Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Viðburðaríkur mánuður

September hefur verið svakalega viðburðaríkur hjá mér í vinnu og víðar. Búin að skipuleggja tvo risaviðburði og fjóra minni, sem allir tókust afskaplega vel. Vísindakaffin voru vel sótt og aldrei hafa fleiri komið á Vísindavöku. Svo er það skipulagið á Viku símenntunar sem mínir frábæru samstarfsaðilar um allt land sjá síðan um að framkvæma. En ég verð að játa að ég veit ekkert skemmtilegra en skipuleggja viðburði - ég bókstaflega þrífst á þeim! Tengist sjálfsagt gamla fararstjóranum í mér... En ég er nú samt pínu þreytt eftir þessa törn og fegin að nú gefst tími til að sinna persónulegum málefnum sem hafa setið á hakanum, eins og að hitta fjölskyldu og vini og kannski fara að synda og hjóla aftur. 

Þá er bara að halda í sér!

Stuðningsyfirlýsing barnshafandi kvenna við kjaradeilu ljósmæðra hófst með því að aðeins eitt barn fæddist á Landspítalanum fyrstu nótt verkfallsins. Áfram svona stelpur, gleymið kampavíninu, göngutúrunum og haldið ykkur frá kallinum! Herpið saman lærin og haldið í ykkur þar til búið er að semja! Ekki að spyrja að því...
mbl.is Eitt barn fæddist á LSH í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt í góðu Geiri beibí!

Hæstvirtur forsætisráðherra vor telur ekki að við eigum í neinum teljandi efnahagserfiðleikum, samkvæmt viðtölum við hann í fréttaþáttum beggja sjónvarpsstöðva í kvöld. Það er allt í góðu, þótt fólk missi vinnuna, fjöldauppsagnir hafi orðið víða, fyrirtæki verði gjaldþrota og loki áður blómlegri starfsemi. Það er allt í lagi þótt krónan dansi súludans og vextir séu orðnir svo háir að venjulegt fólk getur ekki einu sinni séð fyrir sér afleiðingarnar í verstu martröðum sínum. Og það er ekkert tiltökumál þótt eignatengdar skuldir fari langt umfram verðmæti eigna. Nei, nei, þetta er allt í góðu, ekkert stress, verið alveg róleg. Við höfum það gott. Hættið þessu væli....

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband