Færsluflokkur: Menning og listir

Viðburðaríkur mánuður

September hefur verið svakalega viðburðaríkur hjá mér í vinnu og víðar. Búin að skipuleggja tvo risaviðburði og fjóra minni, sem allir tókust afskaplega vel. Vísindakaffin voru vel sótt og aldrei hafa fleiri komið á Vísindavöku. Svo er það skipulagið á Viku símenntunar sem mínir frábæru samstarfsaðilar um allt land sjá síðan um að framkvæma. En ég verð að játa að ég veit ekkert skemmtilegra en skipuleggja viðburði - ég bókstaflega þrífst á þeim! Tengist sjálfsagt gamla fararstjóranum í mér... En ég er nú samt pínu þreytt eftir þessa törn og fegin að nú gefst tími til að sinna persónulegum málefnum sem hafa setið á hakanum, eins og að hitta fjölskyldu og vini og kannski fara að synda og hjóla aftur. 

Hluti af stemmningunni

Poppmaul er stór hluti stemmningarinnar við að fara í bíó. Munið þið eftir þegar poppið í bíó var selt í lokuðum plastpokum af temmilegri stærð og maður þurfti að standast freistinguna að opna poppið áður en myndin hófst? Nýja poppið er ágætt líka. Opnir pokar og gífurlegt magn auglýsinga og kynninga áður en myndin sjálf hefst í bíó hefur líka orðið til þess að ekki margir eiga popp eftir þegar kemur að myndinni sjálfri! Popp og bíó, órjúfanlegt par!
mbl.is Popp bannað í bíóum í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtilegur fundur í Tékklandi

LibliceÉg er stödd í Tékklandi, nánar tiltekið í litlum bæ utan við Prag sem heitir Liblice. Tilefnið er ársfundur EUSCEA, Evrópusamtaka þeirra sem stýra mennta- og vísindaviðburðum, (www.euscea.org) Fundurinn fer fram í gamalli fallegri höll, sem sjá má á meðfylgjandi mynd, en hún hefur verið gerð upp og er núna notuð sem ráðstefnuhótel. Maturinn hér er stórkostlegur, ég veit nú ekki hvort hann er neitt sérstaklega tékkneskur, en hann er góður. Það helsta sem er tékkneskt eru kartöflur í öllum útgáfum auk alls kyns pylsa. Við fengum okkur rauðvín héðan úr héraðinu sem kom mjög á óvart, ferskt og gott. Við erum hér 40 manns frá 23 löndum, mjög skemmtilegt og hresst fólk, eins og við er að búast af viðburðastjórnendum.

Sumt grín er G-vara - endursýnum góðar gamanþáttasyrpur

allo alloÉg rakst á þátt um daginn sem heitir "Er grín G-vara?" þar sem sýndar eru gamlar glefsur úr íslenskum grínþáttum, gömlum áramótaskaupum o.fl. Var það ekki skaupið 1982 eða 84 sem var svo ægilega gott, að í minningunni hefur annað eins skaup ekki verið gert? Samt er það nú þannig að sumt af þessu gríni hefur ekki elst vel. Hins vegar langar mig að vekja máls á því að Sjónvarpið endursýni ógleymanlega erlenda þætti á borð við Löður (Soap) og Allo! allo!. Ég hef verið að fylgjast með síðarnefndri þáttaröð á ferðum mínum um Evrópu, og þar er sko komið grín sem eldist vel. Ég sit ein á hótelherbergjum og finn mér afsakanir til að mæta ekki í dýrindis kvöldverði aðeins til að missa ekki af René og félögum í frönsku andspyrnuhreyfingunni og málverkinu af "the fallen madonna with the big boobies!" Hvernig væri að dusta rykið af þessum góðu þáttum sem hafa sannað að sumt grín er G-vara?

Er þetta merki um fullorðnun?

Ég hef aldrei komist upp á lag með að drekka mikið kaffi. Fannst það bara vont á bragðið og hélt mig við dæet kók eða aðra kalda drykki. Ég byrjaði að smakka kaffi um þrítugt þegar ég vann á Spáni og fannst ágætt að fá einn sterkan eftir kvöldmat, enda var kaffið þar gott, og jafnaðist ekkert á við einn Café cortado eða jafnvel Tía María kaffi. Svo þegar ég vann í Portúgal komst ég virkilega að því hvað kaffi getur verið gott. Á vinnustöðum hér heima fór á sama tíma að bera á "alvöru" kaffivélum og maður gat fengið "cortado" (hér á landi kallaður "macchiato" uppá ítalskan máta) eða cappuccino á fundum í staðinn fyrir afrennslið sem áður tíðkaðist. Núna hef ég verið á tveimur vinnustöðum þar sem eru góðar kaffivélar og ég er barasta farin að fá mér kaffi á hverjum degi! Það er ennþá gos á morgnana eins og unglingarnir, en svo allt í einu langar mig bara hreinlega í kaffibolla. Skrýtið. Ætli þetta sé eins og með ólífur, avocado, gin og fleira, sem maður "lærir" að þykja gott með aldrinum? En semsagt, ég leyfi mér að halda því blákalt fram að kaffinotkun mín tengist því að ég sé orðin fullorðin, svo nú má fara að taka mig alvarlega hvað á hverju.

Leikhúsin að gera góða hluti

LeikhúsFrábært framtak hjá leikhúsunum að bjóða upp á ódýrari miða fyrir börn og ungt fólk. Þetta ýtir við manni að drífa sig að sjá það sem mann langaði að sjá í vetur og taka börnin með. Ég hringdi í dag og pantaði miða á nokkrar sýningar í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu svo við mæðgur verðum á leikhúsmaraþoni út febrúar! Við ætlum að sjá Ívanov á morgun, Sólarferð eftir tvær vikur og svo eina eða tvær sýningar uppi í Kringlu þar á milli. Reyndar hefur Borgarleikhúsið lengi haft ókeypis fyrir börn undir tólf ára, og ég hef nýtt mér það mikið til að menningarvæða afkvæmin og farið með þær að sjá hin ólíkustu leikverk. Þær eru alltaf til í að fara á leikhús, ég er mjög ánægð með hvað þær eru opinhuga gagnvart því. Núna eru þær orðnar pínu eldri, svo þetta kemur sér vel. Þótt það sé ekki aðalmálið með verðið, þá er það nú bara þannig, að svona tilboð virkar eins og pot til að minna mann á að drífa sig í leikhús.

Mögnuð sýning og upplifun í Borgarleikhúsinu - Jesus Christ Superstar

Á laugardaginn brugðum við okkur þrjár kynslóðir saman á Jesus Christ Superstar, þá frábæru rokkóperu sem er nýfarið að sýna í Borgarleikhúsinu. Sýningin var hreint út sagt frábær, mögnuð uppfærsla og geggjuð upplifun út í gegn. Það er ekki oft sem maður vill ekki að sýning endi, og ekki oft sem áhorfendur standa upp í lokin og fagna með klappi og hrópum! Ég er mikill aðdáandi verksins og hef séð þær uppfærslur sem hér hafa verið gerðar, en þessi var algjörlega frábær, enda vorum við saman þrjár kynslóðir sem allar skemmtu sér vel í sinni upplifun á verkinu. Allir sem sungu aðalhlutverkin fengu að njóta sín samkvæmt því sem hæfði þeirra hlutverki, Krummi firnagóður og trúverðugur sem Jesús og Jens feikilega sterkur sem Júdas, enda býður það hlutverk jafnan upp á mikil tilþrif. Lára var æðisleg sem María Magdalena, Ingvar sem Pílatus og Bergur sem Heródes ...og bara allir sem komu fram í sýningunni. Það skín af þeim áhuginn og vandvirknin. Og þótt gaman sé að lesa leikdóma í fjölmiðlum, þá vil ég hvetja fólk til að láta sinn eigin smekk ráða, því þetta var gæsahúð allan tímann og ég gef sýningunni 6 stjörnur af 5 mögulegum!

Af Rómverjum, englum og djöflum

Roma, Fontana di TreviFjölskyldan brá sér til Rómar í vetrarfríi barnanna, enda kjörið tækifæri til að kynna þeim vöggu evrópskrar menningar um leið og kíkt er í búðir og borðaður góður matur. Róm er ein af mínum uppáhaldsborgum í Evrópu og þreytist ég seint á að detta um sögu, menningu og fegurð við hvert götuhorn. Svo á ég frábæran vin í Róm, hann Tito, sem finnst ekki tiltökumál að hitta fólk og leiða það um götur og veitingastaði borgarinnar. Í þetta sinn kenndi hann dætrunum allt um pizzur og pasta og útskýrði að ekki má setja hvaða sósu sem er á hvaða pasta sem er! Að áeggjan Titos keypti ég bók Dan Browns, Engla og djöfla, sem einmitt gerist í Róm og las hana í næstu flugferðum mínum. Hún er hræðilega spennandi og mun betri en da Vinci lykillinn, ég mæli með henni. Að öðru leyti gengum við okkur til óbóta í Róm, versluðum pínu, borðuðum mikinn og góðan mat og drukkum í okkur menningu og sögu. Tito leysti mig svo út, eins og venjulega, með heimalöguðu Limoncello, namm, namm!

Það verður sko engin rúta, það verður langferðabíll !

Þessi setning er ein af þeim bestu úr íslenskum myndum. Djúp og hefur víðtæka tilvísun í það sem Stinni stuð vildi segja í skemmtimyndinni Með allt á hreinu. Annars var fyrsta setningin sem mér datt í hug með Arnold "Hasta la vista, baby!" en hún þýðir svosem það sama, þannig að það er alltaf gaman að eiga von á kallinum aftur.
mbl.is Vinsælast að lofa endurkomu að hætti Tortímandans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Visakort eða dvalarleyfi?

Alltaf gaman að skemmtilegum þýðingum, eins og í sjónvarpsþætti nú í kvöld, þegar söguhetjurnar komu að vegatálma vörðuðum hermönnum í Rússlandi, og hann sagði: "there is a roadblock ahead, and my visa has expired" sem var snilldarlega þýtt: "vegartálmi framundan og kortið mitt er útrunnið"! Skenntlegt!

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband