmi. Ég væri nú frekar fúl ef ég væri Elena, að vera elst, en horfa svo upp á litla bróður alinn upp sem verðandi konungur. En hún er vel upp alin spænsk kona af góðum ættum og gerir líklega ekki veður út af málinu úr þessu. Eiginmaður hennar er Jaime de Marichalar, sem lítur út eins og karakter úr málverki eftir El Greco. Yngri systirin, Elena, er gift Inaki Urdangarín handboltakappa úr Barcelona, og hún vinnur í banka þar í borg. Barnalánið hefur ekki verið vandamál hjá þessum spænsku kóngabörnum, því systurnar eiga samtals 6 börn og nú er Felipe komin með tvær prinsessur (í alvöru). Konungshjónin, Juan Carlos og Sofia eru því rík af barnarbörnum, enda eru þau víst alltaf að passa! Þetta var semsagt um spænsku konungsfjölskylduna fyrir áhugasama um kóngafólkið í Evrópu!


mbl.is Spánarprinsessa eignast sína aðra dóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Amma sem rokkar!

Það er töggur í þessari, algjörlega kona að mínu skapi. Hugsið ykkur hvað háskólanámið hefur gefið þessari öldruðu konu mikla lífsfyllingu, enda er margt annað hægt að gera en setjast við hannyrðir í ellinni. Ég verð nákvæmlega svona, eilífðarstúdentinn sjálfur, og stefni að því að útskrifast með einhverja gráðu um leið og barnabörnin!
mbl.is Útskrifast úr háskóla 95 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri mengun en í Bandaríkjunum

BeautyHún lét ekki mikið yfir sér í Mogganum í dag, fréttin um að mengun í Kína sé þegar orðin meiri en í Bandaríkjunum á þessu ári. Athugið að hér er ekki verið að tala um eitthvað svifryk á góðum degi, heldur raunverulega mengun sem hefur áhrif á allan heiminn. Hagkerfi Kína hefur vaxið með ógnarhraða undanfarið, kannski hraðar en gert var ráð fyrir, en spáð hafði verið að Kína færi fram úr BNA í mengun árið 2025. Vöxtur efnahags Kína mun bara aukast, fyrir utan að þjóðfélaginu verður sparkað með látum inn í nútímann. Þetta mun hafa áhrif á fleiri sviðum en mengun, eins og við eigum eftir að verða vitni að á næstu árum. Vonum bara að þróunin verði í átt að "fegurð" en ekki  "ringulreið", en kínversku táknin tvö standa fyrir það.

Hvenær verður nóg komið af byggingum?

Það er ekkert lát á byggingaframkvæmdum. Íbúðir, atvinnuhúsnæði og skrifstofuhúsnæði af öllum stærðum og gerðum, turnar spretta og virðast allir vera í keppni við Hallgrím blessaðan! Það hlýtur að koma að því að við fáum öll okkar einkaíbúð og getum öll rekið nokkur fyrirtæki um allt land. Spurning hvort við herðum okkur ekki í innflutningi fólks og reynum að draga huldufólkið út úr klettunum svo við getum fyllt alla kassana af kjöti? Á meðan úthverfin fyllast af byggingum og vegirnir breikka og batna til að fólk komist hratt og örugglega í svefnbæina, er eins og ekkert vitrænt megi gera fyrir hjarta borgarinnar. Þar var allt púður lagt í að gera hraðbraut í gegnum miðbæinn til að drepa örugglega niður von um manneskjulegan miðbæ í kringum garð og tjörn. Ljós punktur er þó Tónlistarhúsið sem mun án efa efla miðbæinn.

Markaðsbrella ársins

Hverju finnur fólk ekki upp á! Það hlýtur að vera mjög spennandi að fylgjast með þroska þessa merkilega osts. Maður getur rétt ímyndað sér lyktina! En í alvöru, þetta er snilld. Ég tilnefni bændurna þarna í Suður-Englandi til markaðsverðlauna ársins.


mbl.is Ostur orðinn internetstjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var að lesa...

Ég las loksins Flugdrekahlauparann um daginn. Ég byrjaði á bókinni um borð í flugvél og var mjög pirruð að þurfa að lenda og leggja bókina frá mér! Hún vekur gífurlega sterk viðbrögð hjá manni, það liggur við að maður tárfelli í hverjum kafla. Ekki af því bókin sé sorgleg eða ofurgleðileg, heldur er frásögnin svo sterk að hún rústar algerlega tilfinningalegum vörnum. Menningarheimurinn og aðstæðurnar sem maður kemst í kynni við í gegnum frásögn Khaled Hosseini eru ótrúlegar og ættu að vera skyldulesning fyrir okkur Westrænu menningarvitana. Mæli hiklaust með henni, þótt ég sé kannski svolítið sein að lesa hana!

Hver verða stóru málin?

Formaður Íslandshreyfingarinna segir að umhverfismálin verði langstærsta kosningamálið. Hvað með Evrópusambandið og hugsanlega aðild Íslands? Er ekki komin tími til að athuga með aðildarviðræður? Það er alveg merkilegt hvernig tekst alltaf að svæfa þetta mál, kosningar eftir kosningar!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband