Færsluflokkur: Menntun og skóli

Viðburðaríkur mánuður

September hefur verið svakalega viðburðaríkur hjá mér í vinnu og víðar. Búin að skipuleggja tvo risaviðburði og fjóra minni, sem allir tókust afskaplega vel. Vísindakaffin voru vel sótt og aldrei hafa fleiri komið á Vísindavöku. Svo er það skipulagið á Viku símenntunar sem mínir frábæru samstarfsaðilar um allt land sjá síðan um að framkvæma. En ég verð að játa að ég veit ekkert skemmtilegra en skipuleggja viðburði - ég bókstaflega þrífst á þeim! Tengist sjálfsagt gamla fararstjóranum í mér... En ég er nú samt pínu þreytt eftir þessa törn og fegin að nú gefst tími til að sinna persónulegum málefnum sem hafa setið á hakanum, eins og að hitta fjölskyldu og vini og kannski fara að synda og hjóla aftur. 

Fjallbaksleið til Aþenu

Snow on AcropolisÉg lagði land undir fót í gær, sem ekki er svo sem í frásögur færandi, og var á leið á tveggja daga fund í Aþenu. Það er nú ekki heiglum hent að komast til Grikkjaveldis þar sem flugsamgöngur þangað eru örugglega stopulli en rútuferðir um fjallbaksleið nyrðri. Lausnin var að fljúga til Köben á sunnudagskvöldi, gista þar og fara áfram til Aþenu á mánudagsmorgun. Þegar ég svo mætti á Kastrup kom í ljós að allt flug til Aþenu hafði verið fellt niður. Starfsmaður SAS sagði mér kíminn að það hefði snjóað aðeins í borginni og þess vegna hafi flugvellinum hreinlega verið lokað og ekki væri hægt að lenda í borginni. Eftir að hafa kannað allar leiðir til að komast var ljóst að ég myndi í öllum tilfellum missa af fundinum. Því var ekki um annað að ræða en snúa við heim. Ég verð nú að játa að það var pínu kjánalegt að fara svona tilgangslausan flugrúnt út í heim og aftur til baka bara vegna þess að Grikkir eru ekki "ávallt reiðubúnir" eins og skátarnir...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband