Færsluflokkur: Lífstíll

Göngutúr eða ball?

Það voru greinilega færri í kvöldgöngu á Ægisíðunni í kvöld en vanalega, þegar við Bella fórum í gönguna okkar. Kannski er komið haust í fólk þar sem veðrið hefur verið fremur haustlegt undanfarið. Í kvöld var samt fullkomið síðsumarveður, hlýtt og milt, og sólarlagið náttúrulega það fallegasta sem gerist. Eða kannski voru bara allir komnir í partý fyrir Stuðmannaballið á Nesinu í kvöld nema ég, þar sem ég ákvað að fara ekki á ballið í ár? 

Melabúðin er hagstæðari á svo margan hátt

Melabudin

Sumir hneykslast á því að ég versla oftast í Melabúðinni og geri mér ekki ferð í stórmarkaði nema til að kaupa stærri pakkningar af hreinlætisvörum eða þegar ég á von á fleiri en fjórum í matarboð. Þá er fólk að hugsa um verðlagið fyrst og fremst. Ég hef hins vegar alltaf haldið því fram að Melabúðin sé ekkert dýrari en aðrar matvöruverslanir nema ef vera skyldu Bónus og Krónan - sem ég sæki vegna áðurnefndra vörukaupa.

Í gær datt ég inn í Hagkaup Eiðistorgi og ákvað að kaupa nú inn af því helsta sem vantaði en fékk næstum hjartaáfall við kassann vegna þess hve hátt verðið var. Þetta fannst mér ástæða til að gerast meðvitaður neytandi og fór því með kassamiðann og bar saman þær vörur sem ég kaupi helst í minni búð, Melabúðinni. Og viti menn! Melabúðin er mun ódýrari, svo nú hef ég áþreifanlegar sannanir!

En Melabúðin er hagstæðari á svo margan hátt, ekki aðeins fyrir budduna. Hér eru nokkur atriði sem mér koma helst í hug:

 

  1. Vöruverð er í meðallagi, dýrara en Bónus en hagstæðara en t.d. Hagkaup og Nóatún. 10-11 kemur þessu ekki við, því hún er svo svaka dýr. 
  2. Ég og mínir göngum í verslunina, þurfum ekki að fara á bíl með meðfylgjandi bensíneyðslu, mengun og umferð.
  3. Hægt er að senda börnin í búðina þegar eitthvað smálegt vantar. Það kennir þeim sjálfstæði og að aðstoða við heimilisstörfin.
  4. Ég kaupi BARA það sem vantar þá stundina. Það þýðir að ég er alltaf með ferskt hráefni og safna ekki birgðum sem annars vegar taka pláss og hins vegar fara oft yfir síðasta söludag og enda í ruslinu og verða því mun dýrari á endanum.
  5. Ég hitti nágranna og vini, tala við fólk og fæ fréttir í rólegheitum, þar sem enginn er í stórmarkaðastresskasti.
  6. Ég fæ hlýlegt og gott viðmót, frábæra og persónulega þjónustu og ýmsa aukaþjónustu sem fólk sem þekkir bara stórmarkaði veit ekki einu sinni að er til. T.d. er hægt að láta skrifa hjá sér vörur ef maður er blankur eða gleymdi veskinu, afgreiðslufólk gefur ráð við innkaup og jafnvel uppskriftir og margt fleira.
  7. Þar sem ég þarf ekki að fara á bíl, þarf ekki að bera kynstrin af vörum, ég hitti fólk og fæ gott viðmót og persónulega þjónustu, þá hefur Melabúðin góð andleg áhrif sem er ómetanlegt fyrir geðheilsuna...

 

Ég gæti haldið áfram en læt gott heita.


Að taka viljann fyrir verkið

Ég ætlaði að vera rosa sniðug og byrjaði í leikfimi í ágúst (stuttu, lokuðu námskeiði) og var hugmyndin að vera komin af stað ÁÐUR en allir kjánarnir láta undan auglýsingum og hópþrýstingi og flykkjast í ræktina í september. Mjög góð hugmynd. Svo koma svona vikur eins og þessi hér, í dag fór ég í erfisdrykkju uppúr hádeginu og svo í unglingaafmæli í kvöld, þannig að mataræðið var eins og við er að búast og leikfimistímanum sleppt. Næsti leikfimistími er á miðvikudaginn, þá verð ég með erlendan fyrirlesara hjá mér og fer með honum út að borða. Síðasti tími vikunnar er svo á fimmtudaginn og þá er ég að fara í kvennaklúbbskvöld með tilheyrandi veitingum og sleppi þ.a.l. leikfiminni. En hugmyndin er góð, þessi þarna sem sneri að því að fara í leikfimi og borða hollan mat... 

Haustið heilsaði í dag

Það var eins og haustið kæmi í dag. Hrollkalt í lofti og vindur, allir skólar byrjaðir og fólk í atvinnulífinu er að vakna í þynnkunni eftir sumarfríið, grillkvöldin og sumarbústaðaferðirnar. Ég dröslaðist í dragtina og á hælana eftir að hafa verið í útilegubuxum, stuttermabol og pumaskóm síðan í júní. Þá er að spýta í lófana og kröfurnar eru miklar og skemmtilegar; vinnan, aukavinnan, extra-verkefnin og aukaaukavinnan, heimilið, heilsan, félagslífið. Þetta verður góður vetur. Rosalega hlakka ég til jólanna!

Hluti af stemmningunni

Poppmaul er stór hluti stemmningarinnar við að fara í bíó. Munið þið eftir þegar poppið í bíó var selt í lokuðum plastpokum af temmilegri stærð og maður þurfti að standast freistinguna að opna poppið áður en myndin hófst? Nýja poppið er ágætt líka. Opnir pokar og gífurlegt magn auglýsinga og kynninga áður en myndin sjálf hefst í bíó hefur líka orðið til þess að ekki margir eiga popp eftir þegar kemur að myndinni sjálfri! Popp og bíó, órjúfanlegt par!
mbl.is Popp bannað í bíóum í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýi fjölskyldumeðlimurinn

DSC00136Loksins kemur hér mynd af nýjasta meðlim fjölskyldunnar henni Bellu, eða Bellu Fóu feykirófu eins og hún heitir fullu nafni. Hún er skemmtilegasta, jákvæðasta, félagslyndasta og skapbesta dýr sem fyrirfinnst og er hún þó af nafntoguðu skemmtilegu hundakyni, en hún er Enskur Cocker Spaniel. Hún er 5 mánaða á þessari mynd, sem tekin var í sumar í sveitinni. 

Stemmning á Spáni

Thad er thvílík stemmning hér á Spáni og frábaert ad horfa á leikina med innfaeddum. Thad vard allt vitlaust thegar Spánn vann Rússland og ekki verdur minna stud í kvold. Vid aetlum ad horfa á leikinn á thorpstorginu, narta í pizzu og taka thátt í stemmningunni med Spánverjum. ¡¡A por ellos!!Áfram SPÁNN!!


mbl.is Væntingar í Vín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af skólpi, dreni, rörum og vatnsnotkun

vatnskraniÞað er verið að skipta um skólpið á húsinu okkar og húsinu við hliðina. Það þurfti að skrúfa fyrir vatn á meðan verið var að ganga frá lögnum, sem varð til þess að kranar og pípur fylltust af smásteinum. Út af þessu var ekki hægt að nota sturtu og bað, ekki hægt að drekka vatnið og erfitt var að sturta niður. Þetta varði næstum því í heilan sólarhring. Þegar svona er, þá fattar maður hvað við erum heppin með allt þetta góða vatn sem við eigum, kalt og heitt og fullt af því! Ég verð reyndar alltaf mjög þakklát fyrir vatnið okkar þegar ég er í útlöndum, en maður hefur gott af því að láta minna sig á þetta áþreifanlega. Ég hljóp yfir í laugina á náttfötunum í morgun til að fara í sturtu, svo þetta reddaðist. Mikið er maður nú háður vatninu! Í tengslum við framkvæmdirnar er verið að setja dren í kringum húsið, svo núna veit ég nákvæmlega hvað það er! Þegar fólk, t.d. fasteignasalar töluðu hróðugir um að búið væri að "drena" eða "skipta um drenið" á einhverju ákveðnu húsi, þá kinkaði ég kolli og hummaði en hafði ekki græna glætu hvað verið var að tala um en fannst eins og ég ætti að vita þetta. En núna veit ég þetta sko í alvöru og veit hvers vegna sett eru dren í tengslum við röraskipti gamalla húsa. Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt! Næst eru það gluggaskipti og íbúðin mín verður eins og ný (eða nýlegri, því húsið er á besta aldri byggt 1957). En vatnið er komið aftur enda getum við víst ekki án þess verið.

Hvað kostar skutlið okkur?

fita vs olíaÉg rakst á áhugaverða síðu hjá Orkusetrinu þar sem hægt er að finna út hvað keyrsla kostar okkur, innanbæjar og utan, eftir því hvernig bíl við keyrum. Prófið þetta og spyrjið ykkur svo hvort ekki væri hægt að ganga eða hjóla og senda börn gangandi, hjólandi eða í strætó á íþróttaæfingar núna þegar daginn lengir. Þarna má einnig sjá rauntímamæli fyrir alla orkunotkun á Íslandi, raforkunotkun, heitavatnsnotkun og eldsneytisnotkun. Skemmtilegt. Hér er tengill í síðuna með prófinu, annars er þetta á orkusetur.is og þar fékk ég þessa skemmtilegu mynd líka lánaða.

Er þetta merki um fullorðnun?

Ég hef aldrei komist upp á lag með að drekka mikið kaffi. Fannst það bara vont á bragðið og hélt mig við dæet kók eða aðra kalda drykki. Ég byrjaði að smakka kaffi um þrítugt þegar ég vann á Spáni og fannst ágætt að fá einn sterkan eftir kvöldmat, enda var kaffið þar gott, og jafnaðist ekkert á við einn Café cortado eða jafnvel Tía María kaffi. Svo þegar ég vann í Portúgal komst ég virkilega að því hvað kaffi getur verið gott. Á vinnustöðum hér heima fór á sama tíma að bera á "alvöru" kaffivélum og maður gat fengið "cortado" (hér á landi kallaður "macchiato" uppá ítalskan máta) eða cappuccino á fundum í staðinn fyrir afrennslið sem áður tíðkaðist. Núna hef ég verið á tveimur vinnustöðum þar sem eru góðar kaffivélar og ég er barasta farin að fá mér kaffi á hverjum degi! Það er ennþá gos á morgnana eins og unglingarnir, en svo allt í einu langar mig bara hreinlega í kaffibolla. Skrýtið. Ætli þetta sé eins og með ólífur, avocado, gin og fleira, sem maður "lærir" að þykja gott með aldrinum? En semsagt, ég leyfi mér að halda því blákalt fram að kaffinotkun mín tengist því að ég sé orðin fullorðin, svo nú má fara að taka mig alvarlega hvað á hverju.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband