Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Meiri mengun en í Bandaríkjunum

BeautyHún lét ekki mikið yfir sér í Mogganum í dag, fréttin um að mengun í Kína sé þegar orðin meiri en í Bandaríkjunum á þessu ári. Athugið að hér er ekki verið að tala um eitthvað svifryk á góðum degi, heldur raunverulega mengun sem hefur áhrif á allan heiminn. Hagkerfi Kína hefur vaxið með ógnarhraða undanfarið, kannski hraðar en gert var ráð fyrir, en spáð hafði verið að Kína færi fram úr BNA í mengun árið 2025. Vöxtur efnahags Kína mun bara aukast, fyrir utan að þjóðfélaginu verður sparkað með látum inn í nútímann. Þetta mun hafa áhrif á fleiri sviðum en mengun, eins og við eigum eftir að verða vitni að á næstu árum. Vonum bara að þróunin verði í átt að "fegurð" en ekki  "ringulreið", en kínversku táknin tvö standa fyrir það.

Hvenær verður nóg komið af byggingum?

Það er ekkert lát á byggingaframkvæmdum. Íbúðir, atvinnuhúsnæði og skrifstofuhúsnæði af öllum stærðum og gerðum, turnar spretta og virðast allir vera í keppni við Hallgrím blessaðan! Það hlýtur að koma að því að við fáum öll okkar einkaíbúð og getum öll rekið nokkur fyrirtæki um allt land. Spurning hvort við herðum okkur ekki í innflutningi fólks og reynum að draga huldufólkið út úr klettunum svo við getum fyllt alla kassana af kjöti? Á meðan úthverfin fyllast af byggingum og vegirnir breikka og batna til að fólk komist hratt og örugglega í svefnbæina, er eins og ekkert vitrænt megi gera fyrir hjarta borgarinnar. Þar var allt púður lagt í að gera hraðbraut í gegnum miðbæinn til að drepa örugglega niður von um manneskjulegan miðbæ í kringum garð og tjörn. Ljós punktur er þó Tónlistarhúsið sem mun án efa efla miðbæinn.

Byggjum upp torgastemmningu

Þegar uppbygging hefst á reitnum þar sem brann í miðbænum, sérstaklega þegar Karnabæjarhúsið verður rifið, gefst tækifæri til að opna á fallega bakgarða og byggja upp torgamenningu sem hvarf með tengingu húsa í raðir einhvern tíma á síðustu öld. Garðurinn á bakvið Hressó, Jómfrúnna og Borgina er frábært svæði, og svo mætti gera eitthvað manneskjulegt við Lækjartorg, Ingólfstorg og Fógetagarðinn. Svo ætti auðvitað að opna Lækinn og byggja fallegar brýr yfir hann og leggja áherslu á mannbætandi þjónustu. Þetta er í raun gamli "rúnturinn" í hnotskurn, eða svæðið sem afmarkast af Hafnarstræti, Lækjargötu, Skólabrú, Kirskjustræti og Aðalstræti. Svona torgastemmning með tengileiðum, skemmtilegum kaffihúsum og menningarstarfsemi er ríkjandi í öllum borgum og bæjum Evrópu, því ekki líka í Reykjavík?

Hver verða stóru málin?

Formaður Íslandshreyfingarinna segir að umhverfismálin verði langstærsta kosningamálið. Hvað með Evrópusambandið og hugsanlega aðild Íslands? Er ekki komin tími til að athuga með aðildarviðræður? Það er alveg merkilegt hvernig tekst alltaf að svæfa þetta mál, kosningar eftir kosningar!

Borgað fyrir lífsreynslusögur - líka á Íslandi?

Þrátt fyrir bann við því að bresku hermennirnir sem voru í haldi Írana selji fjölmiðlum sögu sína, er svo kristaltært í mínum huga að það bann má sín lítils gegn ofurkrafti fjölmiðla og skemmtanabransans. Hvort sem það verður í spjallþætti, þar sem þeir segja krassandi sögur eða nota sjónvarp sem áfallahjálp og gráta úr sér augun, eða í formi nýrrar spennumyndar, þá mun sagan verða sögð. Og fjölmiðlar munu borga fyrir hana. Þannig gerast kaupin á Eyrinni. Þetta er líka orðið þekkt hér á landi, þótt hitt sé sem betur fer enn normið. Svo er það líka algengt hér að fólk borgi fjölmiðlunum fyrir að taka viðtal við það, og þykir eðlilegt sem PR þjónusta.
mbl.is Breska varnarmálaráðuneytið bannar hermönnum að selja sögur sínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háðsleg uppástunga

Þetta er kaldhæðin uppástunga hjá prófessornum, en það er ekki laust við að manni renni kalt vatn milli skinns og hörunds þegar lýsingin er lesin. Þetta hljómar helst eins og upplag í krassandi tölvuleik, og við skulum vona að enginn raunveruleikafirrtur valdamaður taki hugmyndina alvarlega!?
mbl.is Nær að sprengja Ísland en Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gagnslausar spurningar?

Þetta minnir mig á spurningarnar sem maður þarf að svara til að komast inn í Bandaríkin! Spurningarnar sem slíkar virka ákaflega hjákátlegar, því það væri undarlegt að einhver væri að sækjast eftir þjónustu þar sem ákveðin skilyrði eru sett, en myndi síðan skemma það fyrir sér með því að ljóstra upp um sig. Í því ljósi hef ég alltaf hlegið með sjálfri mér að svona spurningum. Hins vegar má lita á þetta frá hinni hliðinni, því með stórauknum alþjóðaviðskiptum og aukinni vitund manna um Ísland og möguleika þess, þá er aldrei að vita nema óprúttnir aðilar myndu nýta landið og fjármálakerfið til peningaþvættis. Við getum ekki stungið hausnum í sandinn með slíkt. Það þyrfti kannski að finna aðra aðferð en þessar beinu, undarlegu spurningar, sem ég get ekki ímyndað mér að skili árangri.  
mbl.is „Ertu hryðjuverkamaður?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um höfuðslæður múslima og sexý nærföt

Muslim womanFjöldi innflytjenda af arabískum uppruna hefur aukist í Brussel undanfarið, en ég tók sérstaklega eftir því núna þar sem það er frekar langt síðan ég var hér síðast. Á leið frá lestarstöðinni á hótelið gekk ég eftir götu sem heitir Rue Brabant, en þar eru margar verslanir í eigu múslímskra innflytjenda. Verslanirnar selja vefnaðarvöru og heimilisvöru og er þeim mörgum stýrt af konum, sem eru þá oftast klæddar á vestrænan máta, en með slæðu um höfuðið. Viðskiptavinirnir í verslunum á Rue Brabant eru líka aðallega konur, glæsilegar og fallega málaðar en með slæðu yfir hárinu. Í búðargluggum var víða stillt út höfuðgínum með fallegar, vandaðar slæður í öllum litum og mynstrum, en í sumum gluggum var stillt út svaka sexý nærfatnaði við hliðina á slæðunum.

red lingerieÍ einum glugganum voru t.d. rauðar efnislitlar brækur með glitrandi palíettum og rauður brjóstahaldari ásamt slæðum tilað hylja hárið. Þetta virkar tvíbent, mér fannst þetta mjög sérstakt og langaði mest að taka mynd af besta búðarglugganum, til menningarlegra rannsókna. Eru múslimakonur í sexý fötum undir kuflum og slæðum?  Eru þetta vestræn áhrif? Er þetta kannski hluti af menningunni? Hvers vegna er haldið í þann sið að hylja hárið ef manneskjan er síðan klædd á vestrænan máta, í gallapilsi og kafmáluð? Er þetta það sem koma skal, eftir því sem menningarheimarnir blandast?


Beint flug til Brussel

Mannekin PisÍ hvert sinn sem ég fer til Brussel velti ég fyrir mér hvers vegna Icelandair flýgur ekki beint til höfuðborgar Evrópusambandsins. Maður fer eldsnemma af stað og þarf að skipta um vél t.d. í Kaupmannahöfn og kemur á áfangastað seinnipartinn eða að kvöldi. Þannig fer heill dagur í ferðalag. En það fynda er, að stór hluti þeirra sem leggja af stað frá Íslandi að morgni eru einmitt á leið til Brussel og verða manni samferða alla leið. Sífellt fleiri eiga erindi þangað, hvort sem er úr stjórnsýslunni, frá menntageiranum eða fyrirtækjum. Það er flogið beint til Amsterdam, og einnig fer fragtvél daglega til Brussel. Hvers vegna er ekki sett upp áætlunarflug til borgarinnar, a.m.k. þrisvar í viku til reynslu? Kannski fattar Iceland Express þetta á undan? Ég er viss um að flug til Brussel myndi borga sig.

Sameinum úthverfin Reykjavík

Heyrst hefur að borgaryfirvöld telji nauðsynlegt að fjölga íbúum Reykjavíkur en ég veit ekki alveg hvort ég sé sammála því að í því liggi helsti byggðavandi þjóðarinnar, en gott og vel. Hvernig væri þá að viðurkenna vöxt höfuðborgarsvæðisins með því að innleiða fyrrum bæi og nú úthverfi, eins og Kópavog, Garðabæ, Seltjarnarnes og Álftanes, og viðurkenna þau sem hluta af Reykjavík? Hugsið ykkur hve mikið mætti spara og hagræða með einni borgarstjórn, einu stjórnkerfi í stað margra! Þetta hefur verið gert víða um land þar sem bæir eru meira að segja í töluverðri fjarlægð hver frá öðrum, með góðum árangri. Þá fengjum við kannski heildstæða borg í stað safns svefnbæja sem hafa hvorki miðbæ, líf né karakter, í kringum borgina okkar. Ég auglýsi eftir umræðu um þetta mál.
mbl.is Nauðsynlegt að fjölga borgarbúum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband