Færsluflokkur: Dægurmál

Að koma sér að verki eftir helgina

Þá er sumarprófið búið og bara sex stór verkefni sem ég á eftir að klára að mestu leyti áður en ég hef störf í nýju vinnunni þann 1. sept. Alltaf gott að hefja störf á frídegi, þegar ég byrjaði hjá Mennt var það einmitt 1. maí. En eins og er, er frábært að vera að vinna heima, en verst hvað sjálfsaginn er oft lítill. Ég verð að nýta þessa viku vel... Hlakka ferlega til að fara síðan aftur að vinna á Laugaveginum, sé fram á að labba eða hjóla í vinnuna og hitta vini í hádeginu á kaffihúsi. 

Helgin var mjög góð, fyrrverandi samstarfsfélagar mættu í léttan kvöldverð og spjall á föstudag, en svo "beilaði" ég á hinu árlega sveitaballi á Nesinu á laugardag en sat þess í stað heima við skyndibitaát yfir Feita gríska brúðkaupinu, sem er alltaf jafn fyndin mynd. Sunnudagurinn snerist að mestu um leikinn, upphitun með stórfjölskyldunni og svo leikinn sjálfan. Fór reyndar aðeins fyrr af leiknum ("heyrði" bara markið í KR-útvarpinu) til að fara í saumó, með Hagamelsís í lítravís í farteskinu, sem rann ljúflega niður...


Markaskorari KR

Þvílíkt sem hún Olga er frábær fótboltaspilari og öflugur markaskorari, enda er KR best í kvennafótboltanum. Væri ekki hægt að nýta hana betur fyrir KR, t.d. fá hana lánaða í aumingja karlaliðið, þar sem enginn hefur cojones til að klára málið og skjóta á rammann!!

Landsliðið í tónlist á vellinum

Ég ætla ekkert að tjá mig um hvort bankar eiga að standa í tónleikahaldi eður ei, það er svona spurning um forgangsatriði þeirra sem eflaust má margt segja um. Nei, ég ætla bara að segja hvað mér fannst um flytjendur. 

SSSól enn í stuði, Helgi Björns klöngraðist meira að segja upp í turn og ég hafði smá áhyggjur af því að kallinn myndi fara sér að voða, en það fór ágætlega þótt klifrið hafi virkað allt annað en auðvelt fyrir hann.

Todmobile ber með sér að hittast lítið nú orðið. Koma soldið svona úr sitthvorri áttinni. Spurning að halda þeirri leið áfram og hætta þessu. Þau voru svo sterk í "den", má ekki eyðileggja það.

Bubbi mætti í Che múnderingunni og hamaðist við að vera pólitískur, gaman að honum. Hvað var þetta með gleraugun undir húfunni? Eru þetta dulbúin fjarsýnisgleraugu? Stál og hnífur klikkar ekki, það er útilegulag sem sameinar kynslóðirnar.

Garðar Thor kallaði fram gæsahúð hjá mér, sætur og intellektúal drengur með rödd sem vex og vex. Skemmdi ekki fyrir að hann söng um mína gömlu heimaborg, Granada.

Mmmm, súkkulaðistrákarnir í Luxor lofa góðu... en man reyndar ekkert hvernig þeir sungu! - en til hvers eru svona bönd nema til að vera sætir?

Nylon var kraftlaus, vantaði alla útgeislun á sviði, enda þurftu þær liðsstyrk og hlaup fram og til baka á sviðinu til að sanna að þær væru "in the house", annars gæti fólk haldið að það væri auglýsingahlé!?

Mugison er ekki alveg minn tebolli... 

Hljómsveit allra landsmanna var í stuði, Stuðmenn eru eins og harðfiskur og flatkökur í útilegu - alveg ómissandi í svona partýum. Húmorinn þannig að aðrar þjóðir skilja örugglega ekkert í því hvers vegna þeir eru vinsælir. Mátti greina einhverja austan-Alpastemmningu sem kom á óvart. Takturinn var þreytandi til lengdar og passaði ekki við gömlu lögin. Verð nú samt að viðurkenna að þeir virka soldið innantómir þegar vantar Röggu Gísla. Gaman að fá Bjögga með í lokin. Hann er náttúrulega töffari töffaranna. Ég efa að hann hafi áður komið fram í pilsi.

Páll Óskar er stuðbolti landsins, hefur ekkert fyrir því að  vera flottur. Stóð sig vel sem veislustjóri og frábært að láta hann hita upp með sínum lögum!

Já, var ekki bara gaman að þessu?! Nú er að sjá tónleika Landsbankans á morgun, Glitnir verður í hlaupinu, þannig að allir bankarnir hafa þá boðið landsmönnum upp á eitthvað skrall um helgina og munu væntanlega klappa sér á öxl fyrir það. 


mbl.is Aldrei fleiri á Laugardalsvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er veðrið þegar það er "crisp"?

Í morgunþætti Bylgjunnar í morgun talaði þáttagerðarkona um að hægt væri að finna að haustið nálgaðist, þar sem veðrið væri farið að vera svona "crisp" og var það örugglega nothæfasta orðið sem henni datt í hug. Ég skil lýsinguna, en langar að finna upp orð sem lýsir þessari "crispy" tilfinningu, þegar loftið er brakandi án þess að vera beint mjög kalt. Hugmyndir vel þegnar.

Íslenskir hestar erlendis

Ég var að horfa á samantekt frá heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem nú fer fram í Hollandi. Íslenski hesturinn er örugglega ein besta landkynningin okkar og frábært hve vel hefur gengið að kynna hann erlendis. En ég get ekki að því gert, að í hvert sinn sem ég horfi á íslenska hesta sem hafa verið fluttir út vegna keppni eða hafa verið seldir, þá er það tvennt sem vekur hjá mér ónotatilfinningu. Annars vegar hugsa ég alltaf hve heitt hestunum hlýtur að vera í ókunnu loftslagi, og hins vegar finn ég til sorgar yfir þeirri staðreynd að þegar hestarnir eru komnir út, eiga þeir aldrei afturkvæmt heim hvort sem eigendum þeirra líkar vetur eða verr. 

Breytt útilegustemmning

Með breyttum ferðavenjum og fjölbreyttara framboði á alls kyns afþreyingu um allt land hefur útilegu- og ferðamenning landans breyst mikið. Verslunarmannahelgin er ekki endilega mikilvægasta helgi ársins, helgin sem allir bíða eftir með uppsafnaðri spennu allt sumarið, helgin sem síðan stendur e.t.v. ekki undir væntingum þegar upp er staðið. Nú er hægt að sækja bæjarhátíðir og menningarsamkomur um allt land yfir sumarið, og er sú þróun jákvæð. Gistimöguleikar eru líka fleiri en nokkru sinni fyrr og tekið er tillit til allrar fjölskyldunnar í skemmtun og afþreyingu. Þessi þróun hófst e.t.v. fyrir um áratug og það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með henni og taka þátt í að gera Ísland að betra ferðamannalandi fyrir innlenda og erlenda gesti, og best af öllu að fá að njóta þess sem okkar frábæra land hefur upp á að bjóða með fjölskyldu og vinum.


Mannlegur aldingarður

Dreif mig í fríinu að lesa Aldingarðinn, smásagnasafn Ólafs Jóhanns Ólafssonar sem kom út um síðustu jól. Þetta eru frábærlega vel gerðar sögur af venjulegu fólki sem á það sameiginlegt að ástin og tíminn hafa á einhvern hátt haft áhrif á líf þess. Sögurnar eru fljótlesnar og hreyfa við manni. Mæli með henni sem sumarlesningu.

Ostaskeraleitin mikla

imagesEitt af verkefnum sumarsins hefur verið að finna nothæfan ostaskera (ostahníf, ostaskerara) fyrir heimilið þar sem sá gamli góði gufaði upp með dularfullum hætti. Þetta var svona ostaskeri sem maður finnur aðeins einu sinni á lífsleiðinni, þar sem hann skar ost betur en aðrir slíkir. Hann var ekkert sérstaklega fagur, og því hafa verið nokkrir aðrir verið keyptir sem voru kannski flottari, en enginn þeirra hefur leyst grundvallarhlutverkið eins vel af hendi og sá gamli, þ.e. að skera fullkomnar ostsneiðar, án hlykkja, skrykkja eða annarra hnökra í ferlinu. Við höldum að sá gamli hljóti að hafa hafnað í ruslinu ásamt afgögnum af diskum, þar sem engin önnur skýring finnst á hvarfinu. Kannski maður þurfi að leita til Noregs, en ostaskerinn eins og við þekkjum hann er norsk uppfinning. Leit stendur yfir af verðugum arftaka...

Túttublómin eru komin!

Þegar ég var lítil - á áttunda áratugnum, þá gáfum við blómunum nafn eftir eiginleikum þeirra og hvernig við kynntumst þeim. Þess vegna heita baldursbrár líka túttublóm og biðukollur fíflanna blásublóm.  Hvönnin var músablóm, því í gamla Vesturbænum földu mýsnar sig í rótum hvannarinnar. Svo var það lakkrísblómið, sem ég hef nýlega lært að heitir Spánarkerfill, og flugublóm, sem ég man aldrei hvað heitir réttu nafni, en það var með belg fyrir neðan blómið sem flugur skriðu inn í. Peningablóm eða ástarblóm var arfi með hjartalaga lauf og lúpínan var sykurblóm, svo ekki sé minnst á breiðustu grasstráin sem voru að sjálfsögðu ýlustrá. 


Sumarleg frétt á sumarsólstöðum

solGirnilegasta, sumarlegasta fréttin í sjónvarpinu í dag var af krökkum fyrir austan að stökkva ofan í Eyvindará í sólinni. Mig langar þangað, að stökkva ofan í ána, að vera í sólinni... mig langar út í sumarið! Það er allt fallegt við þennan dag, og ég hvet alla til að draga ekki fyrir sólina í nótt heldur hafa gardínur opnar og njóta ósvikinnar íslenskrar sumarnætur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband