Bloggfærslur mánaðarins, maí 2006

Klaustur, írskir drykkir og dansar

Glendalough abbey
Írland, eyjan græna og blauta, here I come! Fer til Írlands á kosningadag til að sitja ársfund á vegum starfsmenntastofnunar Evrópusambandsins og það er alveg á hreinu að leiðin mun liggja beina leið í búðir í Dublin áður en ég tek til við menningu og vinnu. Á sunnudaginn heimsækjum við klausturrústir í Glendalough, og á mánudag eftir vinnu verður okkur boðið í Guinness verksmiðjuna, nema hvað! Þeirri heimsókn lýkur með kvöldverði og írskri tónlist og dönsum. Eftir þetta allt verð ég æðislega hress, því ég á að stjórna vinnuhóp á fundinum á þriðjudaginn!. Flýg heim strax um kvöldið til að ná að skipta um í ferðatöskunni fyrir suðlægari slóðir á fimmtudaginn...

Metnaðarleysi Samfylkingar og kjánastrákur Béflokks

Inn um lúguna kom í dag blöðungur frá Samfylkingunni sem á stóð: "Vesturbær er frábær" -mikið rétt. Svo er þar listi með loforðum en þau eru orðin tóm, því Samfylkingin hefur engan áhuga, getu né metnað til að gera nokkuð fyrir hverfið. Þessa skoðun mína er því miður hægt að rökstyðja með algjöru tómlæti gagnvart mínum bæ, Vesturbænum. Fyrrum borgarstjóri R-listans, sem nú er í Samfylkingunni, tók t.d. sundlaugarmálið svokallaða, sem á rætur að rekja til kraftafólks í Sunddeild KR, og gerði að sínu. Notaði það á íbúafundi og lofaði öllu fögru fyrir síðustu kosningar. Síðan hefur ekkert gerst.
Alls óskylt mál eru auglýsingar Bésins-fyrir Björn Inga. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um að kynna oddvita flokksins sem kjána, sem er utan við sig og ósjálfbjarga. Höfðar örugglega til margra kvenna samt, svona maður sem maður gæti tekið og stjórnað. En læt ég nú staðar numið um béara og essara að sinni.
Eins og oft áður þarf ég að kjósa utankjörstaðar og vona bara að ég muni eftir því!

Ungfrú Ísland

Ægilega voru þær allar dædar! Nýkrýnd Ungfrú Ísland virtist nú ekkert rosalega ánægð eða kannski bara ekki alveg tengd?! Það hlýtur að vera auðvelt að verða pínu raunveruleikafirrt eftir að hafa eytt undanförnum vikum eða mánuðum í að hugsa bara um að verða æðisleg. Hún er örugglega svaka ánægð, yfirveguð og flott. En nú er þetta búið, og þjóðin á nú ljóshærða Ungfrú Ísland, hana Sif frá Keflavík, sem er að læra að verða flugumferðarstjóri. Mér líst vel á hana, -til hamingju Sif! (og til hamingju Ísland, með að hún fæddist hér....la,la,la,...)

Elsku Makkinn minn!

Ég er einn af þessum Makka "nördum" (í jákvæðasta skilningi þess orðs), en varð fyrir því óláni fyrir skemmstu að skjárinn "brotnaði" á Kraftbókinni minni. Eins og heimsbyggð veit, og sífellt fleiri gera sér grein fyrir, þá bila Makkar yfirleitt ekki, en það varð semsagt slys. Ég kveið dálítið fyrir því að setja tölvuna á verkstæði, en þegar allt kom til alls var ég barasta ánægð með þjónustuna hjá Apple á Íslandi. Það var greinilega brjálað að gera, en þeir tóku fullt tillit til slyssins, tryggingavafsturs og þess að ég er að sjálfsögðu á leið til útlanda og vantar vélina fljótt. Um leið og nýr skjár hafði borist að utan, leið varla dagurinn áður en það var hringt í mig! Takk Apple, fyrir að vera til og enn í baráttunni!

Grundarfjörður er staðurinn

Grundarfjörður er greinilega aðalbærinn um þessar mundir. Það þarf ekki annað en líta á Kirkjufellið, eitt fallegasta fjall landsins, og maður er húkkt. Allt í einu hafa allir farið til Grundarfjarðar! Það tengist örugglega nýja skólanum og allri jákvæðninni og uppbyggingunni í bænum. Grundarfjörður er á norðanverðu Snæfellsnesi, sem er einstakt svæði og nóg að skoða. Hótel Framnes er æðislegt niðri við sjóinn, mitt á meðal útvegsfyrirtækjanna. Svo er algjör lífsreynsla að borða á Krákunni, sem er á undarlega sérvitran hátt frábært veitingahús. Alvöru matur og eigendurnir láta manni finnast eins og maður sé algjörlega einstakur! Eftir kvöldverð er tilvalið að taka lagið með heimamönnum í karaókí á Kaffi 59. Munið bara að það á að segja: „Í Grundarfirði“!
grundarfjordur.jpg

Flugvöllinn til Keflavíkur

Þetta segir sig sjálft. Í Keflavík er öll aðstaða fyrir hendi, þar er alþjóðaflugvöllur og vantar bara að geta gengið yfir á innanlandsdeildina, eins og er víðast hvar er hægt í evrópskum borgum. Hag alls almennings á landsbyggðinni er miklu betur borgið með því að geta ferðast beint, hvort sem er á suðvesturhornið, til Spánar eða Svíþjóðar. Aðstaðan sem herinn skilur eftir sig er tilvalin og mun nýtast vel, í stað þess að byggja allt upp frá grunni uppi í hrauni eða úti í sjó. Svo eru það þróunar- og vaxtarmöguleikar. Í Vatnsmýrinni eru þeir engir. Sker úti í sjó býður bara upp á aukin útgjöld vegna landfyllinga og umhverfisslysa. Reykjanes er velkominn hluti af Stór-Reykjavíkursvæðinu og gott og öruggt að nota nesið til flugs. Mun betra en -firðir og -sker, (sérstaklega þar sem við létum Álftanesið ganga okkur úr greipum, en það er annað mál). Ef einhver minnist á sjúkraflug, þá eiga Keflvíkingar öndvegissjúkrahús þar sem veitt er góð og persónuleg þjónusta, ekki mikið mál að styrkja innviði þess sjúkrahúss! Helsti kostnaður sem þarf að leggja í er til bættra samgangna milli Reykjavíkur og Reykjanesbæjar, en það verkefni er þegar hafið. Æ, kommon, mig vantar svo einbýlishúsalóð í Vesturbænum, ykkur er öllum boðið í innflutningspartý hjá mér að "Reykjavíkurflugvelli 1" - jibbí!!

Eurovision-nördar sameinast

Það er komið að því, Eurovision er í dag, en ekki bara í dag, heldur líka á laugardaginn. Þvílík veisla fyrir nörda Evrópu!. Við Íslendingar erum aldeilis ekki þeir einu, ónei. Spánverjar skiptast reyndar alveg í tvennt hvað þetta varðar. Þar þykir ekki fínt að horfa á keppnina, en margir fylgjast samt með í laumi, -svona laumunördar. Norðmenn og Svíar fylgjst með og skammast sín ekkert of mikið fyrir það. Dönum er slétt sama, enda er þeim slétt sama um svo margt. Grikkir eru alveg "into it", sérstaklega eftir að þeir unnu. Ítalir horfa bara á sitt lag, enda sannfærðir um að þeir séu rjómi Evrópu. Ég man ekki eftir fleiri löndum sem ég hef verið í á Eurovision... Og þótt Silvía Nótt fari fyrir brjóstið á mörgum með því að segja f-orðið, þá held ég að það sé ekkert betra að hún nefni g-orðið, eins og heimurinn er í dag?! Gott að þetta er ekki Ameríkuvision, þá væri hún löngu bannfærð.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband