Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Hvaða ameríski bíll er þessi Mörrseidís?

Mercedes BenzHvers vegna þarf Benz-umboðið að breyta umræðunni, nafninu og framburði á nafni bílategundarinnar sem það selur? Hvers vegna eigum við, hér á Íslandi, sem alltaf höfum talað um Benz eða Mercedez Benz, allt í einu að tala um "MÖRRSEIDÍS"?!, samanber auglýsingar sem ganga á öldum ljósvakans nú um stundir. Sagan sem ég heyrði af þessum bíl er að þýskur náungi, að nafni Benz, hafi orðið ástfanginn af suður-amerískri konu (argentískri held ég) sem hét Mercedes (borið fram "merseðes") og því kallaði hann bílinn Mercedes-Benz. Hér á landi hefur bílategundin alltaf verið kölluð Benz til styttingar. En Mörrseidís, með amerískum framburði og rúllandi tungu-erri... fíla það ekki alveg.

Mögnuð sýning og upplifun í Borgarleikhúsinu - Jesus Christ Superstar

Á laugardaginn brugðum við okkur þrjár kynslóðir saman á Jesus Christ Superstar, þá frábæru rokkóperu sem er nýfarið að sýna í Borgarleikhúsinu. Sýningin var hreint út sagt frábær, mögnuð uppfærsla og geggjuð upplifun út í gegn. Það er ekki oft sem maður vill ekki að sýning endi, og ekki oft sem áhorfendur standa upp í lokin og fagna með klappi og hrópum! Ég er mikill aðdáandi verksins og hef séð þær uppfærslur sem hér hafa verið gerðar, en þessi var algjörlega frábær, enda vorum við saman þrjár kynslóðir sem allar skemmtu sér vel í sinni upplifun á verkinu. Allir sem sungu aðalhlutverkin fengu að njóta sín samkvæmt því sem hæfði þeirra hlutverki, Krummi firnagóður og trúverðugur sem Jesús og Jens feikilega sterkur sem Júdas, enda býður það hlutverk jafnan upp á mikil tilþrif. Lára var æðisleg sem María Magdalena, Ingvar sem Pílatus og Bergur sem Heródes ...og bara allir sem komu fram í sýningunni. Það skín af þeim áhuginn og vandvirknin. Og þótt gaman sé að lesa leikdóma í fjölmiðlum, þá vil ég hvetja fólk til að láta sinn eigin smekk ráða, því þetta var gæsahúð allan tímann og ég gef sýningunni 6 stjörnur af 5 mögulegum!

Hátíðarmaturinn snæddur í rólegheitum

Nýársdagur enn á ný, og árið 2007 virðist hafa flogið hjá á ógnarhraða. Snemma dags í dag fórum við í okkar hefðbundnu nýársgöngu, þótt það hafi verið frekar kalt. Mér finnst samt nauðsynlegt að fara út íu göngutúr á þessum degi til að hnusa af nýja árinu sem er að feta sín fyrstu skref. Þar sem brennan var haldin í dag, fékk ég góða vini í heimsókn til að borða kalkúnaafganga og svo löbbuðum við niður á Ægisíðu. Það var varla líft á brennunni sökum reyks og því drifum við okkur heim og skutum upp flugeldunum sem geymdir voru síðan í gær. Mér finnst stundum eins og hátíðarmaturinn sem tilheyrir aðfangadegi og gamlársdegi bragðist betur daginn eftir, kannski vegna þess að þá er ekki verið að borða í stressi til að taka þátt í hátíð kvöldsins, pökkum, brennum og flugeldum. Ég fíla að borða afganga daginn eftir í rólegheitum.
Svo er það bara að koma sér í gírinn fyrir nýtt ár, skipuleggja sig og setja markmið fyrir komandi vikur og mánuði. Gleðilegt nýtt ár!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband