Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2006

Förum út í garð

Reykvíkingar gætu notað stóra sem smáa almenningsgarða borgarinnar miklu betur. Með tónleikum Sigur Rósar á Miklatúni hefur vonandi verið sleginn tónn í þessa átt. Hljómskálagarðurinn er þannig staðsettur, að ef flugvöllurinn skæri ekki helminginn af miðbænum, hefði garðurinn þróast líkt og Hyde Park í London eða Central Park í New York. þá kæmi fólk þangað í hádegishléi frá vinnu og börn kæmu og gæfu öndunum allan hringinn í kringum Tjörnina. Þar er hægt að grilla, leika sér og njóta lífsins. Einhvern tíma stóð til að opna þar kaffihús, hvað ætli hafi orðið um þau plön?

Hvað með starfsmenn á flugvöllum?

Öryggismál á Keflavíkurflugvelli voru í fréttum fyrir stuttu, og þá sá hluti sem snýr að leit á flugfarþegum. En hefur einhver pælt í hvernig öryggismálum varðandi starfsfólk er háttað, eða hver hefur aðgang hvert og hvaða ráðstafanir eru gerðar? Við farþegarnir sjáum áhafnir flugvéla fara í gegnum stranga vopnaleit við öll tækifæri og fylgst er grannt með þeim í tolli. En hvernig eru öryggisráðstafanir varðandi starfsfólk flugvallarins sem við sjáum minna, t.d. þá sem koma með matinn og hreinsa vélarnar? Geta þeir farið milli flugstöðvarbyggingar og flugvéla, eða milli flugvéla, án þess að gangast undir einhvers konar leit?

ÍBV þrýstir á sjúkraflug

Eyjamenn geta verið stoltir af sínum mönnum, en fótboltamenn ÍBV sem sóttu KR heim nú í bikarnum notuðu tækifærið og lögðu áherslu á mikla þörf fyrir sjúkraflug milli lands og Eyja. Drengirnir lögðust hver um annan þveran í grasið hvað eftir annað og héldu um fót, læri, maga, bak og fleiri líkamshluta og engdust af kvölum. Virtist þetta vera þeirra leið til að láta landsmenn vita um þörfina á sjúkraflugi, því ekki hefur fundist önnur skýring. KR vann hins vegar og fengu áhorfendur eitthvað fyrir allan peninginn, þar sem leikurinn fór í framlengingu og vítaspyrnukeppni.

Frábær hestaþáttur

Ég vil lýsa ánægju minni með þáttinn Kóngur um stund, sem sýndur er í Sjónvarpinu á mánudögum. Stjórnendurnir, Brynja Þorgeirsdóttir og félagar, eiga hrós skilið fyrir skemmtilegan stíll og efnistök, enda einkenna frábær vinnubrögð þennan þátt á allan hátt. Hestamennska er vaxandi íþróttagrein og ekki síður mikilvægt fjölskyldusport og endurspeglar Kóngurinn það. Þegar þátturinn byrjaði aftur nú í vor heyrðust einhverjar fúlar raddir, á annars frábærum hestavef, um að þetta væri "eins og Séð og heyrt hestamennskunnar", en ég vona að það álit fárra merkikerta hafi verið kveðið í kútinn. Það sem skiptir mestu máli er sameiginlegur áhugi okkar á hestum og reiðmennsku, og að auki held ég að allflestir Íslendingar hafi mikinn áhuga á fólki, þannig að þátturinn höfðar til breiðari hóps en innvígðra snillinga, og er það vel. Fyrir nú utan það hve mikil þörf er á skemmtilegum íslenskum þáttum úr okkar daglega veruleika. Meira svona!

Hver er hverfaþjónusta borgarinnar?

Á hverjum degi á ég leið framhjá nýlega stofnaðri Þjónustumiðstöð Vesturbæjar og hef stundum velt fyrir mér hvaða þjónusta fari þar fram. Miðstöðin var sett upp allnokkru eftir að sambærilegar miðstöðvar höfðu verið settar á fót í nýjum, ómótuðum hverfum og sá ég fyrir mér að það væri til að veita samfélagslegan stuðning á meðan hverfin voru að mótast og öðlast sinn sess og karakter. Með tilkomu Vestugarðs tók ég ekki eftir því að þjónusta í hverfinu batnaði eða versnaði og ég gat ekki greint neinn sérstakan vöxt eða breytingu varðandi þjónustu við íbúana. Ég ákvað því að leita mér upplýsinga á netinu. Þar má sjá að 17 klárir og duglegir starfsmenn starfa hjá miðstöðinni, en ekkert kom fram um ákveðin verkefni Vesturgarðs, utan almennra markmiða. Er ég að missa af einhverju?

Sumarstemmningin feikuð

Það er haustveður í hájúlí og ekki hægt að fara í útilegu um helgina eins og til stóð. Þá verður maður bara að redda sumarstemmningunni! Hlakka til helgarinnar í rigningu, - ætla í góðan reiðtúr um Mosfellsdal, fíla sveitina í rigningunni og mæta svo í bikíní í ímyndunarsólbað í Vesturbæjarlaugina. Planið er svo að enda í innipúkaútilegu með familíunni, enda fyrirfinnst varla skemmtilegra og klikkaðra fólk. Jíha!

RÚV - notið efni svo við megum njóta!

Ég tek undir með blaðamanni Moggans varðandi dagskrá sjónvarps og endursýningar á leiknu, íslensku sjónvarpsefni. Það hefur náttúrulega aldrei verið framleitt mikið af því, og einstaklega lítið á undanförnum árum. En það sem þó hefur verið gert er margt skemmtilegt eða í versta falli skrýtið, og það gæti verið gaman að endursýna margt af því, hvort sem um er að ræða skemmtiþætti, framhaldsþætti eða sjónvarpsmyndir. Það er að myndast ákveðið menningarvitundarlegt holrúm hjá hópi fólks, og að lokum verður það bara Áramótaskaupið sem við eigum kannski sameiginlegt. Hvers vegna má endursýna alls kyns bandarískt efni, sem hefur elst misvel/illa, en ekki nýta það íslenska efni sem til er? Það væru endursýningar sem vit væri í.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband