Færsluflokkur: Tónlist

Miðaldra pönkarar og eilífar diskódúllur

mohawk hairstyleAldarfjórðungur er frá því kvikmyndin Rokk í Reykjavík var frumsýnd, og að því tilefni bauð Jón Ólafs nokkrum pönkurum, sem voru í myndinni, í sjónvarpsþátt sinn í kvöld. Það er sniðugt að sjá miðaldra menn rifja upp bernskubrekin, og eiginlega frekar krúttlegt.  En svakalega voru sumir ungir menn reiðir á þessum tíma! Var það bara til að vera eins og ungt fólk samtímans í London? Þar bjó fólk við ofbeldi og langtíma atvinnuleysi og sá ástæðu til að gera uppreisn gegn kerfinu. Hér voru aðstæður aðrar, en samt um að gera að taka þátt í nýjustu straumum í tónlist og tísku. Það komu rosa margir áhugaverðir tónlistarmenn upp á þessum tíma sem hafa haft áhrif á íslenska tónlist, eins og t.d. Þeyr og Björk, og óhætt að segja að þetta hafi verið einstakur tími. Ég man vel eftir þessum tíma, en ég var svoddan diskódrottning og nýbylgjudúlla að umræddir menn hefðu sjálfsagt ælt. 

Eiríkur flottur

Stigagjafaþættir Norðurlandaþjóðanna, þar sem lögin í Eurovision eru sýnd og dæmd, er alltaf hin besta skemmtun og orðin mun betri en keppnin sjálf! Þar er keppnin tekin mátulega alvarlega og skapaðar umræður um þetta menningarlega fyrirbæri sem Eurovision er. Eiríkur kemur vel út, drengur góður, lítillátur og norrænn án þess að tapa kúlinu - þrátt fyrir að vera hluti af geiminu í ár.

Tiplað á línu lögleysis og siðleysis

SmáblómUm leið og Spaugstofumenn hófu upp raust sína og sungu texta um álver og álvæðingu, vissi maður hvað var að gerast. Þeir njóta þess að tipla á tánum á línu þess sem telst löglegt og / eða siðlaust, sbr. páskaþáttinn um árið, sem mér fannst reyndar mjög fyndinn. Þetta er náttúrulega spurning um viðkvæmni og virðingu og hve mikið af hvoru við viljum hafa í heiðri. Mér fannst þjóðsöngsgrínið ekkert mjög smekklegt, en þá er hægt að spyrja: er hægt að banna fólki að syngja sinn eigin texta við þekkt lög? hvað um það þegar landslið Íslands í íþróttum syngja bandvitlausan texta við lagið? en þegar erlendar lúðrasveitir nauðga laginu sjálfu svo það er vart þekkjanlegt, t.d. á alþjóðlegum íþróttaviðburðum? hve viðkvæm ætlum við að vera, t.d. í samanburði við Breta, en í þeirra gríni er allt leyfilegt? Ég verð reyndar að játa að mín fyrsta hugsun á laugardagskvöldið var að blogga um þetta, -talandi um að vilja vera fyrstur með fréttirnar!


mbl.is Spaugstofumenn brutu lög um þjóðsönginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

George og Ringo syngja fyrir nútímann

BeatlesUm daginn kom út platan "Love" með endurhljóðblönduðum og mixuðum lögum Bítlanna. Ég hef ekki heyrt hana alla en tek eftir að þau lög, sem einkum heyrast í útvarpi, eru "Octopussy's Garden" sem Ringo syngur og "While my Guitar Gently Weeps" sem George syngur. Þeir voru alltaf einhvern veginn Bítlarnir sem féllu í skuggan af John og Paul. Ekki skrifaðir sem lagahöfundar að mörgum lögum og sungu fá lög. Gaman að heyra þá syngja fyrir nútímann! Lagið sem George syngur finnst mér frábært, bæði lagið og textinn, en hitt er svona meira eins og það hafi verið samið í einhverju vitundarvíkkandi ástandi. Nema ég hafi ekki lesið nógu djúpt í textann.

Skoppandi líkamspartar og spiktutlur

Þetta gæti orðið grafískt og líka ákaflega vandræðalegt. Ímyndið ykkur hressilegan tröpputíma. Spinning með hraðri tónlist. Brjóst af öllum stærðum og gerðum að hristast í allar áttir, teygð og toguð. Pungar skutlast upp og niður, svitastorknir og klepraðir. Fitukeppir og spiktutlur fá alla athyglina. Nei, þá vil ég heldur þurfa að gangast undir tískuna í líkamsræktarsalnum. Ég verð að játa að ég sé ekkert eftirsóknarvert við nakið fólk saman í líkamsrækt. Kannski er ég bara svona púkó?
mbl.is Mikill áhugi á líkamsrækt fyrir nakta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorrí mamma, hann er endanlega genginn út

Ofurtöffari landsins, Rúnar Júl giftist loks sinni heittelskuðu til hundrað ára, Maríu Baldursdóttur, í dag. Mömmu fannst hann æði. Fór á tónleika í Glaumbæ og reyndi að komast sem næst goðinu. Ég dáist að Maríu og Rúnari að hafa verið saman í gegnum súrt og sætt, frægð og frama beggja. Til hamingju með hvort annað! Mamma hefur það bara fínt, takk...

Höldum okkur við ímyndina um svala töffara

Wham! Bam! I am! A man! Job or no job, you can't tell me that I'm not! Do you enjoy what you do?! If not, just stop, don't stay there and rot! Þennan texta sungu þeir félagar í Wham þegar þeir voru ungir og vildu helst firra sig allri ábyrgð í lífinu, töluðu á móti því að festa sig í einhverri leiðindavinnu og sitja uppi með krakka og kerlingu. Síðan þá hefur George gengið í gegnum ýmislegt misjafnt en Andrew flutti á sveitabæ með konu sinni (sem söng bakraddir með Wham) og hóf búskap og virtist sáttur og frekar rólegur með lífið. Ég veit satt að segja ekki hvort það sé góð hugmynd að þeir reyni að koma saman aftur. Mér finnst bara svaka gott að muna þá í hvítum bolum með blacklight-væna fylgihluti í skærum litum, hoppandi og skoppandi um sviðið, eða sólbrúna á vindsæng í Club Tropicana, dreypandi á kokkteilum. Það geta ekki allir átt comeback, þótt Duran Duran hafi risið úr stónni eins og fuglinn Fönix.
mbl.is Tvíeykið Wham að undirbúa hljómplötu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtun fyrir konur, börn og homma - hvað kemur rigning þessu við?

Í Blaðinu í dag er ágætis kvikmyndasíða sem ég las upp til agna, sérstaklega greinina um söngvamyndir sem sagðar eru gerðar fyrir ofangreinda hópa. Svo er listi yfir vinsælustu titillög nokkra dans- og söngvamynda, en fjögur af tíu titillögum fjalla um rigningu!

Ég elska dans og söngvamyndir -og er stolt af því, og held mest upp á tvö tímabil. Fyrst eru það gullaldarár MGM kvikmyndaversins í kringum 1950 þegar sjarmörinn Gene Kelly, dramaunglingurinn Judy Garland, stríðnispúkinn Mickey Rooney, sunddrotningin Esther Williams og dansandi parið Fred og Ginger voru upp á sitt besta. Síðara tímabilið eru svo the "roving eighties". Nostalgían grípur mig og diskótakturinn hríslast um mig alla þegar ég hugsa um Flashdance, Grease, Footloose, Saturday Night Fever, Breakdance, Beat Street og Fame. Ég á það meira að segja til að bresta í söng við ýmis tækifæri, stökkva upp á bíla og húsgögn og tjá mig með dillandi diskó eða steppi og taka nokkra létta tóna. Ef þið hafið ekki séð mig, þá eigið þið mikið eftir! En það var þetta dularfulla rigningarmál. Vinsælustu titillög söngvamynda eru samkvæmt Blaðinu:

1. Singin' in the Rain úr úr samnefndri mynd
2. America úr West Side Story
3. Over the Rainbow úr Wizard of Oz
4. The Sound of Music úr samnefndri mynd
5. Tomorrow úr Annie
6. Supercalifragilisticexpialidocious úr Mary Poppins
7. The Rain in Spain úr My Fair Lady
8. Don't Rain on my Parade úr Funny Girl
9. You're The One That I Want úr Grease
10. Roxanne úr Moulin Rouge


Friður sé með okkur

Það er bara frekar kúl að Yoko Ono velji að vera á Íslandi á afmæli Johns. Súlan í Viðey mun standa fyrir fordæmi Íslendinga sem friðsamrar þjóðar, en það vekur samt með mér nokkurn ugg. Fögur verk geta nefnilega verið misskilin eða haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Hvað ef þetta beinir athygli fólks að Íslandi sem friðarparadís sem sniðugt væri að ráðast á, bara svona táknrænt séð? Vonandi ekki. Spurning hvort við ættum að hafa hippahvataferðir út í Viðey, þá gæti fólk setið í kringum súluna og elskað friðinn með blóm í hárinu. Allir bara í gúddí fíling með gítar og friðarpípur. Til hamingju John, bara að við hefðum mátt njóta hæfileika hans enn þann dag í dag. Annars átti hún Carmen, tíkin mín, afmæli í dag og hefði orðið átján, mér finnst það miklu merkilegra!

Frábær götuhátíð

Hér má finna myndir af Hagamelshátíðinni sem var 9. sept sl. Hátíðin var haldin í tilefni af því að 60 ár eru frá því fyrstu húsin við Hagamelinn og Melaskólinn voru byggð og að 50 ár eru síðan yngri hluti görunnar og Melabúðin komu til sögunnar. Frábær mæting var, enda voru allir velkomnir, íbúar, velunnarar, vinir og aðdáendur. Fararstjórinn var að sjálfsögðu í undirbúningsnefndinni ásamt öðru frábæru fólki...

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband