Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þá er bara að halda í sér!

Stuðningsyfirlýsing barnshafandi kvenna við kjaradeilu ljósmæðra hófst með því að aðeins eitt barn fæddist á Landspítalanum fyrstu nótt verkfallsins. Áfram svona stelpur, gleymið kampavíninu, göngutúrunum og haldið ykkur frá kallinum! Herpið saman lærin og haldið í ykkur þar til búið er að semja! Ekki að spyrja að því...
mbl.is Eitt barn fæddist á LSH í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt í góðu Geiri beibí!

Hæstvirtur forsætisráðherra vor telur ekki að við eigum í neinum teljandi efnahagserfiðleikum, samkvæmt viðtölum við hann í fréttaþáttum beggja sjónvarpsstöðva í kvöld. Það er allt í góðu, þótt fólk missi vinnuna, fjöldauppsagnir hafi orðið víða, fyrirtæki verði gjaldþrota og loki áður blómlegri starfsemi. Það er allt í lagi þótt krónan dansi súludans og vextir séu orðnir svo háir að venjulegt fólk getur ekki einu sinni séð fyrir sér afleiðingarnar í verstu martröðum sínum. Og það er ekkert tiltökumál þótt eignatengdar skuldir fari langt umfram verðmæti eigna. Nei, nei, þetta er allt í góðu, ekkert stress, verið alveg róleg. Við höfum það gott. Hættið þessu væli....

Öryggisráðstafanir í flugvélum: eitt í dag og annað á morgun

Um daginn var ég á leið til Brussel sem oft áður. Eins og hlýðinn þegn, setti ég allar hreinlætisvörur í vökvaformi í plastpoka, til að þurfa ekki að verða fyrir þeirri niðurlægingu að láta einhvern kall róta í snyrtibuddunni minni, eins og kom fyrir þegar ég var ekki búin að venjast vökvahræðslunni. Samt lendi ég alltaf í því að morgunkaffið mitt (1/2 l. dæet kók) er gert upptækt við öryggishliðið. Ég geri samt alveg í því að sturta í mig dreggjunum úr flöskunni og tollverðir bíða þolinmóðir á meðan ég innbyrði mögulegan sprengivökvann. En semsagt, þar sem ég sat í seinni vélinni frá Köben til Brussel, tók konan við hliðina á mér upp prjónana og sat allan tímann og bætti vel í peysuna sem hún var með á prjónunum! Já, nú þegar öllum er orðið sama um naglaþjalir og ofuráhersla lögð á að gera snyrtipinnum erfitt að ferðast með því að taka af þeim allar hreinlætisvörur, þá fer fólk bara um borð með prjóna eins og ekkert sé! Það er ekkert samræmi í þessu og það eina sem hefur gerst er að fólki er gert eins erfitt og leiðinlegt og mögulegt er að ferðast. Samt hefur fólk aldrei ferðast meira.

Stóriðja í takt við tímann

Sú hugmynd, að bjóða erlendum veffyrirtækjum að setja hér upp netþjónabú, er líklega besta hugmyndin sem fram hefur komið í umræðunni um iðnaðaruppbyggingu og orkunýtingu. Hér væri um að ræða umhverfisvænan iðnað sem tæki ekki mikið pláss og mengaði lítið sem ekkert. Hægt væri að koma orkunni í verð, eins og stjórnmálamenn okkar virðast fyrir alla muni vilja gera, þjóðarbúið fengi tekjur af einhverju öðru en þorski og áli, og ekki verra að loks myndi kuldinn og vindurinn nýtast okkur sem söluvara. Þetta kalla ég stóriðju í lagi!
mbl.is Kostnaður við orku til netþjónabús 20-30% lægri hér en í samkeppnislöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umskurður kvenna og hryllingur heimsins

BíómyndirÁ sunnudaginn sá ég tvær fantagóðar bíómyndir, svona myndir sem vekja mann til umhugsunar um heiminn og mannkynið sem hann byggir. Önnur var Beyond bordersmeð Angelinu Jolie og Colin Powell. Hún fjallaði um yfirstéttarpjásu í London sem fær mjög sterka köllun til að taka þátt í hjálparstarfi sem síðan leiðir hana frá Afríku til Tsjétsjéníu í gegnum Kambódíu. Þar mæta henni hryllilegar aðstæður, allt frá þurrkum og hungursneyð til öfgahópa og hryðjuverkastríðs. Hin myndir var sunnudagsmynd Sjónvarpsins, Moolaadé eða Verndarkraftur, senegölsk mynd um konu sem hjálpar litlum stelpum að flýja umskurð eða "hreinsun" sem viðgengst á ungum telpum í mörgum löndum Afríku. Það er eitt af þeim málefnum sem ég tel að þurfi að berjast gegnhvað ötullegast í heiminum í dag, og eitthvað sem myndi ekki viðgangast ef fleiri konur hefðu verið við stjórnvölinn undanfarnar aldir, en það er önnur saga. Frábær mynd, sem tók á viðkvæmu efni á smekklegan hátt með blöndu af kaldhæðni yfir lífinu og tilverunni. Þakka RÚV fyrir að sýna mynd frá Senegal, gott framtak! Ekki skemmir fyrir að Pollý, Senegalpáfagaukurinn okkar gat heyrt tungu forfeðra sinna...

Rokið reddar

Það er greinilega fleira en mengun vegna reykinga eða svifryks sem ógnar andrúmslofti okkar, en samkvæmt þessari rannsókn í Róm má þar finna agnir úr öllum þeim efnum sem mannfólkinu dettur í hug að nota. Það er nú ljóta sullið sem hægt væri að greina í stórborgum á borð við Róm, London eða New York. Er í alvöru hægt að greina koffín í loftinu sem við öndum að okkur? Eða kókaín og maríjúana? Það sem ég segi, við eigum að vera þakklát fyrir rokið í Reykjavík, sem hvergi er hreinna eða kraftmeira en norðanmegin í Vesturbænum!
mbl.is Kókaínagnir í loftinu í Róm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjörnustælar flokkanna og fjölmiðlamenn

Þegar fyrstu tilkynningar um nýja ríkisstjórn komu í sjónvarpi í gærkvöldi var fróðlegt að sjá mismunandi viðmót flokkanna við fjölmiðlamenn. Í Valhöll stóð þrautreynd fjölmiðlakona RÚV vaktina og reyndi að fá ráðherra Sjálfstæðisflokksins til að staldra við og segja nokkur orð um ríkisstjórnarmyndunina. Þeir svöruðu henni hranalega og reyndu að koma sér undan og út, eins og þeir væru stjörnur, sem hefðu ekkert við fjölmiðla að segja. Þeir ættu að hafa gert sér grein fyrir að fölmiðlar eru þeirra tenging við almenning um landið og því er mér ómögulegt að skilja hvers vegna ekki var vilji til að tala örstutt við sjónvarpskonuna kurteisu. Hún var þarna til að bjóða þeim upp á að segja þjóðinni fyrstu fréttir af nýrri ríkisstjórn landsins, sem þjóðin sjálf átti þátt í að kjósa. Valdið kemur frá þjóðinni og fjölmiðlar eru tengingin, ekki gleyma því, Sjálfstæðismenn! Á Hótel Sögu var meira óðagot í gangi og fréttakona RÚV þurfti bókstaflega að berjast við fréttamann Stöðvar 2 um athygli, en ráðherrar Samfylkingar stóðu undir látunum og gáfu sér tíma til að svara spurningum fjölmiðla. Þarna var mjög áberandi munur á viðhorfi til fjölmiðla sem kom illa út fyrir Sjálfstæðismenn. Það var ekki eins og enn væri verið að ræða einhver leyndarmál. Þeir hljóta að hafa verið orðnir svona þreyttir, greyin...
mbl.is Ný ríkisstjórn kynnt fyrir forseta Íslands innan skamms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtilegir Moggabloggarar í Kastljósi

Óli Björn og Björn Ingi voru hjá Sigmari í Kastljósinu í kvöld að velta fyrir sér mögulegri úthlutum ráðherraembætta í nýrri stjórn. Þeir voru einkar léttir og skemmtilegir og hafa líklega skemmt sér vel í förðun, því þeir voru brosandi og hýrir í lund. Þeir hafa örugglega skroppið saman á pöbbinn í framhaldinu og skemmt sér konunglega. Brosandi sjónvarp, góð tilbreyting frá leiðindum og skítkasti. Það eina sem þeir hefðu mátt pæla í til viðbótar var, hvort ný stjórn muni ekki reyna að fækka ráðuneytum?

Góð eru kvennaráð

barbie and kenEkki kemur á óvart að sterkar konur í þingflokkum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, þær Þórunn Sveinbjarnardóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hafi undirbyggt viðræður flokka sinna til að liðka fyrir samstarfi. Konur læra jú, frá blautu barnsbeini, að stýra samskiptum fólks í gegnum leiki sem snúast um samskipti fólks og skipulag lífsins, á meðan drengir eru hvattir til að hunsa samskipti og sinna ofbeldi og látum. Þetta kemur fram betur og betur eftir því sem konur hasla sér völl í ábyrgðarstöðum. Pælið í því hve mörg heimsmál myndu leysast fljótt ef fleiri konur væru við stjórnvölinn! Hugsið ykkur hve koma hefði mátt í veg fyrir mörg stríð ef sú hefði verið raunin í mannkynssögunni.

Lobbyismi eðlilegur í stjórnmálum

Það er sérstakt hve formaður Framsóknarflokksins tekur viðræðum annarra flokksformanna illa. Síðan hvenær hefur lobbyismi þótt óðelilegur í stjórnmálum? Það er eftir fundina, í kaffitímanum, í símtölum og óformlegum viðræðum, sem hlutirnir gerast. Alveg óþarfi að taka slíkt persónulega...

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband