Færsluflokkur: Matur og drykkur

Melabúðin er hagstæðari á svo margan hátt

Melabudin

Sumir hneykslast á því að ég versla oftast í Melabúðinni og geri mér ekki ferð í stórmarkaði nema til að kaupa stærri pakkningar af hreinlætisvörum eða þegar ég á von á fleiri en fjórum í matarboð. Þá er fólk að hugsa um verðlagið fyrst og fremst. Ég hef hins vegar alltaf haldið því fram að Melabúðin sé ekkert dýrari en aðrar matvöruverslanir nema ef vera skyldu Bónus og Krónan - sem ég sæki vegna áðurnefndra vörukaupa.

Í gær datt ég inn í Hagkaup Eiðistorgi og ákvað að kaupa nú inn af því helsta sem vantaði en fékk næstum hjartaáfall við kassann vegna þess hve hátt verðið var. Þetta fannst mér ástæða til að gerast meðvitaður neytandi og fór því með kassamiðann og bar saman þær vörur sem ég kaupi helst í minni búð, Melabúðinni. Og viti menn! Melabúðin er mun ódýrari, svo nú hef ég áþreifanlegar sannanir!

En Melabúðin er hagstæðari á svo margan hátt, ekki aðeins fyrir budduna. Hér eru nokkur atriði sem mér koma helst í hug:

 

  1. Vöruverð er í meðallagi, dýrara en Bónus en hagstæðara en t.d. Hagkaup og Nóatún. 10-11 kemur þessu ekki við, því hún er svo svaka dýr. 
  2. Ég og mínir göngum í verslunina, þurfum ekki að fara á bíl með meðfylgjandi bensíneyðslu, mengun og umferð.
  3. Hægt er að senda börnin í búðina þegar eitthvað smálegt vantar. Það kennir þeim sjálfstæði og að aðstoða við heimilisstörfin.
  4. Ég kaupi BARA það sem vantar þá stundina. Það þýðir að ég er alltaf með ferskt hráefni og safna ekki birgðum sem annars vegar taka pláss og hins vegar fara oft yfir síðasta söludag og enda í ruslinu og verða því mun dýrari á endanum.
  5. Ég hitti nágranna og vini, tala við fólk og fæ fréttir í rólegheitum, þar sem enginn er í stórmarkaðastresskasti.
  6. Ég fæ hlýlegt og gott viðmót, frábæra og persónulega þjónustu og ýmsa aukaþjónustu sem fólk sem þekkir bara stórmarkaði veit ekki einu sinni að er til. T.d. er hægt að láta skrifa hjá sér vörur ef maður er blankur eða gleymdi veskinu, afgreiðslufólk gefur ráð við innkaup og jafnvel uppskriftir og margt fleira.
  7. Þar sem ég þarf ekki að fara á bíl, þarf ekki að bera kynstrin af vörum, ég hitti fólk og fæ gott viðmót og persónulega þjónustu, þá hefur Melabúðin góð andleg áhrif sem er ómetanlegt fyrir geðheilsuna...

 

Ég gæti haldið áfram en læt gott heita.


Að taka viljann fyrir verkið

Ég ætlaði að vera rosa sniðug og byrjaði í leikfimi í ágúst (stuttu, lokuðu námskeiði) og var hugmyndin að vera komin af stað ÁÐUR en allir kjánarnir láta undan auglýsingum og hópþrýstingi og flykkjast í ræktina í september. Mjög góð hugmynd. Svo koma svona vikur eins og þessi hér, í dag fór ég í erfisdrykkju uppúr hádeginu og svo í unglingaafmæli í kvöld, þannig að mataræðið var eins og við er að búast og leikfimistímanum sleppt. Næsti leikfimistími er á miðvikudaginn, þá verð ég með erlendan fyrirlesara hjá mér og fer með honum út að borða. Síðasti tími vikunnar er svo á fimmtudaginn og þá er ég að fara í kvennaklúbbskvöld með tilheyrandi veitingum og sleppi þ.a.l. leikfiminni. En hugmyndin er góð, þessi þarna sem sneri að því að fara í leikfimi og borða hollan mat... 

Hluti af stemmningunni

Poppmaul er stór hluti stemmningarinnar við að fara í bíó. Munið þið eftir þegar poppið í bíó var selt í lokuðum plastpokum af temmilegri stærð og maður þurfti að standast freistinguna að opna poppið áður en myndin hófst? Nýja poppið er ágætt líka. Opnir pokar og gífurlegt magn auglýsinga og kynninga áður en myndin sjálf hefst í bíó hefur líka orðið til þess að ekki margir eiga popp eftir þegar kemur að myndinni sjálfri! Popp og bíó, órjúfanlegt par!
mbl.is Popp bannað í bíóum í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtilegur fundur í Tékklandi

LibliceÉg er stödd í Tékklandi, nánar tiltekið í litlum bæ utan við Prag sem heitir Liblice. Tilefnið er ársfundur EUSCEA, Evrópusamtaka þeirra sem stýra mennta- og vísindaviðburðum, (www.euscea.org) Fundurinn fer fram í gamalli fallegri höll, sem sjá má á meðfylgjandi mynd, en hún hefur verið gerð upp og er núna notuð sem ráðstefnuhótel. Maturinn hér er stórkostlegur, ég veit nú ekki hvort hann er neitt sérstaklega tékkneskur, en hann er góður. Það helsta sem er tékkneskt eru kartöflur í öllum útgáfum auk alls kyns pylsa. Við fengum okkur rauðvín héðan úr héraðinu sem kom mjög á óvart, ferskt og gott. Við erum hér 40 manns frá 23 löndum, mjög skemmtilegt og hresst fólk, eins og við er að búast af viðburðastjórnendum.

Sagan um ísskápinn sem dó

Ísskápurinn á heimilinu gafst upp á fimmtudaginn. Ég brást auðvitað við með því að reyna að forða sem mestu af matnum frá skemmdum, og sem betur fer átti ég von á fólki í heimsókn sem þannig breyttist í matarboð. Í frystinum var dýrindis humar frá Vestmannaeyjum, rækjur og krabbi þannig að þemað varð sjávarkrás. Gestirnir mættu með vín og því varð fínasta veisla úr þessu. Verst er að ég var nýbúin að kaupa birgðir af ís sem fóru beint í ruslið. En þá var það ísskápurinn sjálfur. Ég byrjaði á að reyna að fá ísskáp lánaðan en ákvað frekar að drífa í að kaupa. Það sem hefur orðið okkur til bjargar er að það er fullkomið veður til að geyma helstu nauðsynjar úti við, og því ríkir útilegustemmning á Hagamelnum. Svo voru ísskápabúðirnar þræddar, spáð og spekúlerað, og vonandi tekst að finna rétta skápinn um helgina. Á meðan er það bara útilegustemmning á norðursvölunum!

Er þetta merki um fullorðnun?

Ég hef aldrei komist upp á lag með að drekka mikið kaffi. Fannst það bara vont á bragðið og hélt mig við dæet kók eða aðra kalda drykki. Ég byrjaði að smakka kaffi um þrítugt þegar ég vann á Spáni og fannst ágætt að fá einn sterkan eftir kvöldmat, enda var kaffið þar gott, og jafnaðist ekkert á við einn Café cortado eða jafnvel Tía María kaffi. Svo þegar ég vann í Portúgal komst ég virkilega að því hvað kaffi getur verið gott. Á vinnustöðum hér heima fór á sama tíma að bera á "alvöru" kaffivélum og maður gat fengið "cortado" (hér á landi kallaður "macchiato" uppá ítalskan máta) eða cappuccino á fundum í staðinn fyrir afrennslið sem áður tíðkaðist. Núna hef ég verið á tveimur vinnustöðum þar sem eru góðar kaffivélar og ég er barasta farin að fá mér kaffi á hverjum degi! Það er ennþá gos á morgnana eins og unglingarnir, en svo allt í einu langar mig bara hreinlega í kaffibolla. Skrýtið. Ætli þetta sé eins og með ólífur, avocado, gin og fleira, sem maður "lærir" að þykja gott með aldrinum? En semsagt, ég leyfi mér að halda því blákalt fram að kaffinotkun mín tengist því að ég sé orðin fullorðin, svo nú má fara að taka mig alvarlega hvað á hverju.

Hátíðarmaturinn snæddur í rólegheitum

Nýársdagur enn á ný, og árið 2007 virðist hafa flogið hjá á ógnarhraða. Snemma dags í dag fórum við í okkar hefðbundnu nýársgöngu, þótt það hafi verið frekar kalt. Mér finnst samt nauðsynlegt að fara út íu göngutúr á þessum degi til að hnusa af nýja árinu sem er að feta sín fyrstu skref. Þar sem brennan var haldin í dag, fékk ég góða vini í heimsókn til að borða kalkúnaafganga og svo löbbuðum við niður á Ægisíðu. Það var varla líft á brennunni sökum reyks og því drifum við okkur heim og skutum upp flugeldunum sem geymdir voru síðan í gær. Mér finnst stundum eins og hátíðarmaturinn sem tilheyrir aðfangadegi og gamlársdegi bragðist betur daginn eftir, kannski vegna þess að þá er ekki verið að borða í stressi til að taka þátt í hátíð kvöldsins, pökkum, brennum og flugeldum. Ég fíla að borða afganga daginn eftir í rólegheitum.
Svo er það bara að koma sér í gírinn fyrir nýtt ár, skipuleggja sig og setja markmið fyrir komandi vikur og mánuði. Gleðilegt nýtt ár!


Síríuslengjan bjargar ferðinni

Það verður nú að segjast, að það er ekki alltaf þægilegt að ferðast á almennu farrými í þröngum flugvélum fullum af farþegum í misjöfnu veðri og oftast á ókristilegum tímum eins og ég hef gert nokkrum sinnum í haust. Það er ekki einu sinni hægt að taka upp Makkann og nota tímann til að vinna, svo lítið er plássið og olnbogarýmið. EN mitt í öllum óþægindunum, þá bíð ég í ofvæni eftir bjargvættinum: SÍRÍUSLENGJUNNI sem nú fylgir næstum alltaf með matnum um borð. Algjör snilld. Meira af þessu Icelandair! En ég veit ekki hvað ég geri ef ég sé köldu skinkuna einu sinni enn, sem fluffurnar fegra með því að kalla "hamborgarhrygg"! Þá vil ég heldur fá átta Síríuslengjur, kók og kaffi.

Af Rómverjum, englum og djöflum

Roma, Fontana di TreviFjölskyldan brá sér til Rómar í vetrarfríi barnanna, enda kjörið tækifæri til að kynna þeim vöggu evrópskrar menningar um leið og kíkt er í búðir og borðaður góður matur. Róm er ein af mínum uppáhaldsborgum í Evrópu og þreytist ég seint á að detta um sögu, menningu og fegurð við hvert götuhorn. Svo á ég frábæran vin í Róm, hann Tito, sem finnst ekki tiltökumál að hitta fólk og leiða það um götur og veitingastaði borgarinnar. Í þetta sinn kenndi hann dætrunum allt um pizzur og pasta og útskýrði að ekki má setja hvaða sósu sem er á hvaða pasta sem er! Að áeggjan Titos keypti ég bók Dan Browns, Engla og djöfla, sem einmitt gerist í Róm og las hana í næstu flugferðum mínum. Hún er hræðilega spennandi og mun betri en da Vinci lykillinn, ég mæli með henni. Að öðru leyti gengum við okkur til óbóta í Róm, versluðum pínu, borðuðum mikinn og góðan mat og drukkum í okkur menningu og sögu. Tito leysti mig svo út, eins og venjulega, með heimalöguðu Limoncello, namm, namm!

Hvernig kaffi ert þú?

Samkvæmt kaffiprófinu er ég

Frappuccino!

Þú ert jákvæður og nýjungagjarn einstaklingur sem hikar ekki við að gera óvenjulega hluti og klæðast litskrúðugum fötum. Þú ert týpan sem hleypur á eftir strætó langar leiðir með hrópum og köllum ætli hann að fara án þín.

Þú ert ískalt kaffi með mjólk, sykri og ísmolum, borið fram í háu glasi með röri.

Hvernig kaffi ert þú eiginlega?

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband